„Júróvisjón”... Þú hefur skoðun, ég hef skoðun, það hafa allir skoðun á þessu fyrirbæri sem þú annaðhvort elskar eða elskar að hata. Fyrirbærið er orðið rótgróið í menningu okkar frónbúa að það eitt að nefna keppnina á nafn gæti dugað til að enda Tinder-stefnumótið þitt á núll-einni eða rífa deitið upp í hæstu hæðir ef að viðkomandi reynist vera aðdáandi. Og þeir eru æði fjölmennir þrátt fyrir að margir þeirra kjósi að dýrka júró á laun.
Mér hefur verið falið það skemmtilega hlutskipti að lýsa þessu fyrirbæri „Júróvisjón”, eða Eurovision fyrir þá sem vilja vera formlegir, næstu vikuna fyrir lesendum Kjarnans. Ég er af öðru sauðahúsi en flestir þeir álitsgjafar sem hingað til hafa látið til sín taka á þessum vettvangi. Ég hef sex sinnum farið á keppnina, tvisvar sem höfundur, og alls hef ég samið 14 lög sem ratað hafa í úrslit heima á Íslandi.
Heimur Eurovision er lagskiptur. Við ysta byrði hans er að finna „Jón & Gunnu”, gangandi vegfarendur sem fylgjast með álengdar. Síðan koma hefðbundnir aðdáendur og svo Eurovision-bloggarnir svokölluðu. En þegar maður færir sig nær kjarna júróheimsins hækkar hitastigið og þegar komið er inn að mötli hans, fyrir framan sjálft sviðið, er hitastigið og svitakófið nær óbærilegt. Þar eru ansi margir smámæltir og konur eru sjaldgæf sjón. Þar sem ég stóð fremst við sviðið á Eurovision í fyrsta skipti og flaut um í hafsjó hundruð þýskumælandi karlmanna sem allir virtust hafa notað sömu þvottavélina því bolirnir þeirra höfðu skroppið saman um svo mörg númer að það blasti í magann hjá þeim flestum, velti ég því fyrir mér hvort margir aðrir gagnkynhneigðir menn hefðu komið á þennan stað áður. Staðalímyndarkennt en satt.
En líkt og í öllum góðum fjallgöngum þá reynir bakaleiðin ekki síður á. Það tók mig til að mynda um tvær vikur að hætta að kyssa vinnufélaga og aðra meðlimi í rokkhljómsveitinni minni á kinnina eftir að heim var komið, eftir að hafa vanist slíkum siðum sem hversdagsleika í Eurovision-heimum. Mönnum var brugðið en buðu skeggjaðan vangann til niðurtröppunar. Eftir þrjár vikur var ég aftur farinn að tala um „Júróvisjón“ en ekki „Euroviþion“.
„Júróvisjón“ er þó stórkostleg skemmtun heilt á litið. Það sést ekki síst á því að sömu andlitin eru viðloðandi keppnina heima, aftur og aftur og aftur. Og jú jú, ég hef verið þar á meðal. Fastagestir RÚV, ég og aðrir Júróhöfundar sem birtast landsmönnum árlega á skjánum, erum svolítið eins og drukkna ólánskonan sem ég sá fyrir utan Mónakó um daginn. Það var búið að loka, en hana langaði í meira vín, og lamdi pinnahælunum í hurðina og heimtaði að þeir myndu opna barinn á ný. Ég veit upp á mig sökina, en ég skammast mín ekki neitt. Þetta er bara svo djöfull skemmtilegt.
Keppnin í ár er haldin í Stokkhólmi, Svíþjóð. Borgina þekki ég vel en hér hef ég starfað sem læknir af og til þegar vinnuumhverfið heima á Íslandi hefur gengið nærri heilsunni. Svíar eru flestir hverjir Júró-óðir og undankeppni þeirra „Melodifestivalen” er líkast til stærri viðburður en sjálf lokakeppnin. Þetta er með öðrum orðum einn fárra staða í heiminum þar sem ég gæti fengið frítt að drekka fyrir fyrri Júró-afrek. Það er löngu tímabært reyndar því ég hef ekki fengið bjór á barnum fyrir slík síðan 2007, er ég var staddur á hinum geggjaða skemmtistað „Don’t tell mama” í Helsinki. Þar bauð tveggja metra maður í rasskinnalausum leðurbuxum að nafni „Timo Hämäläinen” mér upp á drykk og sánu á eftir. Ég þáði drykkinn en ákvað ég að eiga sánuna inni. Og addaði honum frekar á Facebook í sárabætur.
Sveinn Rúnar Sigurðsson er læknir um fertugt, fyrirtækjaeigandi og lagahöfundur sem er illa þjakaður af Eurovision-blæti. Hann er nú staddur í Stokkhólmi til að upplifa keppnina og mun skrifa daglega pistla um þennan merka menningarviðburð á Kjarnann á meðan að á henni stendur.