Á tímum opinnar umræðu þar sem fólki gefst í auknum mæli tækifæri til að tala opinskátt um reynslu sína, tilfinningar og upplifanir þá hefur verið bent á að það karllæga samfélag sem er við lýði hefur ekki einungis áhrif á konur heldur einnig karla. Eftir vitundarvakningu síðastliðins vetrar varðandi þær staðalímyndir sem karlmenn þurfa að standa undir hefur umræða um karlmennskuna verið meira áberandi en áður.
Hinsegin dagar hófust í vikunni og standa yfir næstu daga. Fjöldi viðburða er á dagskrá og snýst einn þeirra einmitt um þetta viðfangsefni og leitast við að víkka það út. Mörgum spurningum er enn ósvarað, á borð við: Hvernig er karlmennska hinsegin karlmanna? En kvenna? Hvað með trans fólk? Og aðra undir hinsegin regnhlífinni?
Í þessum viðburði Samtakanna ‘78, sem haldinn verður föstudaginn 10. ágúst kl. 12 í Safnahúsinu, verður kafað dýpra í áhrif karlmennskunnar á samfélagið, þá sérstaklega hinsegin samfélagsins. Getum við sem samfélag stuðlað að breyttum viðhorfum? Hvað er „eitruð karlmennska“? Hvernig hefur staðalmynd karlmennskunnar haft áhrif á þig? Reynt verður að svara þessum spurningum í notalegu umhverfi og með vinnusmiðju á Hinsegin dögum.
Tilgangurinn með viðburðinum er að fólk komi saman, eigi afslappaða stund, spjalli saman og spyrji hvort annað þessara spurninga.
Mikilvægt að halda samtalinu áfram
Unnsteinn Jóhannsson, einn skipuleggjenda viðburðarins, segir að hugmyndin hafi sprottið upp eftir umræður síðastliðins vetrar varðandi karlmennsku. Þá fór á flug samfélagsmiðlabylting með myllumerkinu #karlmennskan þar sem karlmenn deildu sögum sínum og reynslu. Þorsteinn V. Einarsson átti frumkvæðið að samstöðuátakinu en hann sagði meðal annars: „Deilum sögum um reynslu okkar þar sem við fundum að eitthvað kom í veg fyrir að við gerðum það sem við raunverulega vildum eða vildum ekki. Dæmi um norm eða viðmið sem hindruðu okkur.“
Unnsteinn segir að viðburðurinn sé framhald af þessari umræðu. Hann telur að mikilvægt sé að halda samtalinu áfram en í vor héldu Samtökin ´78 spjallkvöld þar sem Þorsteinn leiddi umræðurnar, ásamt Bjarna Snæbjörnssyni leikara og Þorvaldi Kristinssyni rithöfundi og fræðimanni.
Neikvæðar hliðar karlmennskunnar smita út frá sér
Ýmsar spurningar hafa vaknað í framhaldi af #karlmennskan og þykir Unnsteini til að mynda áhugavert að velta fyrir sér hinni svokölluðu „eitruðu karlmennsku.“ Hann segir að neikvæðu hliðar karlmennskunnar smiti út frá sér inn í alla kima þjóðfélagsins. Hann segir enn fremur að nauðsynlegt sé fyrir hinsegin fólk að velta þessum hlutum fyrir sér. „Þegar þú ert að uppgötva sjálfan þig á unglingsárunum þá gerir þú þér grein fyrir því að þú sért ekki alveg eins og hinir. Þú speglar þig í hinum og þannig hefur „karlmennskan“ mikil áhrif á okkur öll,“ segir hann.
Hópurinn, sem mun taka þátt í pallborðsumræðum á viðburðinum, verður fjölbreyttari en á þeim sem haldinn var í vor. Nú taka þátt manneskjur sem spanna fleiri hluta regnbogans. En þau sem leiða umræðuna á morgun verða Atli Þór Fanndal, Alexander Björn, Helga Haraldsdóttir, Ugla Stefanía og Rúnar Þór Sigurbjörnsson.
Enn úrelt viðhorf í samfélaginu
Unnsteinn telur að umræður sem þessar hafi raunverulega áhrif en til þess þurfi fólk að geta sest saman og rætt hlutina. Hvernig birtist karlmennskan til að mynda innan hóps kvenna sem eru samkynhneigðar, meðal transfólks og svo mætti lengi telja?
Birtingarmynd fordómanna leynist víða. Sem dæmi má taka þegar fólk í samkynjasamböndum að spurt er hver sé karlinn og hver sé konan. Unnsteinn segir að þetta séu augljóslega úrelt viðhorf en sumir setji slíkar vangaveltur fram í gríni, til að mynda hver eldi oftar og taki til á heimilinu. Hann bendir aftur á móti á að í samkynjasamböndum sé enginn af gagnstæðu kyni og því tómt mál að tala um slíka skiptingu. Einnig séu auðvitað einstaklingar í samböndum sem skilgreina sig ekki út frá kyni eða eru transfólk.
Hér fyrir neðan má sjá viðtal við konu sem segir í einlægni frá þeirri reynslu að falla ekki inn í þessi hefðbundnu kynjahlutverk.
Being butch has nothing to do with masculinityWhy can't you see me as a woman? https://bit.ly/2AVrov0
Posted by PinkNews on Tuesday, August 7, 2018