Ásjárvert um mann á miðjum aldri

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu.

20190913-_DSC8895.jpg
Auglýsing

Þjóðleikhúsið: Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur)

Höfundur: Auður Ava Ólafsdóttir

Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson

Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir

Tónlist: Damien Rice

Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason

Myndband Elmar Þórarinsson

Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson

Leikarar: Baldur Trausti Hreinsson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Birgitta Birgisdóttir, Pálmi Gestsson, Hildur Vala Baldursdóttir

Það fer ekki á milli mála að Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) er metnaðarfullt verk – bæði af hálfu höfundarins, Auði Övu Ólafsdóttur og svo þess listræna teymis sem hefur tekið verkið að sér, gert að sínu og ber það fram á svið. Og því er ekki að neita að hér er margt sem gleður auga og eyra. Verkið sjálft, leikritið, sagan, er fremur laust í reipum og leikmyndin grípur það á lofti. Sigríður Sunna Reynisdóttir skapar umgjörð sem samanstendur af snúningshurðum sem þjóna margvíslegum tilgangi en niðurstaðan er sú að engu (eða fáu) er að treysta, fólk birtist og hverfur líkt og í draumi og það er fátítt að sjá leikmynd sem fangar svo gersamlega anda leiktextans. Þessu er vandlega fylgt eftir í búningum, lýsingu og myndbandsvinnu og úr verður fjölbreytileg og litrík sjónræn heild sem ein og sér nægir til að halda athygli áhorfanda frá upphafi til enda. Stílhrein og smekkleg. Má og bæta því við að lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar fylgir anda leikmyndar gersamlega og bætir í þar sem þarf til að styðja atriðaskipti, inn og útkomur leikara og breyta stemningu; þar kemur einnig til vel unnið myndband Elmars Þórarinssonar sem hnykkir á umhverfi og auðveldar áhorfanda að átta sig á hvar sagan er stödd í hinn óræðu umgjörð. Leikmyndin er á nær stöðugu iði frá upphafi sýningar til enda og það skapar ákveðinn ryþma sem einnig fylgir hugmynd sýningarinnar eftir.

Auglýsing
Allt er þetta vönduð leikhúsvinna sem ber vitni faglegum vinnubrögðum og markvissri leikstjórn Ólafs Egils Ólafssonar, sem sannar enn og aftur hvers hann er megnugur þegar kemur að því að hlúa að frumsömdum íslenskum verkum og koma þeim vel til manns (ef svo má að orði komast). Það er nefnilega talsverð vinna í því fólgin að vera hinn fyrsti könnuður möguleika nýs sviðsverks, aðlaga það frásagnartækni og frásagnarstíl leikhússins án þess að hafa nokkrar fyrirmyndir að styðjast við, hvort sem er til að forðast eða fylgja.

Í þessari umgjörð er svo sögð saga Jónasar Ebenesar, manns á miðjum aldri sem hefur skilið við eiginkonu sína og er á fullkomnu reiki með það hver hann er og hvert hann stefnir – hann er að taka til í húsi sínu (og lífi) og stefnir að því er virðist í þá dapurlegu leið að stytta sér aldur; hefur enda fengið framan í sig hreytt að hann sé ekki faðir dóttur sinnar sem hann þó virðist elska; en það er kunnara en frá þurfi að segja að margur maðurinn hefur orðið fyrir verulegu lífshnjaski við að heyra að faðerni hans til margra ára sé í efa dregið.

Mynd: Þjóðleikhúsið.Hvað þetta varðar er Ör saga sem sækir efnivið og næringu í veruleikann og ekki nema gott eitt um það að segja. Í kringum Jónas Ebeneser er svo nokkur hópur fólks sem ýmist hrekur hann eða hvetur eins og sæmir í góðri dramatúrgíu – og það er rétt að segja, að hvað sem líður ýmsum ósamstæðum atriðum sem ýta undir hina óræðu draumkennd, þá er leikritið vel samið hvað varðar byggingu og flæði og er eitt af þeim mikilvægu, ósýnilegu atriðum sem halda áhorfandanum við efnið. Einnig þar fagleg vinnubrögð og til verka vandað.

Hins vegar vandast málið aðeins þegar kemur að persónum verksins. Jónas Ebeneser er á vondum stað í lífinu, það er augljóst og hann þarf að ráða bót á því. Honum dugar augljóslega ekki að syngja í kór og það er varla fyrr en dóttir hans spyr hann – og það er að mínu viti ein lykilsetning verksins – hvort hún eigi að fara skipta um föður, komin á fullorðinsaldur. Það atriði allt, í lok sögunnar, er fallegt og þar gangast persónur verksins við lífinu eins og það er. En Jónas Ebeneser hefði þurft að vera næringarmeiri af höfundar hálfu til að kveikja áhuga af eigin krafti – nú er það fólkið í kringum hann sem heldur uppi áhuganum á persónu hans og afdrifum.

Baldur Trausti Hreinsson hefur löngum verið vel skipaður leikari í aukahlutverk, “sidekick” hlutverk og staðið sig einatt með stakri prýði. Hann er, ef eitthvað má segja um leikstíl hans, mínímalískur leikari og beitir litlum en áhrifaríkum meðulum til að tjá hug persóna sinna og setja þeim stað í sögu. Hann greinir hlutverk sín vandlega og gerir ekkert fyrir tilviljun eða órökstutt. Þessir eiginleikar nýtast honum til fulls í hlutverki Jónasar Ebenesar og þar sem skortir á vinnu höfundar í persónusköpun bætir Baldur Trausti það fullkomlega upp með vandvirkni sinni í leik. Það er óhætt að tala um leiksigur, þótt hann sé unnin með smáum meðulum.

Mynd: Þjóðleikhúsið.Í kringum Jónas Ebeneser eru aðallega tvær persónur sem reka hann áfram, með góðu og illu. Fyrsta skal telja móður hans, leikna af öryggi og hreint ekki lítilli kómík af Guðrúnu Snæfríði Gísladóttur. Það er eins og galdur hvernig ólíklegustu karakterar lifna við og verða trúverðugir í meðförum Guðrúnar Snæfríðar; móðir Jónasar Ebenesar er haldin þráhyggju hvað varðar tölfræði styrjalda og þótt erfitt sé að sjá hvernig það þjónar sögu sonar hennar, verður móðirin engu að síður mikilvæg í sögunni með því að hennar vegna er heimilishjálpin til staðar: útlenda þjónustustúlkan Maí, leikin af Birgittu Birgisdóttur. Maí kemur frá stríðshrjáðu landi og hefur hér hlotið samastað og hlutverk hennar þjónar í raun aðeins einum tilgangi sem upplýsist í lokin og væri leitt að koma upp um hér; hins vegar er það veik lausn eins og hún birtist í sögunni og hefði höfundur mátt hugsa það betur.

Eitt atriði veldur undrun: Maí er útlendingur og framandi fugl í hinu íslenska umhverfi. Það er undirbyggt með því að á köflum tala þau Jónas Ebeneser og móðir hans ensku við hana. En hún talar aftur á móti lýtalausa íslensku og gæti þess vegna verið úr Húnavatnssýslunni eða Hafnarfirði. Er hér kannski um að ræða fíl í stofunni, óttann við að vera talinn gera grín að útlendingum með því að láta íslenska leikkonu tala með hreim? Það stangast þá algerlega á við hinn raunsæilega bakgrunn verksins og ástæða fyrir aðstandendur sýningarinnar að skoða þetta betur.

Dóttirin, Vatnalilja, kemur þekkilega fyrir í leik Hildar Völu Baldursdóttur. Hildur Vala er nýútskrifuð leikkona frá Listaháskóla Íslands, hún hefur góða nærveru á sviði, heldur vel um hlutverk sitt og gæðir Vatnalilju þeim þokka sem þarf til að mynda mótvægi við depurð föður hennar. Vatnalilja er boðberi þeirrar hugsunar að skylt sé að gangast við lífinu og Hildur Vala skilar því trúverðuglega.

Ekki verður hjá því komist að nefna að Hildur Vala glímir við sama vanda og margir ungir leikarar, sem er raddbeitingin; um leið og hún snýr sér frá áhorfendum heyrist illa eða ekki hvað hún segir. Þetta myndi hugsanlega sleppa í öðru samhengi, en hér er hún á sviði með þrautreyndum harðjöxlum íslensks leikhúss hvað þetta varðar; það er ekki heiglum hent að standa Pálma Gestssyni, Guðrúnu Snæfríði Gísladóttur og Baldri Trausta Hreinssyni á sporði hvað varðar raddbeitingu og raddtúlkun og í raun ógreiði gerður ungri leikkonu að standast slíka raun, nema til komi aðstoð leikhússins til að bæta úr því sem augljóslega virðist vera vanræksla þeirrar stofnunar sem hefur hlotið traust og fjármagn til að mennta leikara þjóðar vorrar og rís greinilega ekki undir þeirri ábyrgð.

Auglýsing
Enn hefur ekki verið nefndur Svanur, nágranninn, kórfélaginn og veiðimaðurinn, sem er “sidekick” Jónasar Ebenesar og gerir sitt til að örva hinn dapra vin sinn til dáða með ýmsum ráðum – ekki síst með því að miðla honum fróðleik um konur ef það mætti verða til að kæta hann. Hlutverkið er verulega kómískt og veitir léttleika í söguna sem er þakkarverður á köflum; það hefur Pálmi Gestsson fullkomlega á valdi sínu enda ókrýndur meistari hinnar vel fram bornu replikku svo ekki sé minnst á vald hans á því sem kallast „timing”, sem er sú list að doka við nákvæmlega eins lengi og þarf til að vekja kæti áhorfandans yfir því sem á sér stað í samskiptum persónanna á sviðinu. Pálmi bregður sér í fleiri hlutverk í sýningunni og alls staðar sýnir hann hvert vald hann hefur á þessum vandmeðfarna hluta af list leikarans.

Hins vegar læðist að þeim sem hér ritar sá grunur hvort ekki væri hreinlega meira spennandi að gefa þeim félögum, Svani og Jónasi Ebeneser, þeirra eigin tvíleik þar sem mætti flétta harmi og sorg beggja saman við kómíkina. Það hefði áreiðanlega betur byggt undir hinn óvænta endi, sem þó hefði mátt vera undirrituðum fyrirsjáanlegur þótt ekki væri nema velþekktra orða Tsjekovs um að ekki láta byssu hanga á vegg nema hún sé notuð áður en tjaldið fellur. Hér er orðum Tsjekovs fylgt út í æsar og samt kemur lausnin fullkomlega á óvart og hefði eins og nefnt var, mátt vera betur undirbyggð. Kómíkin ber þarna söguna ofurliði og hefði kannski verið auðvelt að komast hjá því.

Sem fyrr sagði er Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) metnaðarfullt verk og fagmennska og vandvirkni einkennir sýninguna. Hún vekur einnig spurningar um tilgang lífsins og vegferð mannsins í þessu jarðlífi í því mikrókosmosi sem honum er úthlutað á bilinu milli vöggu og grafar. Ásjárverð – ekki spurning og full ástæða til að óska henni langra lífdaga á íslensku sviði.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFólk