Nýjasti megrunarkúrinn fyrir byggðarlög fyrir vestan er laxeldi byggt upp með fjármagni frá Noregi bakkað upp af valdaaðilum á Vestfjörðum/Íslandi.
„Þolinmóða“ fjármagnið frá Noregi er tilkomið vegna þess að fjárfestar þar geta ekki lengur vaðið yfir allt og alla með sjókvíaeldi. Í staðinn byrja þeir sama leikinn á Íslandi eins og byrjað var með áróður í Noregi og á vesturströnd Skotlands. Það er vaðið áfram og fjárfest og fjárfest til þess eins að skapa eins mikinn þrýsting og hægt er, til að „nauðsynlegt“ sé að halda áfram. Eldri pólitíkusar úr valdaklíkunum að vestan eru jafnvel fengnir til styðja við málstaðinn. Linnulaus áróður, byggður á ýkjum, brengluðum talnaleikjum og loforðum um peningastreymi og atvinnuuppbyggingu, minna atvinnuleysi (sem ekkert er), aukning í íbúafjölda og mjög takmarkaðri áhættu fyrir umhverfið (sem er ekki satt). Allt snýst þetta um það á endanum að geta mokað sem mestum peningi útúr fyrirtækjunum á sem skemmstum tíma og helst að borga ekki aðra skatta en þá sem algerlega nauðsynlegt er að borga, launatengd gjöld, virðisaukaskatt og veiði/aðstöðugjöld. Hagnaður af fyrirtækinu fer beint úr landi í formi vaxtagreiðslna vegna skuldsetningar fyrirtækjanna hjá sjóðum í eigu fjárfestanna. Það verður sennilega aldrei greiddur skattur af hagnaði þessara fyrirtækja frekar en álveranna né margra annarra fyrirtækja sem eru vísvitandi skuldsett upp í rjáfur með erlendum lánveitingum.
Þann 4. september 2017 skrifaði Ólafur I. Sigurgeirsson ágæta grein í Kjarnann um áhættumat tengt laxeldi (1). Þar kom fram hluti þeirrar áhættu sem fylgir laxeldi auk vandkvæða við mat á umhverfisáhrifum laxeldis vegna fjölda áætlaðra breyta í reikningslíkönum. Þar vantaði samt talsvert upp á að farið væri ítalega yfir niðurstöður á þessu sviði m.a. varðandi ferðalög og erfðablöndun laxfiska í Noregi, sem og sú hræðilega staða sem nú blasir við á vesturströnd Skotlands og menn eiga erfitt með að horfast í augu við. Það er nefnilega jafn mikilvægt, ef ekki mun mikilvægara fyrir okkur Íslendinga að skoða þau áhrif sem norskur eldislax hefur haft á skoskan villtan lax eftir 30 ára reynslu í laxeldi eða síðan 1987. Sú athugun ætti að gefa okkur miklu gleggri mynd af því sem koma skal frekar en flókið áhættumat byggt á fjölda áætlaðra breytistærða flókinna lífkerfa í fjarðarbotnum.
Lax sleppur úr eldiskvíum
Þetta er margsannað og alveg sama hversu vel menn reyna að búa um hnútanna þá sleppur alltaf lax úr kvíunum á mismunandi þroskastigi og á mismunandi tímum árs. Þetta hefur ítrekað gerst í öllum löndum í kringum okkur en ennþá halda aðilar í öllum þessum löndum því fram að þetta sé óverulegt. Það þarf ekki annað en smá gat á kvínni til að laxar sleppi út, hvort sem það gat er af völdum stærri sjávarlífvera, kolbrjáluðu ísingaveðri sem stendur í marga daga eða af mannlegum mistökum eða vélarbilun við siglingar og flutning fiska í og úr kerjunum. Sleppingum hefur fækkað heilmikið í Noregi eftir að regluverkið var uppfærten enn deila menn um hversu mikið sleppur út, hversu mikið er tilkynnt um sleppingar og með hvaða tölu eigi að margfalda tilkynntar sleppingar til að fá rauntölu.
Í Skotlandi hefur verið tilkynnt um að minnsta kosti 1 milljón laxa hafi sloppið s.l. 10 ár (2) og 1,9 milljónir 10 ár þar á undan. Þetta gerir að minnsta kosti hundrað þúsund laxa að meðaltali á ári sem tilkynnt hefur verið um í eldi sem framleiðir 180 þúsund tonn á ári. Það er fyrir utan þær sleppingar sem gera má ráð fyrir að ekki hafi verið tilkynnt um (á nákvæmlega sama hátt og þegar hefur vitnast um hérlendis).
Fiskar sem sleppa hringsóla ekki bara í kringum eldið (þó svo hluti þeirra geri það), heldur taka sumir hverjir sér ferð á hendur og þannig hefur t.d. verið sýnt fram á að eldislaxar í Noregi sem sloppið hafa (tvær sleppingar frá svipuðu svæði á mismunandi tíma), geta margir saman á einum mánuði ferðast 150 km leið og farið upp þann árfarveg sem þar er (3). Í Skotlandi sluppu 336 þúsund laxar að meðaltalsþyngd 3,5 kíló í einni sleppingu árið 2011 (4) og á vesturströnd Bandaríkjanna sluppu nýverið um 300 þúsund Atlantshafslaxar eftir að sjókví gaf sig (5).
Hvert dæmið á fætur öðru kemur upp og árið 2017 er engin undantekning. Þetta er því ekkert einkamál hagsmunaaðila og íbúa fyrir vestan og austan hvort af stórfelldu sjókvíaeldi verði eða ekki. Eitt svona dæmi er einu dæmi of mikið. „Þetta gerist ekki hjá okkur, við förum svo rosalega varlega,“ segja eigendurnir alltaf og í USA reyndu þeir svo að kenna stórum öldum vegna sólmyrkvans um sleppinguna, svo lágt geta menn lagst.
Erfðablöndun milli laxastofna er staðreynd
Erfðablöndun er staðreynt fyrirbæri (t.d. 6, 7, 8 auk tuga annarra vísindagreina). Spurningin er einvörðungu sú hversu mikil hún verður og hvaða áhrif hún hefur á náttúrulega laxastofna viðkomandi áa og hvort það skipti þá einhverju máli? Hér er um nokkuð flókinn hlut að ræða og erfitt að segja til um hverjar lífslíkur eru meðal sloppins lax,gönguseiða, arfblendinga í sjó eða mismunandi ám við mismunandi aðstæður á mismunandi tímum árs.
Það sem við vitum hins vegar er: 1) Erfðablöndun finnst í verulegu magni í ám í Noregi og enn meir í Skotlandi og eru arfgerðir eldislax algengar í mörgum stofnum. 2) Því fjarskyldari sem laxinn er eldislaxinum því viðkvæmari er hann fyrir erfðablöndun (þetta hefur sýnt sig með villtan lax í N-noregi og norskan eldislax), 3) Erfðablöndun hraðvaxta „ali-laxa“ við smálaxastofna valda blendingum sem verða kynþroska seinna 4) Lífsferlar laxa sem aðlagast hafa ánum taka breytingum vegna nýrra arfgerða sem koma inn við erfðablöndunina.
Áhættan af þessari erfðablöndun er ekki einkamál Vestfirðinga, alls ekki. Laxinn í íslenskum ám er viðkvæmur, byggður upp af mjög litlum undirstofnum sem hver hefur aðlagast því lífríki sem er við ánna sem þeir ganga upp í. Sú þróun getur hafa tekið mörg hundruð til mörg þúsund ár. Við getum ekki látið alla aðra eiga það á hættu að náttúrlegir stofnar í ám á Íslandi skaðist eða hverfi ásamt lífríki þeirra fjarða þar sem eldið er stundað. Það hefur þegar sýnt sig að með því sem meira sleppur af fiski úr eldiskvíum (t.d. stórslysasleppingar), því víðara dreifingarsvæði hefur hann. Þetta hefur m.a. sýnt sig með regnbogasilung sem nú má finna í ám víða um land (9). Þetta hefur gerst þrátt fyrir að enginn framleiðandi kannist við að regnbogasilungur hafi sloppið úr kvíum! Einstaklingar sem reyna að halda því fram að fólk sé mikilvægara en villtur lax í ám á Íslandi mega ekki gleyma þeirri staðreynd að náttúran verður hérna áfram eftir okkar dag þ.e.a.s. ef ekki er búið að eyðileggja hana gjörsamlega af skammtíma gróðahyggju.
Laxalúsin skaðar hluta lífríkisins og lyf gegn henni líka
Þar sem sjókvíaeldi er til staðar getur líka orðið gríðarmikið magn laxalúsar. Í umræðum um laxalús fyrir nokkrum árum sögðu forsvarsmenn laxeldis á Íslandi aftur og aftur að í köldum sjó eins og fyrir vestan yrði laxalús ekki vandamál (t.d. 10) og því þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, enda væri laxeldi nánast ekki lengur arðbært ef laxalús kæmi upp. Þetta viðhorf hefur nú breyst talsvert eftir að laxalús kom upp í laxeldi fyrir vestan og þurfti að nota lyf við henni. Laxalúsin var sem sagt ekki lengur vandamál enda skyldi haldið áfram með þetta laxeldi án frekari tafa.
Laxalúsin sest nefnilega líka á hluta af gönguseiðunum úr ánum og drepur hluta þeirra og minnkar þannig líka smám saman vaxtarmöguleika laxastofnanna í nágrenninu (11). Sú ótrúlega lífeðlisfræðilega umskipting sem gönguseiði laxfiska þurfa að ganga í gegnum þegar þau yfirgefa ferskvatn og fara til sjávar verður að engu þegar laxalúsin sest á gönguseiðin stuttu síðar. Það má gróflega áætla að áhrifasvæði laxalúsarinnar sé milli 5-30 km allt eftir hafstraumum og veðurfari (12). Lyfin sem notuð eru til að drepa laxalúsina drepa líka önnur sjávardýr, svo sem eins og lirfur krabbadýra (13) sem deyja við 20-100 sinnum lægri styrk en gefið er í laxeldinu. Mælingar á styrk þessara efna í kringum sjókvíarnar, hvernig og hvenær það þynnist út o.s.frv. eru samt enn á frumstigi. Hér á náttúran að sjálfsögðu að njóta vafans.
Úrgangur frá sjókvíaeldi er gríðarlegur
Þegar þúsundir tonna af laxi eru komin saman til þess eins að „borða og kúka“ á sama svæði, fyllist botninn fljótlega af úrgangi. Smám saman dreifist þetta á stærra svæði og breyting á lífríki fjarðarbotnsins byrjar. Svona laxeldi hefur ófyrirsjáanleg áhrif á lífríki frá hafsbotni til fjöru, einnig á fugla og dýralíf sem er samhangandi fjölbreyttu æti úr hafinu. Þetta gæti fljótlega orðið miklu alvarlegra vandamál á grunnsævi í botni fjarða en erfðablöndun laxastofna ein og sér.
Hafrannsóknastofnun hefur reynt að meta álag á lífríkið en takmörkuð gögn eru til staðar til að gera það almennilega. Þetta verða alltaf áætlaðar tölur nema við horfum blákalt á þau dæmi sem eru að koma upp í löndunum í kringum okkur.
Á norð-vesturströnd Skotlands hefur verið starfrækt sjókvíaeldi en ekki á norð-austanverðu Skotlandi. Þar er komið gríðargott tækifæri til að bera saman áhrif sjókvíaeldis við sjókvíalausa náttúru. Lífríkið allt er nú óðum að breytast í kringum sjókvíaeldið með ófyrirsjáanlegum breytingum fyrir allt dýralíf á stóru svæði, á meðan árnar á austurströndinni ásamt lífríkinu þar halda enn velli. Ekkert getur útskýrt þetta dapurlega hrun annað en sjókvíaeldið.
Laxeldið á vesturströnd Skotlands. Saga eyðileggingar á náttúrunni.
Við upphaf laxeldis við vesturströnd Skotlands beittu laxeldismenn þar nákvæmlega sömu aðferðum, byggðarlaga-rökum, fjárhagslegum þrýstingi og pólitík við að troða sjókvíaeldi inn í fámenn byggðarlög eins og verið er að gera hér á landi. Þessi saga er ekki ný af nálinni en fólk virðist bara ekki læra af reynslunni.
Saga laxeldis og áhrif þess á lífríkið í Skotlandi er ein samfelld hörmung frá upphafi með hruni sjóbirtingsstofna og síðar laxastofnanna og einnig hnignun lífríkisins við vesturströnd Skotlands. En áfram skal þverskallast þar eins og hérna, því það má víst endalaust nota rökin um byggðaröskun og atvinnuuppbyggingu.
Árið 1987 var sett upp sjókvíaeldi við Loch Ewe í Skotlandi. Árin eftir hrundi sjóbirtingsstofninn í öllum ám í nágrenninu. Með auknu laxeldi árin á eftir hrundu sjóbirtingsstofnar á allri vesturströndinni. Sjóbirtingsstofninn hefur hvergi náð sér á strik á þeim þrjátíu árum sem liðin eru. Nákvæmlega sömu sögu er að segja af sjóbirtingnum í Noregi en þar reyndu menn lengi vel að finna aðrar utanaðkomandi orsakir fyrir hruni sjóbirtingsins. Menn telja núna að hluta skýringarinnar sé að leita í laxalúsinni sem virðist einnig setjast á sjóbirtinginn (14) en breytingar á lífríkinu í kjölfar eldisins eigi hugsanlega einnig sinn hluta að máli (það gæti tekið vísindamenn áratugi að skilja það flókna samspil þar sem sjóbirtingurinn heldur sig í sjónum skammt frá ánum og sjókvíunum). Þetta gerðist hins vegar ekki á austurströnd Skotlands þar sem ekkert laxeldi var til staðar svo skýringin á hruni sjóbirtingsins liggur eingöngu í sjókvíaeldinu á laxinum á nákvæmlega sama hátt og í Noregi.
Sömu sögu er að segja af villtu laxastofnunum á svæðinu sem farið hafa minnkandi ár frá ári. Í ágúst 2017 var tilkynnt um algert hrun í laxastofnum nokkurra áa (15). Af þeim fáu löxum sem enn koma upp í árnar eru að meðaltali 25% þeirra afkvæmi æxlunar (hybrid) milli norska eldislaxins og skoska villta laxins (16, sjá bls 26). Sorgarfréttir fyrir alla náttúruunnendur og ekki í neinu samræmi við þær yfirlýsingar sem sjókvíaeldismenn hafa haldið fram um erfðablöndun laxfiska og áhrif á lífríkið. Lífríkið er smám saman að hörfa fyrir tilstilli gróðafíklanna og störfin sem komu fyrir tilstuðlan laxeldisins eru miklu miklu færri en stórhuga ýkjuloforð laxeldisfyrirtækjanna. Árið 2016 voru framleidd um 180 þúsund tonn af laxi í Skotlandi. Með aukinni sjálfvirkni er talið að nú séu vart meira en 1300 störf (miðað við 100% stöðugildi) við þetta umfangsmikla laxeldi í Skotlandi (upplýsingar frá skoskum yfirvöldum, 17).
Er þetta ástand náttúrunnar virkilega það sem hinn almenni Vestfirðingur vill sjá í sínu umhverfi og sem arfleifð fyrir komandi kynslóðir?
Hvað er til ráða?
Eina lausnin til að tryggja náttúruperlur Vestfjarða og Íslands, tryggja heilbrigði lífríkisins, tryggja áframhaldandi búsetu án endalausra töfralausnaer að taka upp lífstílsbreytingu og fara hægt og rólega af stað með hlutina í lokuðum kerjum á eða við landsteinana. Þau kerfi eru miklu dýrari í upphafsfjárfestingu en gætu þegar til lengri tíma er litið sætt alla aðila og þar að auki sett Vestfirði á kortið sem fyrirmynd í náttúruvernd og eðlilegri uppbyggingu samfélaga. Nýleg norsk rannsókn hefur meira að segja sýnt fram á að slík lokuð ker séu í raun mun hagkvæmari til lengri tíma litið en sjókvíaeldi. Norsku laxeldisfjárfestarnir ásamt þeim íslensku verða annað hvort að sætta sig við þessa breytingu (sem þeir voru að flýja frá í Noregi) eða hætta þessari fjárfestingu. Þeir eru þá ekki með þolinmótt fjármagn. Jafnframt þessari sátt við náttúruna verður áfram hægt að markaðssetja Vestfirði sem óraskaða náttúruperlu.
Afhverju biðja Vestfirðingar ekki laxeldisfjárfestana að flytja sig yfir í lokuð ker? Eru þeir hræddir um að þeir hætti þá við allt saman?Afhverju biðja Vestfirðingar ekki laxeldisfjárfestana að flytja sig yfir í lokuð ker? Eru þeir hræddir um að þeir hætti þá við allt saman? Ef svo er, þá eru þeir ekki þarna á neinum öðrum forsendum heldur en að hagnast sem mest á sem skemmstum tíma án tillits til íbúa eða umhverfis.
Laxeldi í sjókvíum er alls ekki framtíðarlausnin fyrir Vestfirði heldur er lausnin fólgin í því fólki sem þar býr og vill búa þar áfram, fólki sem er framsýnt og tilbúið að horfa áratugi fram í tímann með velferð og hægan en öruggan uppgang Vestfjarða, samfélags og náttúru að leiðarljósi. Ég hef trú á því að meirihluti núlifandi Vestfirðinga sé þannig fólk.
Höfundur er líffræðingur, vísinda- og uppfinningamaður.
ATH. Allar þær tölur sem hér eru settar fram eru fengnar hjá Hagstofu íslands, Þjóðskrá og Vinnumálastofnun auk upplýsinga úr mörgum rannsóknarskýrslum og vísindagreinum sem vísað er í með heimildaskrá aftan við greinina.
Heimildir:
- Ólafur I. Sigurgeirsson 2017. Kjarninn
- http://aquaculture.scotland.gov.uk/data/fish_escapes.aspx
- Quintela M ofl. 2016. Siblingship tests connect two seemingly independent farmed Atlantic salmon escape events. Aquacult Environ Interact 8: 497-509
- http://aquaculture.scotland.gov.uk/data/fish_escapes_record.aspx?escape_id=2000292
- https://www.theguardian.com/world/2017/aug/24/thousands-of-atlantic-salmon-escape-from-fish-farm-into-pacific
- Karlsson, So.fl. 2016 Widespread genetic introgression of escaped farmed Atlantic salmon in wild salmon populationsICES Journal of marine science. Vol 73, Issue 10: 2488-2498
- Glover, KA ofl. 2017 Half a century of genetic interaction between farmed and wild Atlantic salmon: Status of knowledge and unanswered questions Fish and Fisheries 2017:1-38
- Bolstad, GH ofl. 2017 Gene flow from domesticated escapes alters the life history of wild Atlantic salmon. Nature Ecology & Evolution Vol 1, Art. Nr 124
- Krafist óháðrar og opinberrar rannsóknar. Kjarninn
- Valdimar Ingi Ragnarsson 2014 Laxalús og eldi laxfiska í köldum sjó
- Krkošek, M ofl 2012 Impact of parasites on salmon recruitment in the Northeast Atlantic Ocean, Proceedings of the Royal Society
- Johnsen et al. 2016: Salmon lice dispersion in a Norwegian fjord Aquaacult Enciron Interact 8:99-116
- Gebauer, P ofl. 2017. Lethal and sub-lethal effects of commonly used anti-sea lice formulations on non-target crab Metacarcinus edwardsii larvae. Chemosphere vol 185, p:1019-1029
- Middlemas, SJ ofl. 2013. Relationship between sea lice levels on sea trout and fish farm activity in western Scotland. Fisheries Management and Ecology 20, 68-74
- Antlantic Salmon Trust 2017. Unprecedented collapse of salmon run in South-West Highlands
- Coulson, M 2013. Report on Genetic Tool Development for Distinguishing Farmed vs. Wild fish in Scotland. Publ. Rivers and Fisheries Trusts of Scotland
- http://www.gov.scot/Publications/2016/09/1480