Í sumar er margt á dagskrá tónlistarhússins Hörpu bæði fyrir ferðamenn og Íslendinga. Fastir liðir á borð við Reykjavík Midsummer Music verða á sínum stað, auk Harpa International Music Academy og Jazzhátíðar í ágúst.
Melkorka Ólafsdóttir, dagskrárstjóri tónlistar í Hörpu, segir aukna áherslu á viðburði fyrir ferðafólk hafa stuðlað að þéttari aðsókn allt árið um kring.
„Við erum að fá tvær bestu kammerhljómsveitir í Evrópu í heimsókn í ár, sú fyrri mætir núna 19. maí. Það eru bestu spilararnir úr hinum frægu hljómsveitum Berlínarfílharmóníunni og Vínarfílharmóníunni sem mynda Kammersveit Vínar og Berlínar, sem stofnuð var af Sir Simon Rattle fyrir nokkrum árum.“
Berlínarfílharmónían hefur áður komið til Íslands og leikið í Hörpu og fengið glimrandi viðtökur. Hljómlistarmennirnir hafa einnig haft orð á því hversu vel þeim leist á Hörpu. Vínarfílharmónían er hins vegar í hæsta verðflokki. „Vínarfílharmónían er svo brjálæðislega flott að það væri hæpið að geta boðið öllum hópnum til Íslands. En við fáum að minnsta kosti tækifæri til að hlýða á hluta hennar í miklu návígi,“ segir Melkorka.
17 hljóðfæraleikarar úr þessum tveimur hljómsveitum mynda kammersveitina sem treður upp í Eldborg 19. maí. Melkorka segir að þau ætli að spila „aðgengilegt og eldheitt prógramm“.
„Það hefur alltaf verið svolítill slagur á milli þessara hljómsveita því þær hafa báðar verið nefndar bestu hljómsveitirnar í Evrópu. Og þegar er verið að etja saman spilurum úr báðum hljómsveitum verður til einhver alveg sérstök orka.“
Fastir sumarliðir
Melkorka segir að sumarið verði annars fjölbreytt. „Einhverjum finnst eflaust áhugavert að Krishna Das sé að koma. Hann ætlar að vera í Eldborg svo fólk getur fjölmennt þangað til andlegrar iðkunar og til að syngja kirtan.“
„Svo erum við með Reykjavík Midsummer Music sem er þessi fína kammermúsík-hátíð hans Víkings Heiðars. Hún er í kringum Jónsmessuna,“ segir Melkorka.
„Önnur hátíð hefur líka farið sívaxandi síðustu ár og er alveg svakalega flott. Það er Harpa International Music Academy. Það er alþjóðlegt tónlistarnámskeið fyrir unglinga. Þá fyllist allt húsið af krökkum með fiðlur og selló. Sú hátíð er einnig í júní.“
„Svo er Jazzhátíðin í ágúst. Það er fjögurra daga hátíð og hefur verið í Hörpu frá opnun.“
Þyrnirós er jólaballettinn
Á dagskrá Hörpu í nóvember undanfarin ár hafa verið magnaðar ballettsýningar á borð við Svanavatnið og Hnotubrjótinn. Í ár verður Þyrnirós sýnd í Hörpu. „Það verður örugglega mjög falleg sýning líka; fjölskyldusýning eins og hinar hafa verið. Ballettsýningarnar hafa gengið mjög vel og verið bæði vinsælar og hátíðlegar. Sumir eru farnir að líta á þær sem byrjunina á jólunum. Það er svolítið fallegt.“
Sami balletthópur og Harpa hefur verið í samvinnu við undanfarin ár mun sýna Þyrnirós, við meðleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hópurinn er frá St. Pétursborg í Rússlandi en ferðast um víða veröld með sýningarnar sínar ár hvert. Ballettinn verður einnig sýndur í Hofi á Akureyri í ár eins og í fyrra.
Á milli jóla og nýárs mun Sigur Rós taka yfir ýmis rými Hörpu og koma fram á fernum tónleikum í Eldborg. Þá verða fimm ár liðin síðan hljómsveitin kom síðast fram á Íslandi. Miðasala á tónleikana hefst mánudaginn 15. maí.
Einn vinsælasti ferðamannastaður landsins
Tónlistarhúsið Harpa hefur síðan húsið opnaði árið 2011 orðið að einum vinsælasta ferðamannastað landsins. Þangað flykkjast ferðamenn, hvort sem það er vegna áhuga á tónlist eða einkennandi arkítektúr hússins.
Melkorka segir ferðamannastrauminn vera mikilvægan hlekk í dagskrá og rekstri Hörpu. Suma daga breytist hún í alsherjar þjónustumiðstöð, en þiggur þó ekkert styrkfé sem slík.
„Þegar veðrið er vont er hvergi betra að vera. Í fyrra gerðum við mikinn skurk í að setja af stað verkefni sem voru sérstaklega ætluð ferðamönnum. Við byrjuðum með daglega hádegistónleika í Eldborg, Reykjavík Classics, því margir ferðamenn eru mjög áhugasamir að heyra hvernig salurinn hljómar. Í sumar verða þrennir tónleikar á dag í Eldborg, Reykjavík Classics og Perlur íslenskra sönglaga.“
Tvær leiksýningar hafa verið settar upp í Hörpu sem sérstaklega er beint til ferðamanna. Íslendingasögurnar eru settar upp í grínbúning í sýningunni Icelandic Sagas og svo er How to become Icelandic in 60 minutes, sem Melkorka segir vera svakalega vinsæla.
„Svo erum við farin að geta boðið upp á stærri tónleika yfir sumartímann. Við prófuðum það í fyrra og það gekk bara mjög vel. Það kom okkur nokkuð á óvart því áður var sumarið nokkuð dauður tími. Í sumar mæta gamlar kempur eins og Herbie Hancock og Engilbert Humperdinck. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Svo má náttúrulega ekki gleyma Kool and the Gang.“