Þjóðleikhúsið: Engillinn. Leiksýning byggð á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar
Höfundur: Þorvaldur Þorsteinsson
Leikstjórn, handrit og leikmynd: Finnur Arnar Arnarson
Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Tónlist: Pétur Ben og Elvar Geir Sævarsson
Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson og Elvar Geir Sævarsson
Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir, Ilmur Kristjánsdóttir
Þorvaldur Þorsteinsson (1960-2013) var augljóslega óvenjulega fjölhæfur listamaður sem lagði gjörva hönd á margt á stuttri ævi. Hann féll frá rúmlega fimmtugur og hafði þá þegar náð að halda yfir 40 einkasýningar sem myndlistarmaður og taka þátt í tugum alþjóðlegra myndlistarviðburða og hlaut á þeim ferli viðurkenningar og alþjóðleg verðlaun fyrir framlag sitt til samtímamyndlistar. En hann var ekki síður afkastamikill rithöfundur og skrifaði fjölda leikverka fyrir svið, en þar munu þekktust vera Skilaboðaskjóðan, sem frumflutt var 1993 og sett upp aftur 2007 auk þess sem áhugafélög hafa tekið Skjóðuna til meðferðar, Leitin að jólunum sem er árviss viðburður í Þjóðleikhúsinu fyrir jól og And Björk, Of Course sem frumflutt var 2002 hjá Leikfélagi Reykjavíkur; en að auki skrifaði Þorvaldur fyrir sjónvarp og hljóðvarp, m.a. örleikrit og eins varð hann þekktur fyrir Vasaleikrit sín, sem flutt voru vikulega í Ríkisútvarpinu veturinn 1991-92. Hann eftir sig fjölda leikverka í fullri lengd auk handrita fyrir bæði sjónvarp og útvarp.
Finnur Arnar raðar saman brotum úr höfundarverki Þorvaldar og hirðir ekki um línulega eða rökræna frásögn. Það er vaðið úr einu í annað á ákaflega absúrd máta – sem er fullkomlega í stíl við leik- og myndverk Þorvaldar; hann er öðrum þræði fulltrúi absúrdismans og má greina áhrif frá til dæmis Ionesco í samtölum persóna hans. En Þorvaldur fer eigin leiðir og þar sem absúrdistar millistríðsára Evrópu sátu fastir og komust ekki úr vonleysi sínu yfir tilvist mannsins er Þorvaldur fremur að henda góðlátlegt og elskulegt gaman að því hvernig við mannfólkið erum njörvuð í félagsleg hlutverk okkar – hann skoðar sérstaklega og beinir spjótum að hvernig búningar fara með fólk – reykkafarar, lögregla, flugfreyja eru „búningar“ sem koma fyrir í verkum hans – en hann er ekki síður hugfanginn af „ósýnilegu búningunum“ og hvernig við reynum stöðugt að öðlast sess í samfélagi manna í að því er virðist innihaldslausum, jafnvel merkingarlausum samræðum.
En í öllum slíkum samræðum felst ákveðinn ótti við að heyra hvergi til, eiga hvergi heima, og það er kannski umfram allt sá ótti sem er viðfangsefni Þorvaldar. Og hann tekur á þessum sammannlega ótta af næmni og væntumþykju og það er eins og í öllum hans samræðum megi finna undirliggjandi staðhæfingu: Ekki gefast upp, það er von, allt mun verða betra og þolanlegra, bara ef maðurinn þolir við, gefst ekki upp. Það er jákvæður boðskapur, fram settur af þeirri hógværð sem absúrdisminn, fáránleikinn, á satt að segja til á sínum bestu stundum.
Þessi hugljúfi boðskapur er fram borinn í hinum mismunandi atriðum sýningarinnar sem tengjast vel saman í leikmynd, lýsingu og tónlist og hljóðmynd allri. Og ekki síður leik! Það er langt síðan sást jafn vel slípaður samleikur og hér er og þarf ekki að fara mörgum orðum um frammistöðu leikhópsins – hér er valin kona og valinn maður í hverju rúmi og það er einfaldlega unun að því að horfa á hversu leikgleðin og kátínan ræður ríkjum, leikstíllinn frjálslegur í samræmi við efnið en allt vel agað og njörvað niður í heimsmynd Þorvaldar – og ekki verður betur séð en leikhópurinn, allur sem einn, samsami sig þeirri heimsmynd og finni sig vel heima í henni. Enda verður ekki annað túlkað af efninu en Þorvaldur hafi verið húmanisti og mannvinur af besta tagi og um leið ákaflega góður húmoristi með næmt auga fyrir hjákátlegum atvikum tilverunnar. Öllu þessu kemur leikhópurinn til skila í frábærum samleik.
Það má vekja sérstaka athygli á því að allir þeir munir, sem finna má á sviðinu og heyra til leikmynd og leikmunum eru til sölu – áhorfendur geta keypt þá að lokinni sýningu og fengið þá afhenta að sýningartímabili loknu. Þá er ekki síður gaman að því að í hléi er kökubasar – valið kvenfélag mætir með heimabakað og það er sömuleiðis til sölu ef áhorfendur vilja taka með sér köku heim til að maula meðan sýningin meltist og sest í sálina. Þessir gjörningar – og reyndar fleiri – vísa til verka Þorvaldar jafnt í leiklistinni sem í myndlistinni og verða því hluti af því „hommage“ til Þorvaldar sem Engillinn er og er vel við hæfi.
Sem fyrr segir lést Þorvaldur Þorsteinsson langt fyrir aldur fram, rétt rúmlega fimmtugur að aldri. Textar hans bera með sér að hann hefði örugglega náð mun lengra og þroskast sem leikskáld og listamaður, hefði honum enst aldur til. Að því leyti til er arfur hans ófullburða og við munum aldrei fá að sjá hvaða hæðum list hans hefði hugsanlega getað náð. Megi það verða okkur áskorun að hefja fána hans á loft í baráttunni óendanlegu fyrir betra lífi og skemmtilegra! Þá er til einhvers unnið!
Engillinn er með því besta sem sjá má á fjölum leikhúsanna um þessar mundir – ekki missa af þessari frábæru og fallegu sýningu!