Misbrestasamur meistari

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Meistarann og Margarítu sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu.

_dsc9734.jpg
Auglýsing

Þjóðleikhúsið: Meistarinn og Margaríta

Höfundur skáldsögu: Mikhaíl Búlgakov

Leikgerð: Niklas Rådström

Leikstjórn og þýðing leikgerðar: Hilmar Jónsson

Leikmynd: Sigríður Sunna Reynisdóttir

Búningar: Eva Signý Berger

Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Tónlist: Valgeir Sigurðsson

Sviðshreyfingar: Chantelle Carey

Hljóðmynd: Valgeir Sigurðsson, Aron Örn Arnarsson og Kristinn Gauti Einarsson

Leikgervi: Tinna Ingimarsdóttir

Ráðgjöf við töfrabrögð: Dirk Losander

Leikendur: Stefán Hallur Stefánsson, Birgitta Birgisdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Oddur Júlíusson, María Thelma Smáradóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Björn Ingi Hilmarsson, Pálmi Gestsson, Hákon Jóhannesson, Þórey Birgisdóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Hildur Vala Baldursdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Edda Björgvinsdóttir

Meistarinn og Margaríta eftir rússneska rithöfundinn Mikhaíl Búlgakov er eitt af mögnuðustu skáldverkum 20. aldar – marglaga verk, gríðarlega fyndið, hvöss og háðuleg ádeila á valdhafa og yfirvöld en um leið mögnuð og harmræn ástarsaga þar sem ekkert minna er undir en að selja sál sína djöflinum til að öðlast hamingju á ný.

Búlgakov mun hafa byrjað að skrifa Meistarann og Margarítu þegar árið 1928; sagan ber keim af myrkum samtíma höfundar og er á yfirborðinu ádeila á gerspillt samfélag kommúnismans; Búlgakov flettir á dramatískan hátt ofan af mútuþegum, svikahröppum, lýðskrumurum, loddurum, rógberum, forréttindahyski og hrokagikkjum (svo vitnað sé í bókarkynningu Forlagsins, sem hefur gefið út frábæra þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur ekki sjaldnar en þrisvar sinnum, 1981, 1993 og 2009). Búlgakov hélt áfram að skrifa Meistarann og Margarítu til dauðadags, 1940, en bókin kemur ekki út óritskoðuð fyrr en rúmum aldarfjórðungi síðar og reyndist þá – eins og fyrr – þyrnir í augum hins hnignandi sovéska skipulags. Sagan öðlaðist þegar í stað gríðarlegar vinsældir á vesturlöndum.

Auglýsing
Meistarinn og Margaríta hefst á því að svartagaldursmeistarinn Woland kemur til Moskvu ásamt skrautlegu föruneyti sínu, kórmeistaranum Korovév, skotglaða kettinum Behemot og hinni vampírlíku Hellu (þetta er fereykið sem við sjáum á sviði Þjóðleikhússins; í sögunni er föruneytið fjölmennara). Hann hittir Berlioz, hinn trúlausa formann Rithöfundasambandsins, þeir deila um hvort Jesús Kristur hafi verið til og Woland kveðst geta staðfest að Kristur hafi vissulega verið til, hann sjálfur hafi jú verið viðstaddur þegar Jesús var dæmdur til krossfestingar. Svona ótrúleg staðhæfing stangast vitanlega á við hina opinberu sýn Berliozar (og sovétkerfisins) á Frelsarann og sögu hans, en Woland lætur hér ekki staðar numið – hann spáir fyrir um óhugnanlegan dauða Berliozar – sem gengur eftir! – og ræðst svo ótrauður að hinu spillta kerfi sovétskipulagsins og helstu spillingarpésunum. Það er óhætt að segja að sá hluti sögunnar er hvorki bundinn við stað né stund – það má vel hugsa sér að hér sé verið að segja frá nýlegum atburðum á Íslandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið!

Því næst er Meistarinn kynntur til sögunnar; hann hefur skrifað skáldsögu um Pontíus Pílatus, en sagan sú hefur ekki hlotið náð fyrir augum valdhafa og menningarelítunnar í Moskvu. Meistarinn fyllist biturð og beiskju og brennir handritið og er lokaður inni á geðveikrahæli, sem veldur ástkonu hans, Margarítu, ómældri sorg.

Woland og föruneyti hans linnir hvergi látum við að valda usla meðal heldri borgara Moskvu, hann heldur sýningu í svartagaldri þar sem flett er ofan af hræsnurum og lýðskrumurum og slær svo upp dansleik; hann býður Margarítu að sameinast unnusta sínum, Meistaranum, sem fyrir tilstilli Wolands hefur verið lokaður inni á geðveikrahæli, og bjarga handritinu, gegn því að hún selji honum sál sína. Margaríta gengur að þeim kaupum, gerist norn sem fer fljúgandi um Moskvu og hefnir sín grimmilega á menntaelítu Moskvuborgar og þau sameinast í lokin, Meistarinn og Margaríta – en undir verndarvæng Wolands. Djöfullinn er kominn til að vera.

Búlgakov beitir í sögunni eins konar súrrealískum stílbrigðum með því að færa söguna á milli tímaskeiða – ýmist gerist sagan í Moskvu á fjórða áratugnum eða í Júdeu rétt eftir upphaf okkar tímatals, þar sem Pontíus Pílatus dæmir Jesúm til krossfestingar – sem er einmitt sú saga sem Meistarinn skrifaði og sem hafnað var af yfirvöldum. Saga Búlgakovs verður þannig líkt og draumleikur þar sem allt getur gerst og rás atburða lýtur eigin lögmálum sem eru allt önnur en hin rökréttu lögmál sem að venju stjórna epískum sögum. Og það má líka segja, að Meistarinn og Margaríta einkennist af magískum realisma löngu áður en það hugtak komst á ról í bókmenntafræðunum, því hvað sem líður draumkenndum blæ sögunnar – og uppfærslu Þjóðleikhússins – eru vísanir í veruleikann þess eðlis að þeim verður ekki skotið undan raunsæishugtakinu.

Og svo því sé haldið til haga: Búlgakov er líka að vísa í sína eigin æfi, því samband hans við menningaryfirvöld Sovétríkjanna var hreint enginn dans á rósum. Það vildi hins vegar honum til happs að á meðan margir starfsbræður hans, rithöfundar og listamenn, voru sendir í Gúlagið til endurhæfingar, naut hann einhverra hluta vegna náðar Stalíns, sem kvaðst hrifinn af skáldskap hans og hélt yfir honum verndarhendi.

Söguþráður Meistarans og Margarítu er reyndar mun flóknari en hér hefur verið frá greint og best að vísa til bókarinnar til að upplifa hina margslungnu atburðarás svo ekki sé minnst á merkilega táknfræði sögunnar. Það er svo deginum ljósara að ekki er heiglum hent að koma þessari kynngimögnuðu sögu á leiksvið og það er kannski sá vandi sem sýning Þjóðleikhússins glímir við.

Leikgerð hins sænska Niklas Rådström fylgir skáldsögunni mjög svo nákvæmlega án þess í rauninni að glæða hana nokkurri sjálfstæðri dramatískri vídd; það er kunnara en frá þurfi að segja að epísk frásögn lýtur öðrum lögmálum en dramatísk. Það eru að mínu viti mikil mistök sem hafa afleitar afleiðingar fyrir allt sem á eftir fylgir.Úr verkinu sem nú er sýnt á fjölum Þjóðleikhússins. Mynd: Þjóðleikhúsið.

Hin ýmsu lög sögunnar fléttast saman á flókinn og margræðan hátt. Ef úr á að verða skiljanleg saga fyrir leiksvið færi betur á því að móta einn meginþráð, draga úr vægi annarra laga sögunnar en láta þau þar sem þau þó koma fyrir styðja við meginþráðinn. Það eru þekkt dramatúrgísk, eða leiktextafræðileg efnistök, margreynd og vel þekkt.

Leikgerð Niklas Rådström verður eins konar uppstilling á sögunni, líkt og forlagsauglýsing fyrir bókina. Það eitt og sér hvetur síður listræna stjórnendur leikhúss til að taka sjálfstæða afstöðu til sögu Búlgakovs og þá er hætt við að lítill tilgangur sé með því að setja söguna á svið, annar en sá að minna á tilvist hennar og hvetja áhorfendur til að njóta bókarinnar beint. Það er lítil dirfska yfir slíkum vinnubrögðum og seint myndu þau teljast sæmandi Þjóðleikhúsi sem eðli málsins samkvæmt á að vera í sjálfstæðri samræðu við þjóðina í samræmi við tilgang þess og markmið.

En hvað sem því líður fer ekki á milli mála að margt er vel gert í Meistara og Margarítu Þjóðleikhússins og í raun sjálfsagt að hvetja fólk til að sjá þá sýningu, þó ekki væri nema til að örva til eigin lesturs á sögu Búlgakovs í snilldarþýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur.

Sýning Þjóðleikhússins hefst á draumkenndu upphafsatriði, eins konar götulífsmynd í Moskvu, þar sem dulúðug tónlist og reykur umlykur þöglar persónur, sem hreyfa sig með hægum hreyfingum í hversdagsathöfnum. Tónninn er sleginn fyrir það sem á eftir kemur – hér er að hefjast draumleikur. Það má spyrja hvort það stangist ekki á við markmið Búlgakovs – ég hygg að í hans hugarheimi hafi sagan um Meistarann og Margarítu verið í hæsta máta raunsæ; það ætti því að gera hina súrrealísku og magísku sögu eins raunverulega og hægt er – og væri þar með ekki betur lyft undir óhugnaðinn?

Leikmynd Sigríðar Sunnu, búningar Evu Signýjar og lýsing Halldórs Arnars er allt smekklega unnið og fagmannlega og í samræmi við hugmyndina um draumleikinn. Með margvíslegum tilfæringum og mismunandi lýsingu þjónar leikmynd Sigríðar Sunnu öllum sviðum sögunnar og það má sannarlega kalla sýninguna sigur leikhústækninnar. Atriðin renna vel saman og skila sögu Búlgakovs frá upphafi til enda. En sýningin markast þó af eins konar stefnuleysi, það er eins og ekki sé á hreinu af hverju verið sé að segja þessa sögu né hvaða erindi hún eigi við áhorfendur. Persónuleikstjórninni er ábótavant og tekur ekki mið af því sem úr þarf að vinna. Þannig er t.d. Woland í meðförum Sigurðar Sigurjónssonar fremur alúðlegur og hlýlegur karakter – ógn hans er öll undir hinu elskulega yfirborði og sú túlkun lætur Sigurði vel, en kallar þá óneitanlega á mótleik sem undirstrikar ógnina sem í nærveru Wolands felst. Hér bregst leikstjóra bogalistin þegar í upphafsatriðinu, þegar Berlioz, leikinn af Birni Inga Hilmarssyni, og Ívan Bésdomní, leikinn af Bjarna Snæbjörnssyni, gefa í skyn að þeim finnist Woland hlægilegur og klappa honum kumpánlega á öxlina. Þar fer mikilvægt tækifæri forgörðum að sýna ógn þessa ókunna gests og skapa skilning á þeirri ögrun sem undarleg orðræða hans felur í sér.

Auglýsing
Annað dæmi, öllu alvarlegra, snertir Korovév, sem leikinn er af Ebbu Katrínu Finnsdóttur. Ebba Katrín gerði Uglu í Atómstöðinni svo ljómandi góð skil að eftir var tekið. Það er því dálítið skondið að heyra Korovév tala með sömu rödd, sömu blæbrigðum, sama tónfalli og sömu áherslum og Ugla. Ugla uppgötvar heiminn og við fáum að heyra uppgötvanir hennar og niðurstöður í einræðum hennar; Ebba Katrín náði með rödd sinni, blæ, tóni og áherslum þessum einkennum Uglu fullkomlega. Korovév aftur á móti uppgötvar ekki heiminn, hann stjórnar honum, en það kallar á allt öðruvísi rödd og raddbeitingu, lausa við undrun og íhygli Uglu. Hér hefði leikstjórinn þurft að taka í taumana og leiða leikarann inn á aðra braut; það er ábyrgðarhluti þegar ungum, nýútskrifuðum leikurum er veitt tækifæri á borð við þessi og þegar listrænir stjórnendur og leikhúsin gangast ekki við þeirri ábyrgð og hreinlega slugsa er hinum ungu leikurum bjarnargreiði gerður.

Þriðja dæmið má til taka: Birgitta Birgisdóttir leikur annað titilhlutverkið, Margarítu, sem ann Meistaranum og saknar hans; ást hennar er öðrum þræði drifkraftur verksins, enda færir Woland sér miskunnarlaust í nyt tilfinningar hennar og varnarleysi. Birgitta er þekkileg leikkona en það hæfir henni ekki að staðsetja Margarítu á efri hæð baksviðs í einhvers konar dulúðugri fjarlægð; sá kraftur sem í ást Margarítu býr nær ekki fram með þessari staðsetningu á Birgittu og veikir leik hennar. Þá er atriðið þegar Woland hefur fært henni nornarkraftinn með töfrasmyrslinu og hún flýgur um Moskvu og hefnir ófara Meistarans einfaldlega kauðskt eins og það er lagt upp, sú mikilvæga orðræða sem Margaríta fer með á fluginu fer forgörðum vegna þess hversu álappalega flugið er framkvæmt. Hér hefði athugull leikstjóri vitaskuld leitað annarra leiða til að styrkja leikarann í túlkun sinni svo ást Margarítu hefði orðið sá dramatíski drifkraftur sem hún er í sögunni.

Þótt hér séu nefndir nokkrir misbrestir er ýmislegt þó vel gert og má hafa ánægju af – og sjálfsagt má með velvild horfa hjá þeim aðfinnslum sem hér eru tíndar til. Saga Búlgakovs stendur vitaskuld fyrir sínu og svíkur engan, það er unun að kettinum Behemot í túlkun Odds Júlíussonar og margir gera vel í smáum hlutverkum – má t.d. nefna Bjarna Snæbjörnsson í fyrrnefndu hlutverki Ívan Bésdomnís, Pálma Gestsson í hlutverki Pontíusar Pílatusar, Hákon Jóhannesson í hlutverki Leví Matteusar, Þóreyju Birgisdóttur í hlutverki Natösju, Þröst Leó Gunnarsson og Eddu Björgvinsdóttur í ýmsum hlutverkum. Leikgervi Tinnu Ingimarsdóttur verðskulda ómælt hrós.

Á heildina litið er Meistarinn og Margaríta áhorfsverð sýning þótt efnistök og listræn túlkun hefði mátt vera djarfari og markvissari.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Sigurlaugsson og Sigmar Vilhjálmsson sitja báðir í undirbúningsnefnd hins nýja félags.
Unnið að stofnun nýrra hagsmunasamtaka lítilla og meðalstórra fyrirtækja
Atvinnufjélaginu er ætlað að vera málsvari fyrir hagsmuni einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Þörfin á slíkum samtökum atvinnurekenda er sögð mikil af hálfu stofnenda.
Kjarninn 16. september 2021
Tryggvi Rúnar Brynjarsson
Í Dal hinna föllnu
Kjarninn 16. september 2021
Sif Sigmarsdóttir
Hvernig viljum við lifa?
Kjarninn 16. september 2021
Arnhildur Hálfdánardóttir fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Hún er þar með síðasti handhafi þeirra verðlauna.
Hætta að veita fjölmiðlaverðlaun á degi íslenskrar náttúru
Algjör sprenging hefur orðið í umfjöllun fjölmiðla um loftslags- og umhverfismál og því telur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki lengur þörf á að verðlauna miðla sérstaklega fyrir slíkan fréttaflutning.
Kjarninn 16. september 2021
Sif Konráðsdóttir
Áratugur Árósasamnings
Kjarninn 16. september 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Framlög til barnabótakerfisins aukin og fleiri fá þær, en raunvirði bóta hefur lítið hækkað
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur um að ríkisstjórn hennar hafi aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði fyrir fjórum árum síðan.
Kjarninn 15. september 2021
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Rúm 40 prósent vilja að Katrín verði áfram forsætisráðherra
Í niðurstöðum könnunar á vegum ÍSKOS kemur í ljós að langflestir vilja að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Athygli vekur að Bjarni Benediktsson nýtur minni stuðnings í embættið en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í könnunum.
Kjarninn 15. september 2021
Eyþór Eðvarðsson
Rétturinn til að deyja
Kjarninn 15. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk