Eydís Eir Brynju-Björnsdóttir er handritshöfundur og leikstjóri. Hún skrifaði handrit af stuttmynd sem er byggð á hennar eigin reynslu, þegar hún upplifði gróf mannréttindabrot í Tyrklandi. Starfsmaður á hóteli sem Eydís dvaldi á braust inn á herbergi hennar um miðja nótt og braut á henni. Í kjölfarið var hún kærð fyrir skemmdarverk á hótelinu og færð í fangelsi.
Myndin var tekin upp á Spáni en Eydís má ekki stíga fæti aftur inn fyrir landamæri Tyrklands. Myndin þráir nú áhorfendur og söfnun hefur farið af stað fyrir áframhaldandi dreifingu hennar en 20% af söfnuninni mun renna til Elfusjóðs sem aðstoðar konur að leita réttar síns í ofbeldismálum hér á Íslandi sem Sigrún Jóhannsdóttir héraðsdómslögmaður stendur fyrir.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Hugmyndin af myndinni vaknaði eftir ákveðna úrvinnslu og skrif um það sem gerðist. Það kom svona „aha” augnablik þegar ég var að skoða skrifin mín, um þær manneskjur sem ég hitti í þessum rússíbana, atvik sem voru lyginni líkust og hugarástand mitt þegar ég hélt ég myndi ekki lifa af. Þetta var auðvitað fast í mér lengi á eftir.
Eins og staðan er núna hjá okkur fór allt okkar fjármagn í framleiðsluna og þess vegna ákváðum við að fara þessa leið, þar sem það var tímabært að dreifa sögunni almennilega og af fullum krafti. Það er mikill plús fyrir mig, eða ég er að átta mig akkúrat á þessu augnabliki að það er mikilvægt fyrir mig að ræða söguna opinberlega. Því það er auðvitað engu líkt að geyma sögu eins og þessa inn í sér. Eins og Maya Angelou sagði „There is no greater agony than bearing an untold story inside you”.
Ég veit að margir fara þessa leið til að fjármagna útgáfu listrænna verkefna sinna. Eins og flestir vita þá er ekki arðbært að gera stuttmyndir og ég held við höfum gefið allt í þetta, blóð, svita, tár og okkar eigin laun. Þess vegna er okkur mikilvægt að fá sem flesta áhorfendur! Enginn tilgangur að gera kvikmynd ef enginn fær að sjá hana. Það eru margir að biðja um að fá að sjá myndina, en þetta er einmitt kjörið tækifæri fyrir þá að fá hana sem gjöf og um leið styðja við dreifingu hennar. Það er möguleiki í söfnuninni að styrkja og fá hlekk á myndina og boð á frumsýninguna ef það vill það frekar sjá hana á stóru tjaldi með góðu hljóði sem ég mæli frekar með.“
Stuttmyndir eru öðruvísi en stærri kvikmyndir því þær mega ekki fara í almenna sýningu fyrr en þær hafa ferðast ákveðin hátíðarhring annars eru þær ekki gjaldgengar inn á hátíðir. Þessi söfnun mun því flýta mjög fyrir þann prósess. Við gerðum í raun rosalega stóra litla mynd. Tókum upp erlendis, vorum með fjölþjóðlegt kvikmyndagerðafólk, listamenn frá Íslandi, Tyrklandi, Spáni, Kanada, Frakklandi og Danmörku. Stór og góður hópur. Ævintýraleg lífsreynsla.
Þegar ég var kynnt fyrir Elfusjóði og fyrir hvað hann stendur fyrir, hitti það mig í hjartastað og ég ákvað að vekja athygli á sjóðnum með þessari fjáröflun. Þetta er ómetanlegt samfélagsverkefni sem þarf að líta dagsins ljós sem allra fyrst því ég hef verið í þeirri stöðu að eiga erfitt með að leita réttar míns og það eru óteljandi konur hér á landi í sömu stöðu.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Þemað snýst auðvitað um samstöðu gegn kynbundnu ofbeldi. Við þurfum að standa saman, konur þurfa að hafa hátt um sögur sínar og fá réttláta málsmeðferð eftir ofbeldi. Mögulega er kannski smá hliðarþema samstaða með konum í kvikmyndagerð. Konur þurfa að fá að segja sínar sögur og láta ljós sitt skína á þessum magnaða miðli sem kvikmyndagerð er. Ég var heppin sem einstaklingur að lifa af og er nú í þeirri forréttindastöðu að geta sagt mína sögu af ofbeldi og mannréttindabroti, það er ekki á allra færi. Þess vegna er svo mikilvægt að þessi saga fái að heyrast.
Við viljum greiða öllum leið að styðja verkefnið og hjálpa okkur að ná markmiðinu. Auðvitað eru sumir ekki með kreditkort en greiðslur eru gjaldfærðar af kortum eftir að fjáröflunartíma lýkur og einungis ef fjáröflunin markmiðinu. Við höfum því ákveðið að hafa þann möguleika að styrktaraðilar geta lagt beint inn á reikning og við myndum svo leggja inn á söfnunina fyrir þeirra hönd! Viðkomandi getur svo sent okkur póst á arcus@arcusfilms.com með bankaupplýsingum svo við getum endurgreitt ef við náum ekki settu takmarki en við vonum og trúum því innilega að okkur takist vel til.
Ef þú vilt láta gott af þér leiða þá er þetta tilvalið verkefni til þess að styrkja.“
Hægt er að styrkja verkefnið hér, fylgjast með því á Facebook hér og síða Elfusjóðsins er hér.