Í síbreytilegum heimi opnast dyr að nýjum veruleika eftir því sem tækninni fleytir fram. Á þetta höfum við verið minnt á undanförnum áratug þar sem snjallsímavæðing í heiminum og gervigreind hefur gjörbreytt neyslumynstri fólks og lifnaðarháttum.
Frá því Steve Jobs heitinn, frumkvöðullinn sem stýrði Apple, kynnti iPhone snjallsímann til sögunnar, 9. janúar 2007, hefur ekki bara mikið vatn runnið til sjávar, þegar kemur að tækni og hugbúnaði, heldur er líf fólks gjörbreytt frá því sem áður var. Nýr risavaxinn iðnaður hugbúnaðargerðar fyrir snjallsíma hefur orðið til sem samt er aðeins toppurinn á ísjakanum.
Nú, rúmlega tíu árum síðar, stendur heimurinn frammi fyrir breytingum sem áður voru teiknaðar upp í vísindaskáldsögum. Sjálfakandi bílar, heimsendingar með drónum, fjarstýrð skip. Möguleikarnir virðast endalausir og enginn ætti lengur að efast um að vísindaskáldskapur fortíðarinnar er orðinn að veruleika dagsins í dag.
Í hringamiðjunni
Einn þeirra sem er staddur í hringamiðju þessarar þróunar á heimsvísu, í ljósi forystuhlutverks Noregs, er Reynir Jóhannesson. Hann starfar sem aðstoðarráðherra samgöngumála Noregs, en samgönguráðherra í ríkisstjórn er Ketil Solvik-Olsen. Reynir hefur meðal annars á sinni könnu uppbyggingu á fjarskiptamálum landsins. Í þessum verkefnum eru áhrifin ekki bundin við Noreg heldur í reynd heiminn alla. „Noregur hefur einsett sér það að verða heimsmeistari í lögum og reglugerðum. Ekki fjölda þeirra, heldur virkni þeirra,“ segir Reynir. „Við höfum ekki Sílikon-dalinn og það mikla fjármagn sem fylgir honum. Og við höfum ekki stærðina heldur. En ég tel að við getum verið best í að móta lög og leikreglur, og orðið heimsmeistarar í því. Ekki út frá fjölda laga og reglna, heldur virkni og markmiðum,“ segir Reynir, og brosir.
Hann hefur undanfarna daga fundað með íslenskum stjórnvöldum, meðal annars fulltrúum í samgönguráðuneytinu, Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, þingmönnum og forystufólki Samtaka iðnaðarins. „Það sem við erum að vinna að núna er að búa til lagaumgjörð og regluverk fyrir 5G væðinguna (5G Internet of Things), og þau miklu áhrif sem henni fylgir. Þar eru öll Norðurlöndin undir og einnig Eystrasaltslöndin. Ég vil að Ísland verði hluti af þessu. Þó Noregur og Ísland séu ekki að öllu leyti sambærileg þá eru þetta báðar litlar þjóðir sem eru á mikilvægu „heitu“ svæði í heiminum. Við erum háð alþjóðvæðingu og alþjóðavæddum heimi viðskipta, og það eru öfl um þessar mundir, meðal annars í Bandaríkjunum og Bretlandi, sem eru að vinna gegn þessu. Ég er ekki hrifinn af því og tel að þetta svæði sem við tilheyrum hafi mikið fram að færa, og það sé þess virði fyrir Noreg og Ísland, sem standa utan Evrópusambandsins, að berjast fyrir alþjóðavæðingunni,“ segir Reynir.
Reynir var í viðtali við Kjarnann fyrir rúmu ári, 2. apríl 2016, og fékkst þá innsýni inn í þá stöðu sem hann gegnir í norska stjórnkerfinu. „Ég er í raun með sama vald og ráðherrann sjálfur [...] Nema ég mæti ekki til kóngsins á föstudögum, ég tala ekki fyrir þingið og mæti ekki á ríkisstjórnarfundi. En ég get verið í forsvari fyrir öll önnur mál sem eru afgreidd í ráðuneytinu og undirskrift mín jafngildir undirskrift ráðherra,“ sagði Reynir þá.
Á undanförnu ári hefur starfið haldið áfram og nú þegar kjörtímabilinu fer að ljúka þá eru mörg stór verkefni búin að þokast vel áfram. Kosið verður í september en Reynir segist ekki hugsa mikið um það. „Ég er með mín markmið og ég ætla mér að ná þeim. Það er stundum sagt í Noregi að það sé hægt að kreista tannkremið úr túpunni en það er ekki hægt að setja það inn í hana aftur. Ég hugsa þetta svipað. Ég hef mikinn áhuga á tækni- og fjarskiptamálunum og tel mikil tækifæri felast í auknu samstarfi á Norðurlöndunum, bæði meðal stjórnvalda og fyrirtækja á svæðinu. Þar eru lög og reglur lykilatriði, þegar kemur að uppbyggingu á næstunni. Þetta á meðal annars við regluverk um sjálfakandi bifreiðar, drónaflug og ýmis atriði sem tengjast, beint og óbeint, 5G netvæðingunni og aukinni hraðvirkni og tæknilegri getu til að gera hluti sem ekki hefur verið hægt að gera áður. Það er mikilvægt að þetta sé leitt fram hratt og að allir átti sig á hagsmununum og möguleikunum. Ef það tekst að tryggja öryggi, til dæmis varðandi persónufrelsi og skilvirkni, þá er mikill sigur unninn. Mín draumsýn er að Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin séu með sameiginlegt regluverk og að það verði aðlaðandi að starfa á þessu svæði vegna þessa.“
Hinn 25. apríl verður ráðstefna í Osló, höfuðborg Noregs, þar sem tæknilegar áskoranir á norðurslóðum verða í brennidepli, en ráðherrar þessara mála í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi hafa þegar stillt saman strengi í þessum efnum, og að sögn Reynis, er lagt upp með að auka samvinnu enn meira.
Nú hefur verið töluvert rætt um að gervigreind muni leiða til þess að störf hverfi og að vinna muni breytast mikið vegna hennar, á næstu misserum. Hvernig horfir staðan við þér?
„Ég er sannfærður um að það verði til ný störf og nýir möguleikar, með aukinni tækninotkun og hagræðingu. Það fylgja því áskoranir að laga menntun fólks að breyttum veruleika, en ný spennandi störf verða til. Fyrir 20 árum var erfitt að sjá fyrir snjallsímann og þá möguleika sem við búum við í dag með honum. Hann hefur breytt miklu, eytt störfum en skapað nýja möguleika. Lykillinn að góðum árangri felst ekki síst í vönduðum og góðum lögum og reglum,“ segir Reynir.
Efnahagslegt stórveldi
Þó Noregur sé lítið land og fámennt, í alþjóðlegum samanburði, þá er það efnahagslegt stórveldi. Í landinu búa ríflega fimm milljónir en hvergi í heiminum er landsframleiðsla jafn mikil, í hlutfalli við íbúafjölda, og í Noregi, sé horft til vestrænna lýðræðisríkja.
Í Noregi er stærsta samfélag Íslendinga utan Íslands en um áramótin voru um 9.500 Íslendingar búsettir í landinu. Olíusjóður landsins er að ríflega 95 prósent leyti geymdur í erlendri mynt, einkum í verðbréfum. Í dag er sjóðurinn kominn yfir 900 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 100 þúsund milljörðum króna. Það jafngildir tæplega 20 milljónum króna á hvern Norðmann.
Þrátt fyrir að sjóðurinn sé ekki nýttur innanlands, nema að litlu leyti, þá gefur hann norska hagkerfinu stórt og mikið heilbrigðisvottorð. Það er til marks um umfang sjóðsins að hann á um 1 prósent allra skráðra hlutabréfa í heiminum, um þessar mundir, og er meðal stærstu hluthafa í öllum helstu tæknifyrirtækjum heimsins, eins og Microsoft, Facebook, Google og fleiri fyrirtækjum.
Metnaðarfull áform
Eitt af því sem nú stendur til að gera í Noregi, og er á borði Reynis meðal annars, eru innviðafjárfestingar í samgöngumálum sem eru gríðarlegar að umfangi. Á næstu árum verður ráðist í fjárfestingar sem nema 1064 milljörðum norskra króna, eða sem nemur um 15 þúsund milljörðum íslenskra króna. Með þessum fjárfestingum munu Norðmenn styrkja samgöngukerfið, til sjós og lands.
Meðal þess sem stefnt er að eru skipagöng, þar sem skip munu geta stytt sér leiðir í gegnum göng í fjöllum. Mikil framþróun er í skipaiðnaði í Noregi og eru meðal annars hafnar tilraunir með fjarstýrð skip og fleiri tækninýjungar sem munu geta gjörbylt skipaiðnaði. Norsk stjórnvöld horfa til þess að þessar stórfelldu innviðafjárfestingar muni styðja enn betur við þær miklu tækniframfarir sem eru að verða í heiminum. „Ég hef mikinn áhuga á þessum tæknimálum og tel að stjórnvöld, í Noregi og nágrannaríkjum, geti lagt grunninn að miklum tækifærum fyrir frumkvöðla með góðar hugmyndir,“ segir Reynir.