Á þessum degi fyrir réttu 31 ári síðan, hinn 25. febrúar 1986, flúði Ferdinand Marcos, forseti Filippseyja, land. Hann hafði stjórnað landinu með harðri hendi í tuttugu ár, áður en mótmæli milljóna almennra borgara hrakti hann loks á braut.
Marcosar er enn í dag helst minnst fyrir grimmdarverk sín og gegndarlausa spillingu, en hann var meðal annars, í úttekt Transperancy International árið 2004, talinn annar spilltast þjóðhöfðingi allra tíma, á eftir Suharto einræðisherra Indónesíu.
Marcos fæddist árið 1917 og nam lögfræði áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum, á árunum eftir seinna stríð. Hann sat á þingi, fyrst í fulltrúadeildinni og síðar í öldungadeildinni, áður en hann var kjörinn forseti í árslok 1965.
Herlög gegn andófi og skæruliðum
Í fyrstu virtist Marcos ætla að ná góðum árangri við stjórn landsins þar sem landbúnaður og iðnaður tóku stór stökk fram á við, sem og menntun, en þrátt fyrir það var rísandi undiralda óánægju meðal ungmenna og skæruliðahreyfingar Maóista börðust hatrammlega gegn stjórnarhernum.
Því greip Marcos til þess ráðs, haustið 1972, að setja á herlög til að stemma stigum við óróanum. Aðgerðir Marcosar einkenndust öðru framar af valdbeitingu þar sem hernum var beitt í þágu stjórnarherrans og allt andóf var barið niður af hörku. Talið er að þúsundir Filippseyinga hafi verið drepnir eða mátt þola pyntingar, nauðganir eða annars háttar ofbeldi af hálfu stjórnarliða á þessum árum, en herlögin giltu allt til ársins 1981.
Helsti andstæðingurinn ráðinn af dögum
Einn helsti andstæðingur Marcosar á þessum tíma var Benigno Aquino Jr, en Marcos lét fangelsa hann eftir að herlögin voru sett. Aquino var dæmdur til dauða, en Marcos breytti dómnum árið 1980 og hleypti honum til Bandaríkjanna vegna veikinda. Þar var Aquino í þjú ár, en eftir að Marcos boðaði til forsetakosninga árið 1983 ákvað Aquino að láta slag standa.
Það átti hins vegar ekki fyrir honum að liggja þar sem hann var ráðinn af dögum um leið og hann steig út úr vélinni á flugvellinum í Manila. Morðið vakti upp mikla óánægjubylgju, enda þótti sýnt hverjir – eða hver – stóð á bak við ódæðið. Óháð nefnd, sem Marcos skipaði til að komast til botns í málinu, komst að þeirri niðurstöðu að þarna hefði verið að verki yfirmenn í hernum. Þeir voru þó sýknaðir fyrir rétti og enginn var á endanum dæmdur fyrir morðið.
Þar sem helsta andstæðingnum hafði þarna verið rutt úr vegi var Marcos nógu sigurviss til að boða til nýrra kosninga, árið 1986. Mótframboðið kom hins vegar á óvart, en það var Corazon Aquino, ekkja Benignos.
Fall og flótti
Þegar úrslit kosninganna lágu fyrir var Marcos yfirlýstur sigurvegari, en eftirlitsaðilar, bæði innanlands og utan, töldu að framkvæmd kosninganna hafi verið ábótavant og tugþúsundir streymdu út á götur borga og bæja til að mótmæla. Herinn var klofinn í afstöðu sinni til frambjóðendanna, en svo fór á endanum að Marcos og fjölskylda hans höfðu sig á brott frá Filippseyjum, að áeggjan Bandaríkjastjórnar sem hafði um árabil stutt hann með ráðum og dáð. Aquino tók við völdum og sat til ársins 1992. Marcos lést árið 1989 í útlegð á Hawaii.
Spilling og gripdeildir á heimsmælikvarða
Marcosar verður sennilega helst minnst fyrir gegndarlausan þjófnað og spillingu og lífstíl þeirra hjóna, sem náði oft kómískum hæðum á meðan almenningur bjó við fátækt og takmörkuð tækifæri. Imelda, kona einræðisherrans sem hafði sjálf um árabil verið ein af áhrifamestu stjórnmálamönnum Filippseyja, var til dæmis alræmd fyrir dálæti sitt á skóm og átti víst 3.000 pör þegar yfir lauk.
Alls er talið að Marcosarfjölskyldan hafi dregið sér allt að 10 milljarða Bandaríkjadala úr ríkiskassanum á meðan þau héldu um valdataumana, og aðeins brot þeirra fjármuna komust seinna til skila. Á árunum frá 1972, þegar Marcos setti herlög, og fram til flóttans jukust erlendar skuldir filippseyska þjóðarbúsins úr tæpum þremur milljörðum Bandaríkjadala upp í rúma 28 milljarða.
Óvænt endurreisn Marcosanna
Í flestum tilfellum lýkur frásögnum af einræðisherrum með því að þeir hafi fallið sneyptir/öreindir af stalli, og svo virtist sannarlega ætla að vera um Marcos-hjónin þar sem þau eru nú eins konar holdgervingar spillingar og óráðsíu.
Hins vegar hafa Imelda og börn hennar verið að ryðja sér sífellt meira til rúms í filippseysku samfélagi og stjórnmálum hin síðustu ár og sér ekki enn fyrir endann á því í hinu stórfurðulega og hættulega ástandi sem þar ríkir nú um stundir.
Marcos og Imelda voru ákærð fyrir fjármálamisferli á meðan þau voru í útlegðinni í Bandaríkjunum, en, eftir andlát einræðisherrans árið 1989 var Imelda sýknuð af öllum ákærum. Hún flutti aftur hein til Filippseyja árið 1991 og var sakfellt fyrir spillingu tveimur árum síðar, en 1998 var dómnum snúið við.
Síðan þá hafa Imelda og börn hennar; Ferdinand yngri (almennt kallaður Bongbong) og Imee gert sig gildandi í stjórnmálalífi Filippseyja. Imelda hefur um árabil verið þingmaður í fulltrúadeildinni, Imee er héraðsstjóri í heimafylki föður síns og Bongbong var öldungardeildarþingmaður sem tapaði naumlega í kosningu til varaforseta Filippseyja á síðasta ári.
Falskar fréttir, valkvæðar staðreyndir og velvilji nýs forseta
Merkilegt fyrirbæri er að arfleifð Marcosar virðist vera að breytast í augum almennings í Filippseyjum þar sem undanfarið hefur borið á skipulagðri herferð þar sem fagmannlega unnum myndböndum hefur verið dreift þar sem Marcos-fjölskyldan er útmáluð sem fórnarlamb Aquino-ættarinnar (Corazon gegndi embætti forseta frá 1986 til 1992 og Beningo III, sonur hennar stýrði landinu frá 2010 fram á síðasta ár). Þá dreifa nafnlausar bloggsíður og vafasamar fréttasíður greinum sem fylgja mjög málstað Marcos-ættarinnar auk þess sem Facebookfærslum þar sem þeim, eða Rodrigo Duterte forseta er hallmælt, hefur verið eytt.
Falskar fréttir og valkvæður sannleikur eru greinilega ekki alfarið bundin við Bandaríki Donalds Trump og Rússland Pútíns.
Það er ef til vill engin tilviljun að þessi upprisa Marcosanna sé að eiga sér stað einmitt núna, eftir að Duterte tók við völdum, því að hann hefur talað af aðdáun um Marcos gamla (enda gegndi faðir Dutertes ráðherraembætti í stjórn Marcosar) og naut stuðning Imee í kosningunum.
Hinsta hvíla harðstjórans í hetjufans
Duterte toppaði sig svo loks í nóvember á síðasta ári, þegar hann fékk í gegn baráttumál sitt að jarðneskar leifar Ferdinands Marcos voru lagðar til hinstu hvílu í Grafreit hetjanna í höfuðborginni Manila.
Það þótti mörgum vera gróf móðgun við almenning sem þurfti að líða ofríki og ofbeldi harðstjórans og ekki síst þeirra fjölmörgu sem voru drepnir á valdatíð hans. Með þessu væri verið að gefa til kynna að grimmdarverkin hafi ekki skipt máli.
Duterte lét slíka gagnrýni þó ekki á sig fá, heldur sagði að ekkert í lögum landsins bannaði það að Marcos væri jarðsettur á þessum stað. Hann hvatti heldur til þess að Filippseyingar myndu finna fyrirgefningu í hjarta sínu, til að hægt væri að græða sár fortíðarinnar.