Mynd: Auður Jónsdóttir

Ást og fótbolti

Auður Jónsdóttir rithöfundur gerðist íþróttafréttaritari og fór á landsleik með átta ára syni sínum og fótboltavinkonu. Henni fannst takturinn í HÚH-inu sem kyrjað var í stúkunni minna sig á stigvaxandi samfarir.

Und­ir­rituð á son sem æfir fót­bolta og talar um fót­bolta öllum stund­um. Svo henni er mikið í mun að standa sína plikt sem fót­bolta­móð­ir. Því bað und­ir­rituð um að fá að fara sem íþrótta­f­rétta­rit­ari Kjarn­ans á leik Íslands og And­orra ásamt átta ára syni sín­um, Leifi Ottó Þór­ar­ins­syni, og Mar­gréti Mart­eins­dótt­ur, kærri vin­konu sem er alin upp í fót­bolta, dóttir fót­bolta­manns­ins Mart­eins Geirs­sonar sem var eitt sinn fyr­ir­liði íslenska lands­liðs­ins og lék á sínum tíma fót­bolta erlend­is. Und­ir­rit­aða lang­aði að fá þau til að greina leik­inn með sér, barnið sem lifir fyrir fót­bolta og konu sem hefur lifað lífi sem sner­ist um fót­bolta, bæði sem dótt­ir at­vinnu­manns í bolt­anum og líka sem fyrrum fót­bolta­kempa. Við héldum á völl­inn í roki, slyddu og myrkri en heit að innan af eft­ir­vænt­ingu þegar við sett­umst inn á flóð­lýst svæð­ið. 

Um leið og við vorum sest sagði Leifur Ottó: Þið verðið að geta hver staðan verður og það er bannað að breyta. 

Ég held hún verði 2/0 fyrir Ísland, sagði und­ir­rit­uð. 

Ég held hún verði 3/0 fyrir Ísland, sagði Leif­ur. Af því að Ísland er miklu betra og vörnin hjá And­orra hefur ekki verið neitt sér­stök svo ég held við getum alveg skorað mark fljótt. 

Íslend­ingar hafa alltaf unnið And­orra ... sagði Mar­grét þá og greip and­ann á loft því í sömu andrá var Ísland nærri búið að gera sjálfs­mark. En síðan hélt hún áfram: Svo þeir kannski ... Nöjh, hvað þetta er flott! ... van­meta þá því fót­bolti er svo mikil sál­fræð­i. 

Vá, hann tók hjól­hesta­spyrnu! gall þá í Leifi. 

Allar íþróttir snú­ast að miklu leyti um and­legan styrk, sagði Mar­grét, líka hóp­í­þrótt­ir. Liðs­heildin er svo mik­il­væg, hvernig stemn­ingin í hópnum er. Þegar ég hugsa um liðs­heild og sál­fræði hugsa ég alltaf um Ólaf Stef­áns­son, þegar hann var í lands­lið­inu í hand­bolta, þá sér­stak­lega þegar þeir fengu silfrið á Ólymp­íu­leik­un­um. Það sem ég sá þá voru faðm­lög, gleði, knús og grát­ur, liðið virt­ist alveg laust við hvers konar hug­myndir um eitr­aða karl­mennsku. Ég held í alvöru að Ólafur Stef­áns­son hafi breytt hug­ar­far­inu í því og það hafi smitað út frá sér.  

Við þessi orð rám­aði und­ir­rit­aða í frá­sögn téðs Ólafs um mik­il­vægi hug­ar­á­stands í leik á taí­lenskum veit­inga­stað á Akur­eyri þar sem við sátum þrír rit­höf­undar með honum að borða eftir ráð­stefnu. Sagan klingdi svo við þessi orð Mar­grétar að við reyndum að hringja í Ólaf en heyrðum aðeins í spænskum sím­svara þannig að sú saga fær að bíða betri tíma. 

Róm­an­tísk ­flóð­ljós

Mar­grét og Leifur veltu sög­unni fyrir sér en um leið brast á Vík­inga­klapp svo allir fyllt­ust anda­gift. 

HÚH, drundi í drengn­um, HÚH, HÚH, HÚH, kall­aði hann en móðir hans hugs­aði með sér að takt­ur­inn minnti á stig­vax­andi sam­far­ir. 

Flóð­ljósin eru svo róm­an­tísk, sagði þá Mar­grét dreym­in. Sjáið feg­urð fót­bolt­ans! 

Leifur leit spyrj­andi á hana sem hélt áfram ang­ur­værri röddu: Ég var aldrei ein­mana því ég átti alltaf bolta. 

Leifur kink­aði skiln­ings­ríkur kolli á meðan móðir hans þerraði snjó­flygsur af tölvu­skján­um. 

Flóð­ljós og snjór! Ég dey úr nostal­g­íu, hróp­aði Mar­grét í sömu andrá og pabbi hennar gaf okkur merki um að hann væri þarna, nokkrum bekkjum ofar, með teppi handa drengn­um. Mar­grét dúð­aði Leif í teppi sem hætti þó ekki að klappa hljóðum klöppum í mark­manns­hönsk­unum sín­um. 

Þeir eru með sterka vörn núna, And­orra, sagði Mar­grét. 

Alla­vega núna, botn­aði Leifur dræmur og bætti síðan við að leik­ur­inn væri erf­ið­ari en hann hefði búist við. Bara góð vörn hjá And­orra! 

Hvað finnst þér um leik­inn? spurði ég þá Mar­grét­i. 

Ég er svo upp­tekin af því hvað aug­lýs­inga­skiltin hafa breyst mik­ið, þetta er orðið svo sam­ræmt; stíl­hreint og alþjóð­legt, svar­aði hún kát. Í minn­ing­unni voru þetta bara Vil­ko-­súpur og Mikli­garð­ur. En vörnin er mjög góð hjá And­orra, þeir eru eins og vegg­ur. Samt, Ísland sækir og sækir og það liggur mark í loft­inu ... 

Hún þagn­aði þegar áhorf­endur úuðu skyndi­lega. 

Hvað gerð­ist? spurði und­ir­rit­uð. 

Við misstum af því, þið talið svo mik­ið, sagði Leif­ur. 

Ég fæ alltaf aðeins í mag­ann þegar verið er að úa, við­ur­kenndi Mar­grét þá. Ég held ég hafi aldrei úað á leik. Ein­hver með­virkni bara!

Nú úaði Leifur af öllu hjarta yfir ein­hverju sem honum sýnd­ist vera brot.

Bolt­inn var á milli þeirra, sýnd­ist mér, sagði Mar­grét við hann. Þetta var ekki vít­i. 

En ég segi það! sagði Leifur og úaði aft­ur. 

Ísland er áber­andi betra lið en samt nær And­orra að halda hreinu, sagði Mar­grét þegar hann hætti að úa. Einu sinni var ég í liði sem var áber­andi lélegra en banda­rískt félags­lið sem við kepptum á móti á móti í Dan­mörku en þar var útkoman líka rök­rétt, við töp­uðum 12/0. 

Leifur leit hugsi á hana og sagði síð­an: Ef And­orra myndi halda öllu hreinu þangað til á nítug­ustu mín­útu og skora þá væri það hræði­legt. Samt veit ég alveg að það er ekki að fara að ger­ast. 

Nei, sam­sinnti Mar­grét. Íslend­ing­arnir eru betri en það virð­ist vera meira a­drena­lín­flæð­i í leik­mönnum And­orra. Sem kemur af því þeir vita að þeir eru að mæta ofjörlum sín­um. 

Já, íslenska liðið er sterkara, sagði Leif­ur. 

Samt Leif­ur, sagði Mar­grét íhug­ul, kíkjum á styrk­leika­lista FIFA. Ég held að það sé ekki mik­ill munur á styrk­leika Íslend­inga og And­orra. Svo held ég að það sé ekki einn maður frá And­orra í FIFA-­leikn­um. 

Jú, þeir eru all­ir! sagði Leif­ur. 

Nú, þá veit ég ekk­ert, sagði Mar­grét. 

Við nán­ari athugun kom í ljós að Ísland er í þrí­tug­asta og fimmta sæti á styrk­leika­lista FIFA, hund­rað og fjórum sætum ofar en And­orra. 

Sko! sagði Leifur en kippt­ist um leið við og urraði: Þessi varn­ar­leikur And­orra er bara a­hrrr ...

Í sömu mund heyrð­ust áhorf­endur úa og hrópa en Leifur hróp­aði: Dóm­ari, þetta má ekki! 

Hvað má ekki? spurði móðir hans en hvor­ugt heyrði í henni og Mar­grét sagði ein­beitt: Íslenska liðið heldur ekki takti, ég sver það, hver og einn góður en það vantar takt­inn ... 

Hún þagn­aði þegar bolt­inn flaug í mark And­orra-­manna svo áhorf­endur þeytt­ust fagn­andi á fæt­ur. 

Arnór Sig­urðs­son skor­aði!

Ísland skoraði.
Mynd: Margrét Marteinsdóttir

Og um leið rigndi flístepp­um. Gamli lands­liðs­fyr­ir­lið­inn, pabbi Mar­grét­ar, þyrl­aði þeim til okk­ar, smeykur um að okkur væri orðið kalt. 

Ást og fót­bolti

Að loknum fyrsta hálf­leik ómaði lag með kunn­ug­legum texta: Ég hef engu gleymt þó að ég tali ekki um það og láti sem ekk­ert sé ... 

Ó! and­varp­aði Mar­grét. Þetta var einmitt það sem mig lang­aði að segja. Það er svona sem mér líð­ur, ég hef engu gleymt þó að ég tali ekki um það. 

Hverju hef­urðu ekki gleymt? spurði Leif­ur. 

Nú, ást­inni og fót­bolt­an­um, svar­aði Mar­grét fjar­ræn um leið og við þok­uðum okkur niður til að kaupa pizzu­sneið og heitt kaffi. 

Í röð­inni spurði Leifur Mar­gréti: Hefur þú keppt MJÖG vondan leik á móti útlensku lið­i. 

Já, sagði Mar­grét, versti leik­ur­inn minn var þessi leikur á móti banda­ríska félags­lið­inu – 12/0! 

Íþróttafréttaritari Kjarnans að störfum í hálfleik. Aðstoðarmaður hennar leggur sitt að mörkum.
Mynd: Margrét Marteinsdóttir

Þegar seinni hálf­leikur byrj­aði minnti Mar­grét á gamla indíána­ömmu í flístepp­inu frá pabba sínum á meðan hún humm­aði: Já, koma svo! ... já, já, já, já ... psss, þetta er ekki búið, þetta er ekki búið ... Já!!!

Aft­ur ­mynd­uð­ust hug­renn­inga­tengsl við stig­vax­andi sam­farir hjá und­ir­rit­aðri en grein­ing sonar hennar eyddi þeim þegar hann sagði: Gylfi skaut á mark­mann And­orra, beint á hann, en hann greip ekki bolt­ann! 

Æ! Kannski var mark­vörð­ur­inn óör­ugg­ur, sagði Mar­grét. Kannski var hann að hugsa að Ísland væri hund­rað og fjórum sætum ofar á FIFA-list­an­um. Þá verður maður óör­uggur ... Koma svo! ... Ert þú í mark­inu, Leif­ur?Bók sem Auður fann fyrir endur löngu í fornbókabúð.

Já, stund­um, sagði Leifur sem hélt þykkum mark­manns­hönskum um pizzu-­sneið­ina sína. 

Fínir mark­manns­hanskar, sagði Mar­grét, eru þetta ­Sel­ect­?  

Já. Takk, sagði Leifur og fylgd­ist með henni beygja sig niður eftir lúinn­i ­papp­írs­harm­on­ikku ­sem ein­hver hafði misst. 

Leif­ur, er þetta til að gera hljóð? spurði hún. 

Já, sagði Leif­ur. Hef­urðu ekki séð svona?

Nei, vá! sagði Mar­grét, spennt eins og barn. Það var ekki til neitt svona props í gamla daga. Þetta er alveg geggj­að! Vilt þú gera hljóð með harm­on­ikkunni?

Oj nei, sagði Leif­ur, þetta er skítug­t. 

Samt greip hann harm­on­ikk­una, slengdi henni í kálfa móður sinnar og hróp­aði: Áfram Ísland! 

Æ, æ, æ, stundi þá Mar­grét. Þarna hefur einn frá And­orra meitt sig og þarf að fara út af. Hugsið ykk­ur, það er verið að klappa og hann liggur þarna! 

Síðan sagði hún­ ­mæðgin­un­um að hún hefði í fyrsta skipti farið sex mán­aða gömul á völl­inn og síðan bara verið alltaf á vell­inum – þangað til fyrir svona tíu árum. En henni hafi alltaf fund­ist erfitt að sjá ein­hvern meið­ast. 

Það er örugg­lega tengt því að hafa setið sem lítil stelpa í stúkunni, sagði hún, þegar kom fyrir að pabbi minn meidd­ist. Eitt skipti er mér sér­stak­lega minn­is­stætt, leikur á mót­i Í­A en pabbi var í Fram. Þá upp­lifði ég að mað­ur­inn sem spark­aði pabba niður hefði gert það vilj­andi. Mað­ur­inn hafði spark­aði í mag­ann á honum svo pabbi féll niður og missti and­ann. Síðan fór hann út af. Og síðan hélt leik­ur­inn áfram, eins og ekk­ert hefði í skorist. Í augum barns var það ein­kenni­leg hegðun svo ég var hugsi yfir þessu. Mað­ur­inn var mjög loð­inn, í minn­ing­unni þak­inn svörtum hárum, og í huga barns­ins varð hann að urr­andi skóg­ar­birni. Ég var alltaf hrædd um að pabbi minn myndi meiða sig. Mér fannst líka erfitt þegar fólk öskr­aði ljóta hluti um hann í æsingn­um. Ég hlakk­aði alltaf til að fara á völl­inn en stundum fannst mér hann breyt­ast í víg­völl.

Ég skil það, sagði Leifur hrelldur en gleymdi sér um leið og til­kynnt var að nú kæmi Jón Daði Böðv­ars­son inn á í stað Alfreðs Finn­boga­son­ar. 

Áfram Ísland! var hrópað og um leið skor­aði Kol­beinn Sig­þórs­son mark og jafn­aði þar með frægt marka­met Eiðs Smára Guðjohnsen en við smá fréttaflett fundum við út að árið 2013 hafði Eiður Smári sagt í við­tali að hann von­aði að Kol­beinn, eða ein­hver ann­ar, myndi bæta marka­metið sitt. 

Nú meiddi ein­hver sig. 

Hver er þetta? spurði Mar­grét. 

Ein­hver númer sex, sagði und­ir­rit­uð. 

Þetta er Ragnar Sig­urðs­son, til­kynnti Leif­ur. Upp­á­halds leik­mað­ur­inn minn. 

Áhorf­endur klöppuð um leið og Sverrir Ing­ólfs­son fór inn á völl­inn. 

Minnið mig á að fá mér grifflur fyrir næsta leik, sagði und­ir­rit­uð ­krók­lop­in við lykla­borð­ið. 

En hin voru aftur sokkin í leik­inn og Mar­grét sagði: Ég spái að Ísland skori tvö mörk núna og leik­ur­inn fari þrjú núll. 

Alveg eins og ég spáði, sagði Leif­ur. Ég ætl­aði að spá 4/0 en breytti því síðan í 3/0. 

Ó, stundi Mar­grét. And­orra­mað­ur­inn náði bolt­anum svo fal­lega ... vó! 

Þau sukku ofan í fag­ur­fræði fót­bolt­ans þangað til Leifur sagði: Þarna kemur Emil Hall­freðs­son inn fyrir Birki Bjarna­son. Upp­á­halds leik­mað­ur­inn hans pabba! 

Finnst þér þessi leikur svo­lítið gróf­ur, Leif­ur? spurði Mar­grét þá. Eru þeir sold­ið að meiða sig?

Smá, sagði Leif­ur. Samt er ekki komið neitt gult spjald. 

Auður og Leifur með bræðrunum Marteini og Þorvaldi Geirssonum.
Mynd: Margrét Marteinsdóttir

Það er smá tryll­ingur í And­orra. Þeir ýta í þá, sagði Mar­grét en þagn­aði þegar dæmt var víti – sem mark­vörður And­orra varði. Þarna mun­aði mjóu að und­ir­rituð hefði tapað í per­sónu­lega veð­bank­an­um. Á end­anum fór samt svo að hún vann. 

Skáldið spáði rétt, sagði Mar­grét. Leiknum lauk 2/0 fyrir Ísland. 

Á leið­inni út fundum við pabba Mar­grétar og bróður hans, Þor­vald Geirs­son. Við smelltum af þeim mynd og síðan kvöddu þeir hlý­lega. Bless strák­ur! sagði Mart­einn og klapp­aði Leifi á koll­inn. 

Leifur horfði með aðdáun á eftir honum og Mar­grét sagði: Þetta eru okkar bestu menn. Báðir störf­uðu við sjúkra­flutn­inga og voru slökkvi­liðs­menn. Miklir fjöl­skyldu­menn og öðling­ar. 

Þetta eru alvöru töffar­ar, segir und­ir­rit­uð. 

Þetta eru góð orð til að ljúka lýs­ing­unni á þessum leik. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk