Heimsfrægi vegglistamaðurinn Banksy er liðsmaður ensku triphop-hljómsveitarinnar Massive Attack. Enski tónlistarmaðurinn Goldie kom óvart upp um Banksy í viðtali við hlaðvarpsþáttinn Distraction Pieces podcast.
Goldie var að tala um það hvernig listaheimurinn hefur notfært sér vegglist og grafití, þrátt fyrir að þetta umdeilda listform sé enn þá þyrnir í augum fólks.
Banksy er án efa einn þekktasti vegglistamaður veraldar. Verk eftir hann hafa birst víða um heiminn og bera þau öll sömu einkenni uppreisnar og andúðar á ríkjandi kerfi. Frægust mynda Banksy er mótmælandinn sem kastar blómvendi í stað Mólotov-kokteils.
Goldie tók dæmi af vinsældum Banksy til að rökstyðja mál sitt. „Látið mig fá breiðletur og settu það á stuttermabol og skrifaðu Banksy á það og við erum kvitt. Við getum selt það þá... Þetta segi ég ekki af vanvirðingu við Robert, mér finnst hann snjall listamaður. Ég held að hann hafi snúið listaheiminum á hvolf.“
Eftir að hafa sagt nafnið „Robert“ þagnaði Goldie í stutta stund áður en hann skipti um umræðuefni.
Í umfjöllunum um orð Goldie er því slegið föstu að hér sé rætt um Robert Del Naja, sem kallar sig stundum 3D, liðsmann hljómsveitarinnar Massive Attack. Del Naja og Goldie eru vinir og þeir unnu sem vegglistamenn í sömu kreðsum á seinni hluta níunda áratug síðustu aldar.
Paradise Circus er án efa eitt besta lagið með Massive Attack
Del Naja hefur áður verið bendlaður við nafn Banksy. Í fimm mánaða langri rannsókn blaðamannsins Craig Williams voru niðurstöðurnar að Del Naja væri eins konar leiðtogi hreyfingar vegglistamanna um víða veröld sem gengi undir nafninu Banksy.
Sjálfur hefur Del Naja neitað því að vera Banksy. „Það væri góð saga en því miður er hún ekki sönn,“ hefur hann sagt en viðurkenndi að Banksy væri vinur sinn sem léti stundum sjá sig á tónleikum með Massive Attack.
Aðdáendur telja hins vegar að fát Goldie staðfesti að Del Naja eigi þátt í Banksy. Vegglistaverk eftir Banksy hafa ítrekað birst þar sem Massive Attack hafði nýlega spilað. Þá ritaði Banksy formála í bók Del Naja, 3D and the Art of Massive Attack, sem kom út í fyrra.