5. „Ísland er fallegt land en það er hægt að gera það enn fallegra“
„Brenda segir að erfitt geti reynst fyrir fólk að viðurkenna vandamálið og ranglætið. „Ísland er hið fullkomna land, að sögn sumra. Og fólk er hrætt við að viðurkenna að svo sé ekki. En að viðurkenna mistök gerir landið ekki slæmt. Það veki fólk hins vegar til vitundar,“ segir hún. Að viðurkenna mistökin og halda síðan áfram. Það sé svo einfalt.
Útlendingastofnun er ágæt stofnun, að hennar mati, en bregst þó erlendu fólki að einhverju leyti. „Þegar ég ákvað að skilja við eiginmann minn þá hafði ég mínar ástæður. Ég átti þá einn son sem var fjögurra ára. Ég hafði unnið síðan ég kom til Íslands og hafði græna kortið á þessum tíma og sótt um ríkisborgararétt. En þegar ég sótti um skilnað þá fékk ég viku síðar bréf frá Útlendingastofnun þar sem þau báðu mig að skila græna kortinu,“ segir hún. Þetta hafi verið áfall fyrir hana og segir hún að margar aðrar leiðir hefðu verið til í stöðunni. En þegar kerfið sé svona hugsunarlaust þá gerist svona hlutir. Nauðsynlegt sé í aðstæðum sem þessum að líta á heildarmyndina.
Hún bendir á að konur í slæmum hjónaböndum muni ekki greina frá reynslu sinni. Ein ástæðan fyrir því sé að þær eru hræddar við að verða reknar úr landi. Þetta sé ennþá erfiðara þegar börn eru komin í spilið. Margir menn hóti að taka börnin frá þessum konum og að þeim verði vísað úr landi. „Þess vegna tala þær ekki,“ segir hún. Þetta hafi bersýnilega komið í ljós við lestur #metoo-frásagnanna enda hafi þær sem komust út úr slæmum hjónaböndum getað látið í sér heyra. Brenda segist vita um margar konur sem geti það aftur á móti ekki af hræðslu við afleiðingarnar. Þær búi við slæmar aðstæður og hafi engan stað til að leita skjóls.“
Lesið viðtalið í heild sinni hér.
4. Börn sem missa foreldri sitja ekki við sama borð og önnur
„Þegar Heiða missti manninn sinn voru þau að koma yfir sig þaki og byggja sig upp fjárhagslega en þau dvöldu erlendis á þessum tíma. Þau áttu, eins og fram hefur komið, þrjú börn á umönnunaraldri sem gerði róðurinn erfiðan fyrir Heiðu. Hún segir að þrátt fyrir að hennar saga sé að sumu leyti frábrugðin þar sem hún bjó ekki á Íslandi þegar hún varð ekkja þá hafi hún samt sem áður byrjað að leita réttar síns fljótt eftir áfallið.
Hún komst að því að ríkið verður meðlagsgreiðandi við fráfall maka en slíkar greiðslur kallast barnalífeyrir. Ekki sé aftur á móti hægt að fá tvöfaldan barnalífeyri í tilfelli ekkna eða ekkla og enn fremur komi ríkið ekki til móts við fólk í sérstökum tilfellum þar sem fjárútláta er þörf.
Heiða segir að erfitt geti reynst að fjármagna einsömul tannréttingar, fermingar, bílpróf og þess háttar útgjöld en ólíkt einstæðum foreldrum þá getur hún ekki sótt um sérstök framlög þegar það á við. Henni finnst að með þessu sé verið að mismuna börnum og að Tryggingastofnun túlki lögin þannig að þau eigi ekki rétt á frekari framlögum. Henni finnst mikið jafnréttismál að allir skulu vera jafnir fyrir lögum en þegar börn ekkna eða ekkja eiga í hlut þá sé það ekki raunin.“
Lesið viðtalið í heild sinni hér.
3. Afglöp Rauða krossins draga dilk á eftir sér
„Börn Nargizu dvelja nú hjá föður hennar á heimili hans í Kirgistan en móðir hennar er látin. Hún hefur áhyggjur af þeim og langar hana að sameina fjölskylduna. Hún talar við þau á hverjum degi og hennar helsta ósk er að fá tækifæri til að byggja upp nýtt líf á Íslandi. Hún vill senda eftir börnunum og búa þeim heimili hér.
Dvölin fjarri fjölskyldunni hefur reynt mikið á Nargizu og þjáist hún að miklum kvíða og vanlíðan en slíkt er ekki óalgengt hjá konum í þessari stöðu. Í greinargerð til Útlendingastofnunar vegna umsóknar hennar um alþjóðlega vernd kemur fram að hún sé metin í einstaklega viðkvæmri stöðu en hún upplifir kvíðaköst eftir reynslu sína, fær martraðir og finnur fyrir mikilli streitu. Jafnframt segir í greinargerðinni að konur og stúlkur séu gjarnan taldar sérstaklega viðkvæmur hópur sem hafi færri tækifæri, úrræði, völd og áhrif en karlmenn vegna samfélagslegrar stöðu sinnar.
Mál Nargizu hjá Rauða krossinum var ekki meðhöndlað sem skyldi en þegar kom að því að kæra niðurstöðu Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þá fórst það fyrir hjá lögfræðingi hjálparstofnunarinnar. Nargiza skilur ekki íslensku og var henni aldrei greint frá mistökunum þar til íslenskir vinir hennar fóru að grennslast fyrir um málið. Þá kom í ljós að vegna „persónulegra ástæðna“ talsmanns Nargizu, sem var lögfræðingur hennar hjá Rauða krossinum, hafi verið komið í veg fyrir að ákvörðun Útlendingastofnunar yrði kærð innan kærufrests.“
Lesið viðtalið í heild sinni hér.
2. Stefnulaust rekald
„Kári: Hlustaðu nú á mig! Það er bara þannig að svo margt í læknisfræði er svona judgement-call. Og ef það er enginn sem hjálpar þér við að halda þig réttu megin við línuna, þá ferðu yfir hana. Og það er ekkert gæðaeftirlit, það er ekkert eftirlit. Og ég er ekki í nokkrum vafa að allir þessir háls-nef- og eyrnalæknar hafa verið hundrað prósent vissir um að það væri rétt í hvert einasta skipti sem þeir tóku hálskirtla.
Jakob: Tannlæknirinn minn kallaði mig aftur til sín í síðustu viku, nokkuð sem hann er ekki vanur að gera, og hann sagði: Jakob minn, ég varð nú að fá þig hingað fyrir jólin til að auka aðeins tekjurnar. Hann sagði þetta að sjálfsögðu í gríni en auðvitað segir þetta manni að það sé ákveðinn möguleiki til staðar.
Kári: Já, já. Já, já.
Jakob: Ég veit ekkert hvort hann fann í alvörunni skemmd eða ekki!
Kári: Já, já, jú, jú. Þetta er flókið.“
Lesið viðtalið í heild sinni hér.
1. Það sem ekki má ræða
„Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð talaðir þú um að það vantaði frjálslynt afl í hana. Hvað áttirðu við með því?
„Mér finnst þessi ríkisstjórn vera ákveðin varðstaða utan um ákveðna hagsmuni. Og sorglegt að Vinstri græn hafi veitt Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum svigrúm og andrými til þess að halda áfram á sömu braut. Til dæmis í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Og peningamálum. Þetta eru heldur ekki mest alþjóðasinnuðu flokkarnir.“
Hún segir synd að sjá hvernig ákveðnir stjórnarþingmenn og ráðherrar í ríkisstjórninni tali að hluta til niður EES-samninginn sem enn sé okkar mikilvægasti viðskiptasamningur. Sjálfsagðir hlutir í dag hafi ekki verið það fyrir gildistöku EES. Hættan sé sú að íslenskir neytendur átti sig ekki á hversu mikið sá samningur hafi gert fyrir samfélagið. Kannski vegna þess að stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafi ekki upplýst fólk nægilega um mikilvægi evrópska efnahagssvæðisins. Frjáls og opinn markaður og alþjóðasamstarf hafi sjaldnast verið til trafala.
Hún tekur sem dæmi að geta ferðast á milli Evrópulanda og flutt ákveðna hluti með sér óhindrað, þrátt fyrir að það gildi ekki um allar landbúnaðarvörur. „Vöruúrval eykst og verð lækkar. Fólk getur leitað eftir því nokkuð óhindrað að fá vinnu annars staðar. Og við fengið hingað fólk að vinna sem býr yfir margvíslegri þekkingu. Svo ekki sé talað um samskipti við alþjóðlegu stórfyrirtækin. Á tímum þar sem þau eru sum hver orðin voldugri en einstök ríki. Löndin mega sín því lítils en saman geta þau spyrnt við ofurvaldi stórfyrirtækja eins og dæmin sanna. Í því felst mikil neytenda- og persónuvernd.“