Sálufélagar í Tjarnarbíói: Independent Party People
Höfundar og flytjendur: Davíð Þór Katrínarson, Jónmundur Grétarsson, Nína Hjálmarsdóttir, Selma Reynisdóttir.
Framleiðendur: Nína Hjálmarsdóttir, Selma Reynisdóttir.
Sviðsmynd: Katerina Blahutová.
Dramatúrgisk aðstoð: Brogan Davison, Pétur Ármannsson.
Tónlist: Sigrún Jónsdóttir.
Ljós: Aron Martin Ásgerðarson, Magnús Thorlacius.
Búningar: Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir.
Tjarnabíó er eins og flestum er kunnugt heimavöllur sjálfstæðu leikhópanna. Þar má einatt sjá verk sem enn er verið að þreifa sig áfram með efnistök og úrvinnslu og oftar en ekki eru viðfangsefnin nýstárleg sem og efnistökin. Í Tjarnarbíói verður aldrei gengið að neinu vísu og þess vegna er það spennandi leikhús. Rati þangað sem flestir!
Leikárið hefst á tilraun um ímynd Íslands og Íslendinga og það er svo sannarlega leikið með þá ímynd útfrá ýmsum sjónarhornum. Þegar áhorfendur ganga inn í sal Tjarnarbíós mætir þeim leikhópurinn sem ýmist situr eða liggur í makindum og sötrar rauðvín, íklæddur afkáralegum búningum sem vísa í þjóðleg gildi – lopapeysan íslenska með sínu klassíska munstri – og partístemningu nútímafólks með litríkum pífum, blúndum og krögum en umgjörðin er hvítur bakveggur úr heybögglaplasti og allt sem fyrir augu ber af leikmyndatagi er gert úr plasti og það er vissulega ákveðin afstaða sem birtist í því. Lýsingin fylgir stemningu og stíl, afdráttarlaus og ótvíræð.
Í þessu ofurhvíta umhverfi spjallar leikhópurinn saman og við áhorfendur á afslappaðan og tilgerðarlausan máta; í byrjun er samvera beggja, leikhóps og áhorfenda útskýrð útfrá tilgangi sýningarinnar og óborganlegar útskýringar á samsetningu leikhópsins gefnar til að ekkert fari á milli mála og það er eins og að vera staddur í vinnusmiðju þar sem verið er að undirbúa sýningu en ekki að sjá leiksýningu flutta í rauntíma – þetta er leikur með tíma, afstöðu og umhverfi þar sem allt fléttast saman á fyndinn hátt og auðskiljanlegan.
Sviðslistahópurinn Sálufélagar samanstendur af stofnendum hans, Nínu Hjálmarsdóttur, sem lauk prófi frá Fræði og framkvæmd braut Listaháskóla Íslands, og Selmu Reynisdóttur, dansara, og hér hafa þær sótt sér liðsauka í leikurunum Davíð Þór Katrínarsyni og Jónmund Grétarssyni. Sálufélagarnir Nína og Selma hafa velt þema verksins fyrir sér í lengri tíma og lagst í allnokkra rannsóknarvinnu til að kanna fyrirbærið ímynd Íslands – upphaflega voru þær að skoða sjálfsmynd Íslendinga sem og hvernig útlendingar hugsa um okkur Íslendinga og fundu útgangspunkt í skrifum mannfræðingsins Kristínar Loftsdóttur sem hefur skoðað hugmyndina um Ísland sem hið framandi og spennandi norður. Og svo gaf Forsætisráðuneytið út skýrsluna Inspired by Iceland, sem hefst á orðunum: “Í þjóðinni býr náttúrulegur kraftur sem mótast hefur í sambúð við náttúruna”. Sem er nú meira miðflokksbullið.
Vissulega er þetta kjörið rannsóknarefni og snjallt að vinna úr því sýningu, sem brýtur gegn hinni venjubundnu dramatúrgíu og verður að flæði hugmynda þar sem við, áhorfendur, hættum að vera áhorfendur og verðum frekar eins konar þátttakendur – við finnum svo sannarlega fyrir því að þegar leikhópurinn segir sig ekki geta samsamað sig í þessari opinberu Íslandsímynd þá tökum við undir það, við skiljum rök þeirra og gerum þau að okkar rökum. Og förum að efast um hvað sé að vera Íslendingur.
Misskilji nú enginn orð mín sem svo að Independent Party People sé hamslaus og ruddaleg árás á ímyndarsmiði hins opinbera. Öðru nær. Hér er borin virðing fyrir efninu. En hér svo sannarlega skoðað og rannsakað, varpað fram eðlilegum og sjálfsögðum spurningum sem, þegar að er gáð, eru líka okkar spurningar.
Ísland er hvítt. Í öllum skilningi. Í ímynd Íslands er áherslan lögð á víkinginn, hvíta manninn, sem leggur undir sig landið, og það eru ansi margir sem fá hreinlega ekki pláss í þeirri ímynd. Þeirri opinberu. Þeirri viðurkenndu.
Leikhópurinn sýnir þetta á sjálfum sér: Nína og Selma eru hvítar ungar konur, Davíð Þór og Jónmundur eru blakkir (já, eða brúnir) ungir karlar. Þau þurfa sjálf að berjast við ímyndarhugtakið, þreifa á því, takast á við það og sigrast á því. Af því saga vor kúrir kvenmannslaus í kulda og trekki – svo vísað sé til þekkts baráttusöngs – og það þarf nú ekki að ræða blökkumennina, sem á stríðsárunum máttu ekki einu sinni vera hermenn í her Bandaríkjanna samkvæmt leynisamkomulagi ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna. Og má ekki nefna hér olnbogabarn Íslendingasagna, Geirmund Heljarskinn, son Hjörs og Ljúfvinu, en hann mun hafa erft mongólskt útlit móður sinnar og hefur búið við allnokkra þöggun síðan, en er nú að hljóta uppreisn æru með skáldsögu Bergsveins Birgissonar um svarta víkinginn.
Þessi tvö dæmi, hin kvenmannslausa saga vor og Geirmundur heljarskinn, eru hér nefnd til að sýna fram á að Independent Party People þeirra Sálufélaga hvílir síður en svo í hugmyndafræðilegu tómarúmi – þetta finnur hver á sér sem vill og viðurkennir.
Sú ímynd, sem birt er af opinberum aðilum, og sem einhvers konar óútskýrð sátt ríkir um, er og verður ímynd sem hampar sumum á kostnað annarra. Og það verður ekki fyrr en það er viðurkennt og opnað fyrir að allir rúmist innan ímyndar, að tekið sé tillit til allra og mið af öllum, að við getum öll orðið besta útgáfan af sjálfum okkur. Einhvern veginn finnst þeim sem þetta skrifar að það sé niðurstaðan þegar öllu er á botninn hvolft.
Það má svo ekki gleyma að nefna að sýningin er elskuleg. Hún kemur fallega við okkur áhorfendur/þátttakendur og gefur okkur mörg tækifæri til að staldra við og hugsa. En hún er líka fyndin og leikhópurinn kann mjög vel að halda utan um húmorinn. Stundum er hann nefnilega beittasta vopnið þegar bent er á það sem betur má fara í samfélagi mannanna.