5. Valdatafl í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík
„Nýjustu átökin sem átt hefur sér stað á milli þessara fylkinga hófust í fyrra. Nánar tiltekið í fyrrasumar, áður en að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk, leit fyrir að næstu stórátök á hinu pólitíska sviði yrðu borgarstjórnarkosningarnar sem fram fara í lok maí 2018.
Fyrsta alvöru orustan var háð á fundi Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, 9. ágúst 2017. Í aðdraganda fundarins var ekkert sem benti til þess að til stæði að fjalla um val á lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Þar af leiðandi var ekki fullmætt á fundinn. Engin dagskrá var send til stjórnarmanna áður en að hann fór fram. Á fundinum ákvað Gísli Kr. Björnsson, formaður Varðar, hins vegar að halda umræðu og atkvæðagreiðslu um að leiðtogakjör yrði haldið í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Sú tillaga var samþykkt.
Það að farið yrði í leiðtogakjör en stillt upp í önnur sæti á lista var fjarri því sem tíðkast hefur innan Sjálfstæðisflokksins, þar sem prófkjör þykja lýðræðislegasta leiðin til að velja á lista og allar hömlur á slíku, líkt og til að mynda kynjakvótar þótt til óþurftar.“
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
4. Af hverju eru allir að tala um ketó?
„Ketó er stytting á hugtakinu ketósa (e. ketosis) sem er ekki megrunarkúr, heldur ástands sem líkaminn kemst í þegar hann skiptir orkubúskap líkamans úr glúkósa (sykri) í fitu.
Þannig verður líkaminn nánast alveg laus við kolvetni og afleiðing þess verður sú að lifrin fer að framleiða ketóna sem líkaminn notar sem orkugjafa í stað glúkósans. Til að kalla fram þetta ástand þarf sem sagt að takmarka kolvetni verulega í mataræði en neyta þess í stað mikillar fitu, svokallaðrar „góðrar“ fitu, og hóflegs magns af kolvetnum.
Þegar líkaminn hefur ekki glúkósa til að vinna úr nýtir hann ketónana sem orkugjafa og brennir fituforða sem eldsneyti.“
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
3. Sagan öll: Þetta er það sem verið er að rannsaka í Skeljungsmálinu
„Næstu árin virtist allt hafa gengið upp hjá Skeljungi. Félagið hagnaðist um tæpan 1,5 milljarð króna á árunum 2010 og 2011. Í febrúar 2012 endurfjármagnaði Arion banki allar skuldir móðurfélags Skeljungs sem greiddi með því upp allar skuldir sínar við Íslandsbanka. Þar með var slitið á tengslin við fortíðina. Heildarskuldir voru enn háar, um 10,6 milljarðar króna í lok árs 2011, en eiginfjárstaðan var jákvæð um 3,7 milljarða króna.
Í tilkynningu frá félaginu vegna þessarar afkomu sagði að markmiðið með þessum viðskiptum hefði verið að stuðla „að vexti félagsins, auka verðgildi þess og jafnframt að gera það að áhugaverðari fjárfestingarkosti". Þar sagði enn fremur að „mikil umbreyting [hefði] átt sér stað á rekstri og efnahag Skeljungs á undanförnum árum […] Nettó vaxtaberandi skuldir þess eru kr. 4.882 millj. og hafa lækkað um kr. 6.980 millj. síðan núverandi eigendur komu að rekstrinum haustið 2008".
Skýringar á þessari lækkun á skuldum voru nokkrar. Sú sem mestu skipti var svokölluð höfuðstólsleiðrétting á skuldum sem Íslandsbanki bauð fyrirtækjum upp á. Við hana voru erlend lán Skeljungs færð yfir í krónur. Í öðru lagi hafði hagnaður félagsins verið ágætur auk þess sem það seldi höfuðstöðvar sínar árið 2011. Það gerði Skeljungi kleift að greiða hraðar niður skuldir.“
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
2. Tekjuhæstu Íslendingarnir borga ekki endilega hæstu skattana
„Einar Friðrik Sigurðsson og Ármann Einarsson voru báðir á meðal eigenda útgerðarfyrirtækisins Auðbjargar, sem selt var til Skinneyjar Þinganess á árinu 2016. Einar Friðrik var með rúmlega 1,9 milljarða króna í fjármagnstekjur vegna þeirrar sölu og Ármann fékk um 794 milljónir króna í sinn hlut vegna hennar. Þetta gerði þá að fjórða og sjöunda tekjuhæsta Íslendingnum á árinu 2016.
Það vekur raunar athygli að þorri tekjuhæsta fólks landsins gefur upp mjög lágar launatekjur í flestu eðlilegu samhengi. Sá sem situr til dæmis í níunda sæti yfir tekjuhæstu landsmenn ársins 2016, Grímur Garðarsson, var með 52.789 krónur á mánuði í laun en 744 milljónir króna í fjármagnstekjur.
Eini einstaklingurinn á topp tíu yfir tekjuhæstu landsmennina sem gefur upp laun sem eru yfir einni milljón króna er Guðmundur Kristjánsson, oftast kenndur við Brim en í dag forstjóri og aðaleigandi HB Granda. Hann var með launatekjur upp á 2.830 þúsund krónur á mánuði á árinu 2016 en þénaði fjármagnstekjur upp á tæplega 1,1 milljarð króna á því ári. Fyrirtæki Guðmundar, sem þá hét Brim en heitir nú Útgerðarfélag Reykjavíkur, var auðvitað kaupandinn að Ögurvík, viðskiptum sem skilaði þeim sem sitja í efstu sætum tekjulistans. Áhrif Guðmundar á tekjur Íslendinga eru því veruleg.“
Lesið fréttaskýringuna í heild sinni hér.
1. #Metoo: Konur af erlendum uppruna stíga fram
„Frásagnir þeirra eru átakanlegar. Ein fjallar um það að eiginmaður hafi litið á eiginkonu sína sem hlut sem hann gat notað þegar hann vildi. Nánast alltaf var um að ræða kynferðislegt athæfi og maðurinn kom fram vilja sínum þrátt fyrir kona hans segði skýrt nei.
Önnur frásögn er af því þegar kona sem ráðin var til að þrífa heima hjá auðugum íslenskum hjónum verður fyrir kynferðisofbeldi af hendi vinnuveitanda síns sem hélt henni nauðugri, sleikti í framan og niður að brjóstum hennar. Í kjölfarið sagði maðurinn að honum hafi alltaf langað til að vita hvernig lituð kona bragðaðist. Tveimur dögum síðar var konan rekin úr starfi af eiginkonu mannsins.
Ein konan segir frá því að hún hafi þurft að „borga“ fyrir að komast til Íslands með því að stunda kynlíf með manninum sem flutti hana hingað. Hún var einnig neydd til þess að stunda kynlíf með tveimur vinum hans. Þetta ástand hafi staðið yfir í þrjú ár, eða þar til að kvalari hennar fann sér yngri innflytjanda í hennar stað. Hún segist hata karlmenn í dag og að hún muni aldrei geta notið kynlífs eftir reynslu sína. „Ég vil aldrei fæða barn inn í heim þar sem svona hlutir geta átt sér stað,“ segir konan í frásögn sinni.“