Borgarleikhúsið: Bæng!
Höfundur: Marius von Mayenburg
Þýðing: Hafliði Arngrímsson
Leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Eva Signý Berger
Lýsing: Kjartan Þórisson
Myndband: Ingi Bekk
Tónlist og hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikgervi: Elín S. Gísladóttir
Leikarar: Björn Thors, Brynhildur Guðjónsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Davíð Þór Katrínarson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Halldór Gylfason.
Það má segja ýmislegt gott um sýningu Borgarleikhússins á Bæng! í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur. Gréta Kristín vakti athygli fyrir rúmum tveimur árum fyrir sýninguna Stertabendu, einnig eftir Marius von Mayenburg, en sú sýning var útskriftarverkefni hennar af sviðshöfundadeild LHÍ. Stertabenda var býsna skýr lýsing á ákveðnu samfélagsástandi sem auðvelt var að taka til sín og hafa nokkurt gaman af – það var áleitið og á erindi við okkar tíma. Bæng! tekur á svipuðum nótum á vanda nútímasamfélags, en það er þó í því ívið annar tónn, sem markast kannski af því að höfundur skrifar verkið í kjölfar síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum.
Það er Hafliði Arngrímsson sem þýðir Bæng! og ferst það ákaflega vel úr hendi. Textinn er lipur og fer vel í munni leikara og það má dást sérstaklega að þýðingu hans á orðaleikjum föður Hrólfs, en sá talar gjarnan í raddæfingarkenndum þulum sem einatt eru hreinar merkingarleysur, en hér er vissara að áhorfendur leggi við hlustir, því hér leynist merking í hverjum frasa.
Ekki er ljóst hvort þýðandi sjái einnig um staðfæringu verkins, en hvort sem það er verk hans eins eða í samvinnu við leikstjóra verður að segjast, að staðfæringin er vel heppnuð og hvergi skotið yfir eða undir mark í þeim efnum, amk. ekki hvað sjálfan textann varðar.
Hvað skal þá sagt um sjálfa sýninguna?
Bæng! segir frá Hrólfi Bæng sem fæðist alskapaður úr móðurkviði eftir að hafa þar kyrkt tvíburasystur sína (!) og tekur þegar til við að stjórna umhverfi sínu með ómengaðri frekju og tilætlunarsemi. Foreldrar hans eru undanlátssamir og meðvirkir og barnið verður háþróaður sjálfsdýrkandi sem fær að ráða ríkjum á heimilinu og á endanum í samfélaginu öllu.
Hér má finna skírskotanir í ýmsar áttir: Bubbi kóngur er ekki langt undan, né heldur barnið í Meðgöngutíma Mrozeks, sem leikið var fyrir nær hálfri öld hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þá er hér líka skírskotun í nýlega kvikmynd, The Truman Show, með þeim viðsnúningi þó að hér er aðalpersónan ekki bara meðvituð um show-ið sem slíkt og nauðsyn þess að það haldi sínu striki hverju sem tautar og raular heldur verður sýningin beinlínis til eftir fyrirskipunum og duttlungum Hrólfs Bæng. Það má einnig sýna fram á viss tengsl við dadaismann og afneitun þeirrar stefnu á rökhyggju og borgaralegri fagurfræði hins kapítalíska samfélags og sem hafði leitt til fyrri heimsstyrjaldarinnar. Dada er nafnið á stefnunni og var valið að sögn af algeru handahófi – en stundum á það bent að “dada” sé með fyrstu hljóðum ómálga barns. Hrólfur Bæng er barn og höfundurinn vísar til þess í viðtali í leikskrá að margir af einræðisherrum nútímans haga sér eins og börn, eins og óvitar. Og ótalin eru þá hughrifin frá Grand Guignol, Brúðuleikhúsinu mikla, sem sýndi blóðugar hryllingssýningar og sem rekið var í París lungann af nítjándu öldinni og sem vikið er lítillega að í viðtali við höfundinn í leikskrá.
Það vantar ekki heldur skírskotanir til atburða í samtímanum: Hrólfur Bæng er einræðisherrann holdi klæddur og birtist í mynd þessa vitstola en málgefins barns, sem er algerlega meðvitað um hvaða aðferðum það beitir til að stjórna umhverfi sínu og fá vilja sínum framgengt. Hann getur í því ljósinu verið Trump eða Erdogan eða hvaða pópúlíski þjóðhöfðingi sem þekktur er að ofbeldi og einræðistilburðum. Hrólfur Bæng er þó ekki eftirherma heldur algerlega sinn eigin karakter í kostulegum meðförum Björns Thors, sem skapar eftirminnilega persónu úr efniviðnum sem höfundur færir honum í hendur. Hrólfur Bæng á sína eigin sögu sem er engri sögu lík. Hann kynnir sig í upphafi sýningar – eða öllu heldur áður en sýningin hefst, því þetta er sýningin hans, hann er stjórnandinn sem leiðir okkur inn í leikinn. Þarna koma vel fram kostir Björns sem leikara, að geta verið í nánu sambandi við áhorfendur og tekið við og fært sér í nyt alls kyns viðbrögð þeirra og um leið haft fullt vald á aðstæðum og beitt því í þágu frásagnarinnar. Enda kveikir þetta í áhorfendum, Hrólfur verður karakter sem vekur forvitni og áhuga. Þetta er meginstyrkur sýningarinnar og Björn vinnur leiksigur í hlutverki þessa ofvaxna barns sem Hrólfur Bæng er.
Það má reyndar segja um leikhópinn allan, að hér gerir hver og einn sitt besta og þegar litið er til leiks og umgjarðar þá er sýningin ágæt afþreying og á köflum kostuleg í gróteskum og afkáralegum skilningi – en þó í fallega hannaðri og smekklegri umgjörð. Leikmynd Barkar Jónssonar og búningar Evu Signýjar Berger bera vitni um frjótt ímyndunarafl og fagmannlega vandvirkni og sömuleiðis vinnur lýsing Kjartans Þórissonar vel með öllum hinum sjónræna efniviði, sem allur er líkt og innblásin af teiknimyndasögum – leikmyndin í pastellitum og skærum tónum líkt og finna má í sjötta áratugar auglýsingum af hinni fullkomnu amerísku fjölskyldu í hinu fullkomna ameríska heimili og sem íslenskt samfélag fór ekki varhluta af. Þá eru leikgerfi Elínar S. Gísladóttur algerlega í stíl, gríðarlega vel unnin og auðvelda ekki síst Halldóri Gylfasyni og Katrínu Halldóru Sigurðardóttur að bregða sér í ótal hlutverk, hvert með sínu sniði og sérstaka karakter.
Foreldrar Hrólfs eru leikin af Brynhildi Guðjónsdóttur og Hirti Jóhanni Jónssyni og þau eru hinir fullkomnu foreldrar sem eiga hið fullkomna barn – sem verður undir meðvirkni foreldranna og ofurtrú á litla snillingnum að ófreskju sem engu eirir sem á vegi þess verður. Þau eru færð til nútíma með vistvænum lífsstíl og heilbrigðu mataræði, fullkomnu afskiptaleysi af þeim öflum stjórnmála og peninga sem ráðskast með líf þeirra – en réttlætingin fundin í góðverkum þar sem kjallari húss þeirra verður skjól flóttamönnum, sem talað er um en aldrei sjást.
Þetta er náttúrulega fyndið og skemmtilegt og það er margt aðhlátursefnið í Bæng! Húmorinn er auk þess gróteskur og það má víða finna atriði þar sem orðræða eða atvik afhjúpar á óvæntan hátt aðstæður sem við þekkjum úr okkar eigin raunveruleik.
Þó verður ekki hjá því komist að segja að Bæng! er ófullkomin saga ekki síst í ljósi þess sem höfundur vill augljóslega koma á framfæri. Bæng! birtir í afskræmdri mynd velþekkt fyrirbæri úr samtímanum, raungerir þau í smækkaðri fjölskyldumynd og setur þau þar með í kastljósið: Sjáið hér! Og um leið staðhæfir sýningin að við – almenningur, kjósendur, fólkið í landinu – höfum í raun verið þau fífl að við höfum ekki fattað djókinn. Við höfum hleypt inn á gafl hjá okkur enn einum loddaranum (með tilvísun í aðra leiksýningu í öðru leikhúsi) hvort sem hann kallast Trump, Erdogan, (hér væri freistandi að nefna íslensk dæmi, en verður látið ógert. Það má vera ragur!) eða ætti maður jafnvel að voga sér að nefna sjálfan Krist, samanber lokamyndina í Bæng! eða er það að seilast of langt?
Í áður nefndu viðtali í leikskrá segir höfundurinn, Marius von Mayenburg að hann hafi verið mjög reiður þegar hann skrifaði Bæng! Það er skiljanlegt og auðvelt að setja sig í hans spor. Ef litið er á samfélagsástandið, ekki aðeins í okkar heimshluta, heldur í heiminum öllum er auðvelt að fyllast heilagri og réttlátri reiði yfir því sem fyrir augu ber: flóttamannavanda, loftslagsvá, fjölgun mannkyns, ranglæti, mansali, ofbeldi, stríði … það er hægt að lengja þennan lista í það óendanlega og um allt má kenna græðgi örfárra sem hvergi sjást og sem engum lýðræðislegum böndum verður á brugðið. Auðvitað verður hver sá sem sér og á horfir á útfrá sjónarhorni lítilmagnans reiður. Slík reiði getur stundum fætt af sér aðgerðir, samanber sænsku stúlkuna Greta Thunberg sem virðist vera að vekja upp fjöldahreyfingu sem krefst þess að stjórnmálamenn allra landa axli ábyrgð og breyti ástandinu.
Hins vegar er reiði lélegt eldsneyti þegar skrifað er leikhúsverk. Í það minnsta þegar maður er ekki að segja neitt, sem telst nýtt. Dadaistarnir brutu gegn viðteknum gildum, þeir gerðu uppreisn. Nú er sú uppreisn gamlar fréttir og þjónar litlum tilgangi að feta í þau fótsporin. Leikverk sem segir frá Hrólfi Bæng þarf að greina með skarpskyggni vísindamannsins hvaða leiðir liggja frá Hrólfi, ekki hvaða slóðar leiddu til hans. Við vitum að hann er til, við þurfum að fá að vita hvernig við losnum við hann – það er engin lausn að skjóta hann. Það hefur verið reynt.
Bæng! er fyrst og fremst sýning sem samanstendur af safni stuttra sketsa, raðað saman í lauslegt samhengi rétt eins og í áramótaskaupi eða menntaskólarevíu. Sýningin heitir Bæng! – nafn með hvelli – en þeim skotum sem hleypt er af ramba út í myrkur og hitta engan fyrir. Það er einna helst að flóttamannapólítíkin sé höfð í fókus, en samhengi þess hluta sögunnar, þar sem móðirin fyllir kjallarann af flóttafólki, við allt annað sem gerist og tæpt er á – barnauppeldi, viðhorf til kvenna, tengsl ímyndunar og veruleika (með vissulega fyndnum en ómarkvissum vísunum í aðrar sýningar Borgarleikhússins) – er ómarkviss og sýningin verður fyrir vikið sundurlaus og áhrifslítil þegar upp er staðið og leikhúsið skilar áhorfendum aftur út í veruleikann. Vissulega í góðu skapi og kátum, en hugsanlega veruleikafirrtari en þeir voru. Varla hefur það verið ætlunin?