Í kvöld hefst Eurovision en þá munu 17 lög sem raðað hefur verið í fyrri undanriðilinn keppa um að komast í úrslitin sem fram fara næstkomandi laugardag. Alls fara 10 lög áfram. Allt til ársins 2007 var einungis ein undankeppni haldin. Þá kepptu 28 lög um sömu 10 sætin. „Valentine Lost” í flutningi Eiríks Haukssonar var síðasta lagið sem fékk að kenna á miklum fjölda laga í undankeppninni. Það var lag sem ég samdi hálfu ári áður í Kænugarði, Úkraínu, undir morgunsárið á leið heim eftir gott djamm með lukkudýri hljómsveitarinnar Wig Wam, Pig Wam. Þrátt fyrir þéttan flutning og stælta karlmenn í netabolum að þykjast spila á fjögur stykki rafmagnsgítara komst lagið ekki áfram og endaði í 13 sæti af þessum 28. Þetta var ferlega fúlt og mér hafði ekki gefist tími til að jafna mig áður en Jónatan Garðarson, vinur minn og umsjónarmaður með íslensku Júróvisíon hópunum síðan 1986, stakk míkrófóni nánast upp í mig og spurði mig gallharður : „Hvað klikkaði?”. Stutt Wintris viðtal fylgdi í kjölfarið.
Það eru vinir vorir frá Finlandi sem opna keppnina í kvöld með 90’s lummunni „Sing it away”. Mér þykir vænt um Finna og hef sótt höfuðborgina heim margoft. Þeir minna um margt á okkur Íslendinga. Eru nokkuð dulir, „How do you like Finnland” er algeng spurning, enskuhreimurinn er ámóta þykkur og þeir geta verið klunnalegir er kemur að víndrykkju.
Næstir á svið eru Grikkir. Eins og svo oft áður notast þeir við þjóðleg hljóðfæri í útsetningum sínum en það má heyra Toubeleki, Trigono og Tympano í intróinu. Um leið og intróið er búið krassar lagið í leiðindum með skelfilegum rappkafla og viðlagi sem aldrei nær flugi.
Moldovía teflir fram söngkonunni Lidíu Isac sem flytur eitt 12 laga keppninnar í ár sem eru eftir sænska höfunda. „Falling stars” heitir það og nafn lagsins er viðeigandi. Þetta hefur verið gert hundrað sinnum áður. Enskan flækist fyrir henni en henni gengur þó betur en Anjezu Shahini frá Albaníu sem ég atti kappi við 2004. Anjeza kunni litla ensku blessunin og söng eftirminnilega “... slave of my love, of my emotions. You in my ass, you’re in my heart...”, og svo sóló. Það lag má heyra hér fyrir neðan :
Næstir á sviðið eru Ungverjar. Ungverjar eru stórtækir í útflutningi á landbúnaðarvörum og innflutningi á girðingarefni. Þeir tefla fram Freddie, sigurvegara „Rising star” söngvakeppninnar sem haldin var 2014 í Búdapest. Freddie flytur rokkaða slagarann „Pioneer” sem er með góðum húkk í viðlaginu sem ætti að skila honum í úrslitin.
Nina Kraljic er fulltrúi Króata og næst í röðinni. Hún flytur popp-ballöðuna Lighthouse. Mér finnst þetta flott lag. Látlaust með smekklega útsetningu að vopni og stelpan hefur gott vald á hljóðfæri sínu. Flautur og slaufuhendingar hjá söngvaranum gefa laginu írskan blæ en þjóðlega gítarhljóðfærið Tamburica sem að skeytt er inn á milli hendinga í viðlaginu kemur upp um uppruna lagsins. Gott stöff.
Hollendingar tefla fram enn einu kántrískotna framlaginu. Ég spái laginu árangri, ekki í keppninni þó, heldur mögulega í tryggingarauglýsingu á næstunni.
Það eru svo Armenar sem að loksins byrja Júróvisíon partýið. Skotheld útsetning að hætti Svía með geggjuðum þjóðlagakafla á milli viðlaga. Það eina sem lagið líður fyrir er lengdin en eins og flestir vita mega lög í keppninni ekki vera lengri en þrjár mínútur. Lagið endar heldur snubbótt en kemur þó ekki að sök. Iveta flýgur í úrslit.
Smáríkið San Marino er með atriði sem ég næ ekki alveg utan um. Þeir tefla fram flytjanda að nafni Serhat og laginu „I didn’t know”. Ég er nokkuð sannfærður um að margir karlmenn á aldri við mig finnst sem að þeir hafi heyrt þetta lag áður, í kvikmyndum sem þeir áttu á VHS spólum og geymdu undir rúmi.
Næstir eru Rússar. Margir spá þeim miklum árangri í ár. Þeir vita að sjónræn framsetning skiptir miklu og með aðstoð þrívíðartækkni er atriði þeirra glæsilegt. Lagið ber sig þó ekki eitt og sér, en gæti farið langt með magnað sjónarspilið að vopni.
Tékkum hefur ekki gengið vel í keppninni en breyting verður á í ár. Vinur minn Aidan O’Connor er í höfundateymi Tékka og ég spái því að þeir fari áfram. Dramatískt lag sem klímaxar í flottum viðlagshúkk og vel heppnaðri brú. Hér þarf að hækka í græjunum.
Næstir eru Kýpverjar með lag eftir einn mesta atvinnumanninn í Eurovision, Thomas G:son. Hann er einn höfunda Euphoria. Heilinn á bakvið það lag er þó félagi minn Peter Boström sem er einn snjallasti útsetjari og pródúsent Svía. Lagið er svolítið klisjukennt, útsetningin svolítið úttroðinn og gamaldags, ekki síst á árinu 2016 þegar „less is more” er það sem menn leitast eftir við smíði á hljóðheimum.
Austurríki er næst með lagið „Loin d’ici”. Þeir endurtaka stærstu mistök Frakklands í keppninni og syngja á frönsku. Lagið er þó krúttlegt og því er almennt spáð góðu gengi. Stemningin í laginu minnir svolítið á „Moi Lolita” eftir Alizee. Það telst þeim þó einatt til tekna að lagið hljómi kunnuglega. Sætt.
Eistland teflir fram Juri Pootsmann með laginu „Play”. 60’s áhrifin eru allsráðandi í útsetningu og sniðið á jakkafötunum passar vel við þau áhrif. Flottur náungi en efa að lagið muni gera mikið.
Azerbaijan hefur ævinlega gengið vel í keppninni. Þeir hafa notast við sænska höfunda og geggjuð nútímaleg útsetningin ber þess glögglega merki að svíar standi að baki laginu í ár. Það er sönkonan Samra sem býður upp á lagið „Miracle” og hljóðheimur lagsins er á pari við það besta sem að elektróníska tónlistarsenan býður uppá í dag. Mér finnst viðlagið þó vera veikasti punktur þess en atriðið flýgur í úrslit. Þeir notast við fraseringu í orðinu „Mirror” sem minnir mig mikið á húkkinn í laginu “Paradise” með Coldplay. Það kemur þó ekkert að sök. Gott stöff.
Svartfjallaland teflir fram bandinu Highway með lagið „The real thing”. Mér finnst þetta nokkuð töff. Þungt rokk með dub-step áhrifum. Gefa skít í eurovision formúlurnar og fá plús í kladdan fyrir það. Var annars í Svartfjallalandi um daginn, mæli með heimsókn til strandaborganna Budva og Bar en höfuborgin Podgorica var ekki eins spennandi.
Ísland er næst á dagskrá. Það er Greta Salóme sem stígur á svið með lag sitt „Hear them calling”. Þetta er í annað sinn sem Greta keppir í Eurovision. Eins og við er að búast þegar Greta er annars vegar er útsetning lagsins og atriðið sjálft skothelt. Greta hefur verið að klifra upp vinsældarlistana hjá veðbönkum og þar kemur reynsla hennar klárlega við sögu. Hún hefur staðið sig vel á æfingum og framkoma hennar hefur vakið eftirtekt. Greta er verðugur fulltrúi landsins og hún fær hrós fyrir það að gerast hæfilega pólítísk með skilaboðunum í laginu. Ég þekki það sjálfur í mínu starfi sem læknir að skilaboð Gretu eiga því miður vel við á árinu 2016. Til hamingju með árangurinn Greta mín, njóttu augnabliksins. Áfram Íslands.
Næst á eftir Íslandi er Bosnía með lagið „Ljubav Je”. Lagið byrjar á fallegum þjóðlegum nótum og gæti allt eins verið eftir eftir hinn goðsagnarkennda serbneska höfund, Zeljko Joksimovic en fljótlega kemur annað í ljós. Erindin eru leiðinleg og það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið að kórusinn er enn verri með óbærilegum rapp-kafla. Þessi pissupása hefði verið betur staðsett um miðbik riðilsins en ekki hér í blálokin.
Einn flytjenda lagsins, Deen, flutti eitt vinsælasta lag keppninnar 2004 en við öttum kappi í Istanbul það árið. Þá söng hann hið magnaða „In the disco” með danshreyfingum sem tröllriðu dansklúbbum Istanbul borgar meðan á keppni stóð. Við hittumst svo á salerninu í opnunarpartýinu í Istanbul. Við vorum að kasta af okkur vatni hlið við hlið er hann áttaði sig á því að ég væri höfundur íslenska framlagsins. Hann sagði að við værum í algjöru uppáhaldi hjá sér, kynnti sig um leið og hann losaði hægri hendina af félaganum og setti hana nánast upp í mig svo ég gæti kysst hans hátign á handarbakið. Með samanherptar varirnar þekktist ég boðið meðan hann sprændi í þvagskálina. Við eyddum svolitlum tíma saman þarna úti, þrælskemmtilegur strákur en því miður er framlagið hans í ár ekki gott. Sorrí Deen.
Síðasta lag kvöldsins er svo frá Möltu. Malta hefur ávalt tekið keppnina alvarlega og teflt fram vönduðum útsetningum og atriðum, burtséð frá gæði lagana. Lagið þeirra í ár er þrusu gott og ber nafnið „Walk on water”. Lagið er nútímalegt hvað útsetningu varðar og notast við mikið unnar raddupptökur sem búið er að hraða, hækka um áttund og breyta í raun í hljóðfæri. Þessi tækni er mikið notuð í elektrónískri tónlist í dag. Frægasta dæmið er líklegast notkun radda í laginu „Where are you now” með Justin Bieber. Það sem virkar eins og elektrónískur synthesizer er í raun rödd Justins sem klippt hefur verið til, hækkuð, snúið við og hraðað þannig að útkoman er framandi hljóðfæri. Samkvæmt reglum ESC verða allar raddir að verða fluttar á sviði en ekki af upptöku. Ég vona þó að svona hljóðvinnsla verði leyfð til að lög keppninar geti nýtt sér nútíma upptökutækni / hljóðblöndun til útsetningar.
Þá er upptalning á lögum kvöldsins öll. Njótið vel.