Hugleikur Dagsson negldi beikonsneið með She-Ra sverði við sellerí í Blóðuga Maríu um daginn. Hann segir að nú sé tíminn til að ná meistaratökum á því að blanda slíkan kokteil.
Að hans mati er einnig upplagt að dusta rykið af strippkennsludiskunum með Baywatch-leikkonunni Carmen Electra. Ef fólk eigi ekki diskana, eins og hann, megi finna kennslumyndbandið á Youtube.
Grínistinn, skopmyndateiknarinn og rithöfundurinn Hugleikur er í hópi valinkunnra Íslendinga sem Kjarninn leitaði til og bað um að veita lesendum góð ráð um hvernig er hægt að rækta líkama og sál á tímum kórónuveirunnar.
Hann brást vel við beiðninni og hér að neðan fara ráðin hans fimm.
Blóðug María daglega
Það er list að gera almennilega Blóðuga Maríu. Ein á dag gerir þig að listamanni. Grunnefnin eru náttla vodka, tómatsafi, tabasco-sósa, worcestershire-sósa, pipar og sellerí. Ég vil helst hafa mikinn klaka. Hef lært að smá „pickle“-safi eða ólífusafi gerir góða hluti. Wasabi-krydd færir drykknum nýja vídd. Svo er hægt að skreyta þetta með öllu. Osti og rækjum þess vegna. Ég negldi beikonsneið við selleríið með She-Ra sverði um daginn.
Patrick Stewart-pakkinn
1) Star Trek Next Generation. Sjö seríur af þenkjandi sci-fi dæmisögum um sigur mannsandans.
2) Hlusta á Patrick Stewart lesa sonnettur Shakespeare. Hann les eina á dag á facebookinu sínu.
3) Gúglaðu „Patrick and Ian“ og stilltu á myndir. Þetta vermir hjartað endalaust.
Dútlaðu undir kvikmyndatónlist
Gerðu eitthvað skapandi (prjóna, teikna, skrifa, baka) og hlustaðu á kvikmyndatónlist á meðan. Þá verður allt epískara. Ef þú útsauma kodda undir Hans Zimmer líður þér eins og þessi koddi muni bjarga heiminum. Mæli líka með Nyman, Carpenter og náttla Guðnadóttur.
Dungeons & Dragons
Ég þarf að finna gamla D&D kassann minn. Því nú er tíminn til að þykjast vera álfur eða dvergur og berjast við orka og dreka. Ef þú ert ein/n í sóttkví, geturðu notað tímann til að skrifa eitthvað svakalegt D&D ævintýri eða búa til karakter eða teikna dýflissukort. Ef þú þekkir ekki D&D er allt sem ég sagði núna líklega kínverska fyrir þér. En kynntu þér þetta. Þetta er stuð.
Carmen Electra Aerobic Striptease
Baywatch-stjarnan Carmen Electra gaf þetta íburðarmikla leikfimiprógram fyrir að verða tveimur áratugum. Þetta er bæði eróbikk og strippdans kennsla. Þetta er til á Youtube en ég á þetta á DVD því ég er svo kúl. Ég mæli með að taka disk tvö, „fit to strip” rækilega í gegn áður en þú færir þig yfir í danskennsluna. Treystu mér, þetta tekur á. Maður svitnar eins og moðerfokker.