Leonard Cohen sendi frá sér sína fyrstu plötu árið 1967, fyrir tæplega 50 árum. Frá þeim tíma hefur hann skapað sér orðspor sem einn áhrifamesti texta- og lagasmiður sinnar kynslóðar. Hann lést í vikunni, 82 ára að aldri.
Alveg fram á þetta ár sýndi Cohen listir sínar á sviði, en hann hafði áhrifamikla nærveru á sviði og rödd hans – djúp og breið – leiddi fólk áfram í gegnum sögurnar sem lög hans og textar innihalda.
Röddin sem aldrei gleymist
Röddin mun ekki gleymast. Spor Cohen í tónlistarsögunni eru óvenjulega djúp, eins og röddin.
Síðasta viðtalið sem Cohen veitti var í sumar þegar David Remnick, blaðamaður New Yorker, heimsótti hann á heimili hans í Los Angeles. „Ég er tilbúinn að deyja“ var það fyrsta sem Cohen sagði, áður en hann fór í gegnum ítarlegt stöðumat á ferli sínum.
Skilaboðin voru tiltölulega einföld frá honum. Hann sagðist vera sáttur við lífsverk sitt, þrátt fyrir erfiðleika og ýmsar hindranir, og að þá mætti þessu bara ljúka. Innan við hálfu ári seinna kvaddi hann.
Cohen sagðist í viðtalinu vera heppinn, þar sem hann hefði fjölskyldu með sér í öllum hans störfum, sem gæfi honum svigrúm til að sinna henni eins og hann gæti best. Þetta væru hans forréttindi, og ástæðan fyrir löngum ferli. „Án fjölskyldunnar þá væri ég ekki að gera þetta. Það væri ómögulegt, því hún er mitt bakbein,“ sagði Cohen við Remnick.
Endurnýjun
Þó stíll Cohen – lágstemmd textasnilld með grípandi melódíu – hafi alltaf verður sérstakur, og beintendur hans persónu, þá hefur hann endurnýjar aðdáendahóp sinn í gegnum allan ferilinn. Þetta hefur meðal annars gerst í gegnum áhuga annarra tónlistarmanna á honum og lögum hans. Sá frábæri tónlistarmaður, Jeff Buckley, sem lést árið 1997 aðeins 32 ára gamall, gerði lagið Hallelujah eftirminnilega að sínu á plötunni Grace. Margir tónlistarunnendur hafa kynnst Cohen í gegnum hann í seinni tíð.
Útgáfa Cohens verðu þó alltaf frumkrafturinn. Eitthvað sem einkenndi hann alla tíð. Heilindi gagnvart viðfangsefninu, listinni og sögunum.
Áföllin sem tónlistarheimurinn hefur orðið fyrir á árinu, með fráfalli David Bowie, Prince og nú Cohen, eru mikil og þung. En tónlist þeirra lifir, og í tilfelli Cohen þá eru það ekki síst sögurnar sem hann sagði í textum sínum, um sígild viðfangsefni lífsins, sem verða á spjöldum tónlistarsögunnar um ókomna tíð.