Á þessum degi fyrir réttum 247 árum síðan, hinn 5. mars árið 1770, sló í brýnu milli nýlendubúa og breskra hermanna í Boston. Úr varð eftirminnilegur hildarleikur þar sem fimm lágu í valnum og með því er talið að neisti hafi hlaupið í púðurtunnuna sem varð til þess að frelsisstríð amerísku nýlendanna braust út.
Kergja vegna skattlagningar
Umræddir atburðir áttu sér nokkurn aðdraganda þar sem kergja hafði verið að byggjast upp í nýlendunum allt frá því að breska þingið lagði sérstakan skatt á pappírssölu þar („The Stamp Act“) árið 1765. Það þótti nýlendubúum gróf aðför að réttindum þeirra, þar sem þeir álitu að einungis stjórnvöld í nýlendunum sjálfum ættu að hafa skattlagningarvald yfir íbúum þeirra.
Breska ríkið var hins vegar að horfa til þess að taka inn frekari tekjur frá vesturheimi til að bjarga fjárhagi ríkisins, sem stóð talsvert höllum fæti eftir hið svokallaða Sjö ára stríð þar sem Bretar tókust meðal annars á við Frakka um yfirráð yfir nýlendum í Norður-Ameríku og sigruðu.
Stamp Act mætti harðri mótspyrnu og var brátt afnumið, en Bretar voru staðráðnir í því að afla frekari tekna í ríkissjóð með skattlagningu í nýja heiminum. Þá var einnig reynt, ljóst og leynt, að bæta hag Austur-Indíafélagsins sem átti í rekstrarerfiðleikum.
Ein af þeim aðgerðum sem lagt var í The Townshend Acts, sem var sett á árið 1767 og fól í sér tolla á margs konar innfluttan varning. Það var enn til að æra nýlendubúa sem lifðu eftir slagorðinu „No Taxation Without Representation!“, en það fól í sér að á meðan nýlendubúar ættu sér ekki málsvara á breska þinginu, myndu þeir aldrei sætta sig við skattlagningu af hendi þess.
Talverður órói einkenndi því samskipti almennings og yfirvalda á þessum tíma. Einna helst í Massachusetts og sérstaklega Boston þar sem brugðið hafði verið á það ráð að kalla til hóp hermanna til að verja tollheimtumenn gegn aðkasti.
Stundum lenti hermönnum og heimamönnum saman, eins og dag einn í byrjun mars 1770, á bryggjunni í Boston þar sem tugir tóku þátt í hasarnum.
Fullvíst var talið að uppúr myndi sjóða áður en langt mundi líða og þess var sannarlega ekki langt að bíða.
Ófriður við tollhúsið
Að kvöldi hins 5. apríl söfnuðust bæjarbúar í Boston enn einu sinni saman til að mótmæla skattlagningarstefnu Breta og fóru að láta snjóboltum og grjótum rigna yfir tollhúsið og hinn eina hermann sem þar var á vakt, Hugh White að nafni. White hafði gert illt verra með því að slá ungan mótmælanda fyrir að móðga einn yfirmanninn í breska herliðinu. White kallaði til liðsauka og komu átta hermenn til viðbótar á svæðið en máttu láta það sama yfir sig ganga.
Þeir máttu sín lítils gegn æfum hópi, sem taldi, að því að haldið er, á milli þrjú og fjögur hundruð manns. Hermennirnir röðuðu sér upp í hálfhring fyrir framan aðaldyr tollhússins og hlóðu byssur sínar.
Spennan var rafmögnuð og mátti lítið út af bera til að allt færi á versta veg. Mannsöfnuðurinn manaði hermennina til að skjóta og grýtti snjóboltum og grjóti að hermönnunum.
Örlagaskot og ódæðisverk
Svo fór að einn hermaðurinn, Hugh Montgomery, fékk eina sendinguna í sig. Hann féll við og missti byssuna sína og brást hinn versti við. Hann beið ekki fyrirmæla yfirmanns síns, höfuðsmanns að nafni Thomas Preston, heldur skaut að mannfjöldanum.
Einhverjir úr hópi mótmælenda réðust að Mongtomery og Preston höfuðsmanni, sem enn hafði ekki gefið skipun um að skjóta. Þá hófu hermennirnir að skjóta handahófskennt að hópnum og skutu ellefu menn. Þrír létu lífið strax, einn þá um nóttina og sá fimmti tveimur vikum síðar.
Hópurinn dreifðist nokkuð en safnaðist aftur saman í næstu götum. Ríkisstjórinn Thomas Hutchinson var strax kallaður til og hét ítarlegri rannsókn á því sem gerst hafði. Tókst honum þar að róa mannskapinn um stundarsakir.
Vatn á myllu mótmælanda
Atburðurinn hafði mikið áróðursgildi fyrir þá sem börðust gegn breskum stjórnvöldum og voru þeir sem létust í „Fjöldamorðunum í Boston“ jarðsettir með mikilli viðhöfn. Þá birti dagblaðið Boston Gazette myndristu eftir Paul Revere þar sem fært var nokkuð í stílinn og látið sem skothríðin hefði verið fyrirskipuð. Mynd þessi, sem sjá má hér efst í greininni, vakti mikil viðbrögð og auk þess voru gefin út mörg dreifibréf þar sem framgöngu hermannanna og breskra stjórvalda var líst á afar neikvæðan hátt. Allt var þetta vatn á myllu andstæðinga Breta.
Réttað var yfir áttmenningunum, en aðeins tveir voru sakfelldir fyrir manndráp, enda þótti sannað að þeir hefðu verið þeir einu sem skutu beint inn í mannfjöldann. Þeir voru dæmdir til dauða, en refsingu þeirra var síðar breytt í brennimerkingu á þumal.
Grunnurinn að sjálfstæði Bandaríkjanna
Þessi atburður markaði vatnaskil í samskiptum Breta og íbúa í nýlendunum þrettán á austurströnd Norður-Ameríku. Með þessu breyttist viðhorf almennings til Georgs III Bretakonungs, og sagði John Adams, síðar forseti Bandaríkjanna og einn af hinum svokölluðu „Founding Fathers“, eða landsfeðrum, að þennan örlagaríka dag hafi grunnurinn verið lagður að sjálfstæði Bandaríkjanna. (Þess má geta að Adams var einmitt verjandi bresku hermannanna í réttarhöldunum yfir þeim.)
Næstu ár urðu fleiri skærur milli nýlendubúa og Breta vegna skatta- og tollamála, en Bretar drógu í land með flestar sértækar tekjuöflunarráðstafanir fyrir utan toll á innflutt te.
Við það var ekki unað og í desember 1773 fór hópur mótmælenda um borð í bresk skip sem lágu við höfn í Boston og hentu tugum tonna af tei í sjóinn. Hörð viðbrögð Breta við þeirri uppákomu færðu deiluaðila enn nær ófriði sem svo braust út með Frelsisstríði Bandaríkjanna sem stóð frá 1775 til 1783.