Stuttmyndin Rán eftir Ísfirðinginn Fjölni Baldursson, fjallar um tvítugan strák sem býr úti á landi, Gunnar að nafni. Kærastan hans biður hann að sækja sig í vinnuna yfir í næsta þorp, hann reynir að fá lánaða drossíu föður síns til þess að sækja hana. Faðir hans neitar honum um bílinn, svo hann stelur bílnum með hjálp bróður síns. Þegar hann keyrir út úr bænum tekur hann upp í bílinn konu að nafni Rán og þá fara hlutir að gerast sem hann hefur enga stjórn á.
Verkefnið er núna í fjármögnun á Karolina Fund og með því að styrkja verkefnið getur fólk tryggt sér miða á frumsýningu myndarinnar, eða mynd eftir Ómar Smára Kristinsson bæjarlistamann Ísafjarðarbæjar. Einnig fær fólk möguleika á að rökræða við leikstjóra myndarinnar eftir frumsýningu hennar. Svo er það rúsínan í pylsuendanum! Þú getur valið endinn á myndina ... Myndin verður tekin upp í maímánuði á þessu ári. Að henni koma að mestu fólk að vestan.
Einhverjir leikarar koma að sunnan til að taka þátt í verkefninu. Aðalleikarar myndarinnar eru þau Magnús Eðvald og Jónína Margrét Bergmann.
Segðu frá hugmyndinni að baki verkefninu?
„Upphaflega hugmyndin var að gera svona „road movie“, og upprunalega sagan er stærri, þannig að þessi stuttmynd er í rauninni byrjunin á þeirri sögu, en varð svo smátt og smátt stærri, sterkari og sjálfstæðari saga. Þema myndarinnar er þessi mannlegi breyskleiki. Hvernig menn höndla sorg og freistingar. En svartur húmorinn skín alltaf í gegnum þessa sorg sem birtist í sögunni. En þessi svarti húmor hefur svolítið verið mitt vörumerki.
Það sem er svolítið sérstakt við gerð myndarinnar, er að sá sem hefur áhuga á að hafa áhrif á kvikmyndagerðina, getur haft áhrif á það hvernig myndin endar. Við viljum leyfa þeim sem styrkir myndina fyrir vissa upphæð, velja úr 3 endum á myndinni. Það verða teknir upp 3 útgáfur og styrktaraðilinn velur þá sem honum líst best á.
Einnig bjóðum við fólki sem styrkir okkur að þiggja mynd teiknaða af bæjarlistamanni Ísafjarðarbæjar, Ómari Smára Kristinssyni. En sú mynd fór nú á fyrsta degi. Mögulega bjóðum við fleiri myndir eftir Ómar Smára. En hann hefur setið sveittur með mér að teikna upp „story board“ myndarinnar.“