Ásta Júlía Hreinsdóttir er leik- og grunnskólakennari og stofnandi ÁJ hönnunar. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á myndlist og alltaf teiknað mikið og málað. Nú er ÁJ hönnun að gefa út Dagatalið mitt sem er fjölnota afmælisdagatal með texta og myndum eftir Ástu Júlíu. Safnað er fyrir útgáfukostnaði á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Fyrir tveimur árum var ég að byggja mig upp og styrkja mig og ákvað að skrifa niður eins margar uppbyggjandi setningar og ég gæti. Það urðu ansi margar setningar og ég fór að hugsa hvort ég gæti ekki gert eitthvað við þær. Ég fór að mála myndir við textana og gefa þær, sumar á ensku og aðrar á íslensku.
Allt í einu voru setningarnar orðnar nærri 200. Ég var enn að hugsa um það hvort ég ætti að gera eitthvað meira við myndirnar og einn daginn þegar ég var að reyna að skrifa nafn á nýfæddu barni inn á mánaðardaginn minn, kom hugmyndin að Dagatalinu mínu. Hún var fljót að þróast í það sem varð og nú er Dagatalið mitt að verða að veruleika.“
Hvað hefur hvatt þig áfram?
„Það hefur hvatt mig áfram að þetta var svo skemmtileg vinna og það voru svo margir áhugasamir. Ég viðurkenni alveg að stundum var þetta erfitt og sérstaklega að hugsa upp hvernig ég ætti að myndskreyta hvern texta fyrir sig. Það endaði þó með því að ég var komin með langt yfir 400 texta svo þetta var ekkert mál því ég gat valið úr.
Það var mér líka hvatning að þegar ég var langt komin við að mála myndirnar sagði góður maður við mig: „Ásta Júlía, þú verður að muna að þeir sem kaupa Dagatalið mitt munu kaupa 366 lítil listaverk.“
Hvað er sérstakt við þetta dagatal?
„Dagatalið mitt er ekki bundið dagatal með ákveðnu ári eða vikudögum heldur er það fjölnota. Hver síða er tileinkuð einum degi á árinu og þar eru örsögur úr hversdeginum eða uppbyggjandi orð og síðan er myndskreytt af mér í takt við textann. Þannig fær hver dagur ársins sinn sess með sínum orðum og sinni mynd þar sem orð og mynd fá jafnt vægi. Einnig er á hverjum degi reitur þar sem eigandinn getur gert sitt dagatal persónulegt með því að skrá inn nöfn og fæðingarár afmælisbarna dagsins.
Þetta er góð gjafavara allt árið um kring, ár eftir ár og hægt að opna það hvenær sem er, hvaða ár sem er. Dagatalið mitt er fyrir fólk á öllum aldri, á öllu landinu, sem hefur áhuga á að hafa uppbyggjandi orð með skemmtilegum myndum í kring um sig.
Það er vinsælt að hafa hluti með fallegum eða uppbyggjandi orðum í umhverfi sínu. Dagatalið mitt er einmitt þannig en einnig dagatal sem eigandinn getur gert persónulegt og nýtt það svo ár eftir ár.“