6. maí 2004. Jóhanna frá RÚV hringir í mig snemma morguns. „Þú hefur unnið Eurovision” sagði hún. Ég var ekki alveg að meðtaka skilaboðin, hafði sofið illa um nóttina eftir að hafa hætt með kærustunni kvöldið áður. Ég átti líka bágt með að trúa því að handónýta demóið mitt hefði borið sigur úr býtum úr risavöxnum lagabunkanum sem RÚV barst í keppnina. Það var engin undankeppni þetta árið. Það átti bara að velja kandidat úr innsendum lögum til að rústa þessu. Þeir völdu demóið mitt, panflauta í forgrunni með trommutakt úr takt og rafmagnspíanó í bakgrunni. Það vantaði einnig millikaflann en RÚV sá það mikla snilld í þessu að þetta varð fyrir valinu.
Ég fór á stúfana í leit að textahöfundi og Magnús Þór Sigmundsson varð fyrir valinu. Við hittumst svo á heimili hans þar sem hann tók á móti mér í of stuttum baðslopp og hlýddi á demóið. Meistari Magnús var snöggur að lesa í ungviðið og spurði mig varfærnislega hvort ég væri í ástarsorg. Ég jánkaði því og þá fékk Maggi þá hugmynd að skrifa um sorgina, gera lagið að svanasöng mínum og kæró. Jónsi í Svörtum Fötum var svo fenginn til að flytja verkið. Við kýldum á myndband þar sem mótífið var innsiglað í dramatískasta júrómyndbandi allra tíma. Í myndbandinu sést Jónsi þenja hálsæðarnar um leið og hann sópar Polaroid myndum af sér og kæró af eldhúsborðinu. Í einu skotinu sést kæró gráta yfir myndskeiði af sér og Jónsa hlaupandi um á strönd. Gallabuxurnar eru brettar upp að hné. Þetta eldist ekki vel og þjóðin varð ekki hrifin.
Ég stóð þó á þeirri meiningu að ég yrði heimsfrægur. Í alvörunni trúði ég því að feitlaginn verðbréfamiðlari frá nánast Norðurpólnum með snert af ofvirkni yrði næsti Justin Bieber. Ég drullaði mér í ræktina og hristi af mér nokkur kíló fyrir keppnina í Istanbul. Það var allt að gerast. Ég var farinn að fá aðdáendapósta. Lycos leitarvélin skilaði hundruðum hlekkja við það að slá nafninu mínu inn (Árið er 2004, nota bene). Þetta var geggjaður tími.
Mér var þó kippt á jörðina í einni svipan. Það gerðist á fyrsta blaðamannafundinum þegar við mættum til að sitja fyrir svörum. Í salnum voru um 600 manns, blaðamenn að því ég hélt. Fyrsti blaðamaðurinn stóð upp og spurði Jónsa : „Ertu ekki til í að rífa þig úr að ofan drengur”. Það var þá, ákkúrat þarna, sem ég áttaði mig á því að mögulega snérist þessi viðburður um eitthvað annað en bara tónlistina. Það er svo í lagi að segja frá því núna, þar sem við Jónsi höfum hvor í sínu lagi orðið algjört söksess, að sviðsetningin og flutningurinn hefði mátt ganga betur. Við enduðum í 19. sæti með Heaven. Aðdáendur mínir, báðir tveir, hurfu um leið og stigin lágu fyrir. Ég fékk þó uppreisn æru nokkrum árum síðar er eldri kona utan af landi hringdi í mig og sagði mér að Heaven hefði hjálpað sér í gegnum sorgina. Kötinn Kela hafði hún átt í tæp 20 ár og henni fannst lagið minna sig á kisa litla. Markmiðinu var náð, ég kom við hjartað á einhverjum þarna úti. Maður biður ekki um meira.
Ég held að allir þeir sem komið hafa fram fyrir Íslands hönd hafi svipaða sögu að segja. Þetta fár í kringum keppnina kemur flestum í opna skjöldu. Stærðin á viðburðinum og allt húllumhæ í kringum hann, er nánast ótrúlegt. Gréta Salóme býr nú þegar að þessari reynslu og það mun nýtast henni.
Heroes og Euphoria hljóma á umferðarljósum um alla borg.
Gréta blómstraði á opnunarteiti Eurovision sem var haldið í gamla miðbæ (gamla Stan) Stokkhólms í blíðskaparveðri í gær. Yfir 2000 gestir auk flytjenda voru á staðnum. Ég kom auga á 10 – 20 konur sem gæti mögulega verið met. Uppsetningin á opnunarteitinu er farin að minna verulega á útsendinguna af rauða dreglinum á Óskarnum. Það er mikið spáð í föt og kjóla. Mér sýndist hönnuðir H&M koma sterkir inn í ár. Ég er sjálfur þekktur fyrir skelfilegan klæðaburð og fatastíl og álit mitt ætti ekki að vega þungt, en mér fannst Gréta mjög töff í dressi sem hún hannaði sjálf. Það var einn flytjandi þarna í hálfum blazer jakka. Það kom ekki vel út og ég efa að þetta verði trend á næstunni.
Þessi seremónía að ganga eftir rauða dreglinum tók heldur mikinn tíma fyrir minn smekk. Mögulega spilar það inní að einhverjir flytjendur hafa aldrei gengið á rauðu teppi áður. En svo er vissulega að finna stjörnur í hópi flytjenda sem náð hafa miklum árangri í heimalöndum sínum. Heilt yfir var partýið gott. Ég gef því 8 af 10 mögulegum. Flytjendur tóku lagið, gleðin var allsráðandi og Svíarnir, Carslberg & Gustavsberg, stóðu fyrir sínu.
Í dag fara fram æfingar og á morgun fer fram fyrsta undankeppnin af tveimur. Meira um það þá.
Sveinn Rúnar Sigurðsson er læknir um fertugt, fyrirtækjaeigandi og lagahöfundur sem er illa þjakaður af Eurovision-blæti. Hann er nú staddur í Stokkhólmi til að upplifa keppnina og mun skrifa daglega pistla um þennan merka menningarviðburð á Kjarnann á meðan að á henni stendur.