Ást og fótbolti
Auður Jónsdóttir rithöfundur gerðist íþróttafréttaritari og fór á landsleik með átta ára syni sínum og fótboltavinkonu. Henni fannst takturinn í HÚH-inu sem kyrjað var í stúkunni minna sig á stigvaxandi samfarir.
Undirrituð á son sem æfir fótbolta og talar um fótbolta öllum stundum. Svo henni er mikið í mun að standa sína plikt sem fótboltamóðir. Því bað undirrituð um að fá að fara sem íþróttafréttaritari Kjarnans á leik Íslands og Andorra ásamt átta ára syni sínum, Leifi Ottó Þórarinssyni, og Margréti Marteinsdóttur, kærri vinkonu sem er alin upp í fótbolta, dóttir fótboltamannsins Marteins Geirssonar sem var eitt sinn fyrirliði íslenska landsliðsins og lék á sínum tíma fótbolta erlendis. Undirritaða langaði að fá þau til að greina leikinn með sér, barnið sem lifir fyrir fótbolta og konu sem hefur lifað lífi sem snerist um fótbolta, bæði sem dóttir atvinnumanns í boltanum og líka sem fyrrum fótboltakempa. Við héldum á völlinn í roki, slyddu og myrkri en heit að innan af eftirvæntingu þegar við settumst inn á flóðlýst svæðið.
Um leið og við vorum sest sagði Leifur Ottó: Þið verðið að geta hver staðan verður og það er bannað að breyta.
Ég held hún verði 2/0 fyrir Ísland, sagði undirrituð.
Ég held hún verði 3/0 fyrir Ísland, sagði Leifur. Af því að Ísland er miklu betra og vörnin hjá Andorra hefur ekki verið neitt sérstök svo ég held við getum alveg skorað mark fljótt.
Íslendingar hafa alltaf unnið Andorra ... sagði Margrét þá og greip andann á loft því í sömu andrá var Ísland nærri búið að gera sjálfsmark. En síðan hélt hún áfram: Svo þeir kannski ... Nöjh, hvað þetta er flott! ... vanmeta þá því fótbolti er svo mikil sálfræði.
Vá, hann tók hjólhestaspyrnu! gall þá í Leifi.
Allar íþróttir snúast að miklu leyti um andlegan styrk, sagði Margrét, líka hópíþróttir. Liðsheildin er svo mikilvæg, hvernig stemningin í hópnum er. Þegar ég hugsa um liðsheild og sálfræði hugsa ég alltaf um Ólaf Stefánsson, þegar hann var í landsliðinu í handbolta, þá sérstaklega þegar þeir fengu silfrið á Ólympíuleikunum. Það sem ég sá þá voru faðmlög, gleði, knús og grátur, liðið virtist alveg laust við hvers konar hugmyndir um eitraða karlmennsku. Ég held í alvöru að Ólafur Stefánsson hafi breytt hugarfarinu í því og það hafi smitað út frá sér.
Við þessi orð rámaði undirritaða í frásögn téðs Ólafs um mikilvægi hugarástands í leik á taílenskum veitingastað á Akureyri þar sem við sátum þrír rithöfundar með honum að borða eftir ráðstefnu. Sagan klingdi svo við þessi orð Margrétar að við reyndum að hringja í Ólaf en heyrðum aðeins í spænskum símsvara þannig að sú saga fær að bíða betri tíma.
Rómantísk flóðljós
Margrét og Leifur veltu sögunni fyrir sér en um leið brast á Víkingaklapp svo allir fylltust andagift.
HÚH, drundi í drengnum, HÚH, HÚH, HÚH, kallaði hann en móðir hans hugsaði með sér að takturinn minnti á stigvaxandi samfarir.
Flóðljósin eru svo rómantísk, sagði þá Margrét dreymin. Sjáið fegurð fótboltans!
Leifur leit spyrjandi á hana sem hélt áfram angurværri röddu: Ég var aldrei einmana því ég átti alltaf bolta.
Leifur kinkaði skilningsríkur kolli á meðan móðir hans þerraði snjóflygsur af tölvuskjánum.
Flóðljós og snjór! Ég dey úr nostalgíu, hrópaði Margrét í sömu andrá og pabbi hennar gaf okkur merki um að hann væri þarna, nokkrum bekkjum ofar, með teppi handa drengnum. Margrét dúðaði Leif í teppi sem hætti þó ekki að klappa hljóðum klöppum í markmannshönskunum sínum.
Þeir eru með sterka vörn núna, Andorra, sagði Margrét.
Allavega núna, botnaði Leifur dræmur og bætti síðan við að leikurinn væri erfiðari en hann hefði búist við. Bara góð vörn hjá Andorra!
Hvað finnst þér um leikinn? spurði ég þá Margréti.
Ég er svo upptekin af því hvað auglýsingaskiltin hafa breyst mikið, þetta er orðið svo samræmt; stílhreint og alþjóðlegt, svaraði hún kát. Í minningunni voru þetta bara Vilko-súpur og Mikligarður. En vörnin er mjög góð hjá Andorra, þeir eru eins og veggur. Samt, Ísland sækir og sækir og það liggur mark í loftinu ...
Hún þagnaði þegar áhorfendur úuðu skyndilega.
Hvað gerðist? spurði undirrituð.
Við misstum af því, þið talið svo mikið, sagði Leifur.
Ég fæ alltaf aðeins í magann þegar verið er að úa, viðurkenndi Margrét þá. Ég held ég hafi aldrei úað á leik. Einhver meðvirkni bara!
Nú úaði Leifur af öllu hjarta yfir einhverju sem honum sýndist vera brot.
Boltinn var á milli þeirra, sýndist mér, sagði Margrét við hann. Þetta var ekki víti.
En ég segi það! sagði Leifur og úaði aftur.
Ísland er áberandi betra lið en samt nær Andorra að halda hreinu, sagði Margrét þegar hann hætti að úa. Einu sinni var ég í liði sem var áberandi lélegra en bandarískt félagslið sem við kepptum á móti á móti í Danmörku en þar var útkoman líka rökrétt, við töpuðum 12/0.
Leifur leit hugsi á hana og sagði síðan: Ef Andorra myndi halda öllu hreinu þangað til á nítugustu mínútu og skora þá væri það hræðilegt. Samt veit ég alveg að það er ekki að fara að gerast.
Nei, samsinnti Margrét. Íslendingarnir eru betri en það virðist vera meira adrenalínflæði í leikmönnum Andorra. Sem kemur af því þeir vita að þeir eru að mæta ofjörlum sínum.
Já, íslenska liðið er sterkara, sagði Leifur.
Samt Leifur, sagði Margrét íhugul, kíkjum á styrkleikalista FIFA. Ég held að það sé ekki mikill munur á styrkleika Íslendinga og Andorra. Svo held ég að það sé ekki einn maður frá Andorra í FIFA-leiknum.
Jú, þeir eru allir! sagði Leifur.
Nú, þá veit ég ekkert, sagði Margrét.
Við nánari athugun kom í ljós að Ísland er í þrítugasta og fimmta sæti á styrkleikalista FIFA, hundrað og fjórum sætum ofar en Andorra.
Sko! sagði Leifur en kipptist um leið við og urraði: Þessi varnarleikur Andorra er bara ahrrr ...
Í sömu mund heyrðust áhorfendur úa og hrópa en Leifur hrópaði: Dómari, þetta má ekki!
Hvað má ekki? spurði móðir hans en hvorugt heyrði í henni og Margrét sagði einbeitt: Íslenska liðið heldur ekki takti, ég sver það, hver og einn góður en það vantar taktinn ...
Hún þagnaði þegar boltinn flaug í mark Andorra-manna svo áhorfendur þeyttust fagnandi á fætur.
Arnór Sigurðsson skoraði!
Og um leið rigndi flísteppum. Gamli landsliðsfyrirliðinn, pabbi Margrétar, þyrlaði þeim til okkar, smeykur um að okkur væri orðið kalt.
Ást og fótbolti
Að loknum fyrsta hálfleik ómaði lag með kunnuglegum texta: Ég hef engu gleymt þó að ég tali ekki um það og láti sem ekkert sé ...
Ó! andvarpaði Margrét. Þetta var einmitt það sem mig langaði að segja. Það er svona sem mér líður, ég hef engu gleymt þó að ég tali ekki um það.
Hverju hefurðu ekki gleymt? spurði Leifur.
Nú, ástinni og fótboltanum, svaraði Margrét fjarræn um leið og við þokuðum okkur niður til að kaupa pizzusneið og heitt kaffi.
Í röðinni spurði Leifur Margréti: Hefur þú keppt MJÖG vondan leik á móti útlensku liði.
Já, sagði Margrét, versti leikurinn minn var þessi leikur á móti bandaríska félagsliðinu – 12/0!
Þegar seinni hálfleikur byrjaði minnti Margrét á gamla indíánaömmu í flísteppinu frá pabba sínum á meðan hún hummaði: Já, koma svo! ... já, já, já, já ... psss, þetta er ekki búið, þetta er ekki búið ... Já!!!
Aftur mynduðust hugrenningatengsl við stigvaxandi samfarir hjá undirritaðri en greining sonar hennar eyddi þeim þegar hann sagði: Gylfi skaut á markmann Andorra, beint á hann, en hann greip ekki boltann!
Æ! Kannski var markvörðurinn óöruggur, sagði Margrét. Kannski var hann að hugsa að Ísland væri hundrað og fjórum sætum ofar á FIFA-listanum. Þá verður maður óöruggur ... Koma svo! ... Ert þú í markinu, Leifur?
Já, stundum, sagði Leifur sem hélt þykkum markmannshönskum um pizzu-sneiðina sína.
Fínir markmannshanskar, sagði Margrét, eru þetta Select?
Já. Takk, sagði Leifur og fylgdist með henni beygja sig niður eftir lúinni pappírsharmonikku sem einhver hafði misst.
Leifur, er þetta til að gera hljóð? spurði hún.
Já, sagði Leifur. Hefurðu ekki séð svona?
Nei, vá! sagði Margrét, spennt eins og barn. Það var ekki til neitt svona props í gamla daga. Þetta er alveg geggjað! Vilt þú gera hljóð með harmonikkunni?
Oj nei, sagði Leifur, þetta er skítugt.
Samt greip hann harmonikkuna, slengdi henni í kálfa móður sinnar og hrópaði: Áfram Ísland!
Æ, æ, æ, stundi þá Margrét. Þarna hefur einn frá Andorra meitt sig og þarf að fara út af. Hugsið ykkur, það er verið að klappa og hann liggur þarna!
Síðan sagði hún mæðginunum að hún hefði í fyrsta skipti farið sex mánaða gömul á völlinn og síðan bara verið alltaf á vellinum – þangað til fyrir svona tíu árum. En henni hafi alltaf fundist erfitt að sjá einhvern meiðast.
Það er örugglega tengt því að hafa setið sem lítil stelpa í stúkunni, sagði hún, þegar kom fyrir að pabbi minn meiddist. Eitt skipti er mér sérstaklega minnisstætt, leikur á móti ÍA en pabbi var í Fram. Þá upplifði ég að maðurinn sem sparkaði pabba niður hefði gert það viljandi. Maðurinn hafði sparkaði í magann á honum svo pabbi féll niður og missti andann. Síðan fór hann út af. Og síðan hélt leikurinn áfram, eins og ekkert hefði í skorist. Í augum barns var það einkennileg hegðun svo ég var hugsi yfir þessu. Maðurinn var mjög loðinn, í minningunni þakinn svörtum hárum, og í huga barnsins varð hann að urrandi skógarbirni. Ég var alltaf hrædd um að pabbi minn myndi meiða sig. Mér fannst líka erfitt þegar fólk öskraði ljóta hluti um hann í æsingnum. Ég hlakkaði alltaf til að fara á völlinn en stundum fannst mér hann breytast í vígvöll.
Ég skil það, sagði Leifur hrelldur en gleymdi sér um leið og tilkynnt var að nú kæmi Jón Daði Böðvarsson inn á í stað Alfreðs Finnbogasonar.
Áfram Ísland! var hrópað og um leið skoraði Kolbeinn Sigþórsson mark og jafnaði þar með frægt markamet Eiðs Smára Guðjohnsen en við smá fréttaflett fundum við út að árið 2013 hafði Eiður Smári sagt í viðtali að hann vonaði að Kolbeinn, eða einhver annar, myndi bæta markametið sitt.
Nú meiddi einhver sig.
Hver er þetta? spurði Margrét.
Einhver númer sex, sagði undirrituð.
Þetta er Ragnar Sigurðsson, tilkynnti Leifur. Uppáhalds leikmaðurinn minn.
Áhorfendur klöppuð um leið og Sverrir Ingólfsson fór inn á völlinn.
Minnið mig á að fá mér grifflur fyrir næsta leik, sagði undirrituð króklopin við lyklaborðið.
En hin voru aftur sokkin í leikinn og Margrét sagði: Ég spái að Ísland skori tvö mörk núna og leikurinn fari þrjú núll.
Alveg eins og ég spáði, sagði Leifur. Ég ætlaði að spá 4/0 en breytti því síðan í 3/0.
Ó, stundi Margrét. Andorramaðurinn náði boltanum svo fallega ... vó!
Þau sukku ofan í fagurfræði fótboltans þangað til Leifur sagði: Þarna kemur Emil Hallfreðsson inn fyrir Birki Bjarnason. Uppáhalds leikmaðurinn hans pabba!
Finnst þér þessi leikur svolítið grófur, Leifur? spurði Margrét þá. Eru þeir soldið að meiða sig?
Smá, sagði Leifur. Samt er ekki komið neitt gult spjald.
Það er smá tryllingur í Andorra. Þeir ýta í þá, sagði Margrét en þagnaði þegar dæmt var víti – sem markvörður Andorra varði. Þarna munaði mjóu að undirrituð hefði tapað í persónulega veðbankanum. Á endanum fór samt svo að hún vann.
Skáldið spáði rétt, sagði Margrét. Leiknum lauk 2/0 fyrir Ísland.
Á leiðinni út fundum við pabba Margrétar og bróður hans, Þorvald Geirsson. Við smelltum af þeim mynd og síðan kvöddu þeir hlýlega. Bless strákur! sagði Marteinn og klappaði Leifi á kollinn.
Leifur horfði með aðdáun á eftir honum og Margrét sagði: Þetta eru okkar bestu menn. Báðir störfuðu við sjúkraflutninga og voru slökkviliðsmenn. Miklir fjölskyldumenn og öðlingar.
Þetta eru alvöru töffarar, segir undirrituð.
Þetta eru góð orð til að ljúka lýsingunni á þessum leik.
Lestu meira:
-
18. desember 2022Leikjafræði fótboltans útskýrð fyrir Hansi Flick
-
19. nóvember 2022„Sportþvotturinn“ í Katar sannarlega ekki sá fyrsti og eflaust ekki sá síðasti
-
19. september 2022Í maí var stefnt að því þjóðarhöll yrði risin 2025 – Í september er búið að fresta henni
-
5. september 2022Félagaskiptaglugginn í enska boltanum í íslensku samhengi
-
10. ágúst 2022Fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar formaður framkvæmdanefndar um þjóðarhöll
-
3. ágúst 2022Ljónynjurnar hvetja næsta forsætisráðherra til að tryggja stúlkum aðgengi að knattspyrnu
-
3. ágúst 2022Hætta að krjúpa niður á hné fyrir alla leiki
-
31. júlí 2022Skila ljónynjurnar boltanum heim?
-
31. júlí 2022Danski brekkumeistarinn sem kom sá og sigraði Tour de France
-
24. júlí 2022Quidditch spilarar breyta nafni íþróttarinnar til að fjarlægja sig J.K. Rowling