Þegar Bruce Springsteen fer útaf tónleikasviðinu þá er hann yfirleitt rennandi sveittur í gegnum gallabuxurnar.
Oftar en ekki teygjast tónleikar hans fram yfir þrjá klukkutíma.
Hann stígur á svið og hálflekur svo útaf því, örmagna, eftir að hafa gefið allt sitt og meira til í verkefnið það kvöldið.
Svona hefur þetta verið hjá Bruce - “The Boss” - Springsteen, alveg frá því hann hóf að spila á sviði á litlum stöðum í New Jersey.
Hann hóf feril sinn 15 ára og hefur unnið fyrir sér sem tónlistarmaður síðan. Hann varð sjötugur 23. september síðastliðinn. Hann er einn af risum dægurlagatónlistarinnar í heiminum og er einn þeirra sem hefur rutt brautina og búið til nýja samhliða. Það er helst jafnaldri hans Billy Joel sem hægt er að stilla upp sem viðlíka áhrifavaldi. Hann var á leiðinni í flóann, eins og skrifað var um á sjötugsafmæli hans, á þessum vettvangi.
Það er auðvelt að hrósa Bruce fyrir hans einstaka framlag til tónlistarinnar, en áhrif hans á bandaríska þjóðarsjál eru djúpstæð. Lögin hans fjalla um hversdagsleg vandamál oftar en ekki, sem almenningur í Bandaríkjunum hefur alltaf tengt við. Vegna þess hve þetta er vel gert og af mikilli einlægni þá nær þetta til fólks alls staðar í heiminum.
Smellir hans eru ekki aðalatriðið heldur miklu frekar heiðarleikinn og einurðin.
Textarnir eru oft einfaldar frásagnir af hversdagslegu lífi fólks, draumum þeirra, sorgum og spurningum um lífið og tilveruna.
Að mínu mati hefur Bruce varla stigið feilspor allan sinn feril. En þegar hann birtist með hljómsveit sinni - The E Street Band - í Capital Theatre í New Jersey, 20. september 1978, þá var ljóst að þarna var enginn venjulegur hæfileikamaður á ferðinni. Hljómsveitin frábær, og magnaðir tónleikar sem hún færði fram þetta kvöld fyrir áhorfendur.
Upptakan af tónleikunum er einn af hápunktum einstaks ferils þessa magnaða listamanns.
Þegar einn af helstu samstarfsmönnum Bruce, Clarence Clemons, sem lést 2011, stígur inn á sviðið í hinu frábæra Jungleland, og byrjar að öskra í gegnum saxófóninn (3:42) - þá verða til galdrar.