Hughrif í vinnslu

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Ég kem alltaf aftur – leiksýningu í boði alþjóðlega leikhópsins Reykjavík Ensemble undir stjórn Pálínu Jónsdóttur.

Ég kem alltaf aftur
Ég kem alltaf aftur
Auglýsing

Listahátíð Reykjavíkur 2020: Reykjavík Ensemble: Ég kem alltaf aftur

Höfundur: Pálína Jónsdóttir og leikhópurinn.

Leikstjóri: Pálína Jónsdóttir.

Leikmynd: Robert Zadorozny og Wiola Ujazdowska.

Búningar: Mao Alheimsdóttir.

Hljóðmynd og tónlist: Adam Switala.

Leikarar: Adam Switala, Ewa Marcinek, Jördis Richter, Magdalena Tworek, Mao Alheimsdóttir, Karolina Boguslawska, Robert Zadorozny, Wiola Ujazdowska, Piotr Pawlus.

Við innganginn eru áhorfendur spurðir um vegabréf, kennitölu eða eitthvað annað það sem þarf að gera grein fyrir áður en lagt er upp í ferðalag. Svo kemur í ljós, að það er aðeins leikur – það þarf enginn að róta í vasanum eftir vegabréfi eða þylja kennitöluna. En það er þegar búið að minna á tvennt: í vændum er ferðalag. Og leikur. En umfram allt: leiksýning, sem líkist engu öðru sem gerist og gengur á íslensku leiksviði. Leiksýning í boði alþjóðlega leikhópsins Reykjavík Ensemble undir stjórn Pálínu Jónsdóttur.

Fyrir réttum þrjátíu árum kom pólski fjöllistamaðurinn Tadeusz Kantor til Íslands með leikhóp sinn, Cricot 2, í boði Listahátíðar og sýndi hér verk sitt, „Ég kem aldrei aftur“. Meðal áhorfenda að þeirri sýningu var Pálína Jónsdóttir og sýningin breytti sýn hennar á lífið og listina. Pálína hélt nokkru síðar erlendis og bjó þar lungann af æfinni en er nú nýkomin heim aftur og hefur starfað hér sem leikstjóri og m.a. sett upp Ég heiti Guðrún 2018 hjá Þjóðleikhúsinu og á liðnu ári stofnaði hún Reykjavík Ensemble, alþjóðlegan hóp listamanna sem hefur sett upp þrjár sýningar – Opening Ceremony, Polishing Iceland og nú síðast „Ég kem alltaf heim“, en síðastnefnda sýningin er einskonar andsvar eða viðbragð Pálínu við sýningu Tadeusz Kantors sem hún sá fyrir þrjátíu árum.

Auglýsing

Tadeusz Kantor fæddist 1915 og mótaðist í bernsku af fyrri heimstyrjöldinni; faðir hans var hermaður og yfirgaf fjölskylduna að stríðinu loknu. Hann nam listmálun og leikmyndagerð við listaháskólann í Krakow og sá í fyrstu fyrir sér sem leikmyndateiknari við Þýska leikhúsið í Krakow. Auk þess stofnaði hann ásamt öðrum ungum listamönnum leikhópinn Óháða leikhúsið, sem sýndi í heimahúsum, í felum fyrir eftirliti yfirvalda. Kantor varð smám saman þekktur fyrir frumlegar og listrænar leikmyndir auk þess sem hann hélt sýningar víða í Evrópu. Í leikstarfseminni vann hann að því að sameina myndlist og leiklist í því sem hann nefndi al-list, þar sem ekki var hægt að greina á milli hinna ólíku listgreina, þær runnu saman og urðu að einni heild. Hann skrifaði einnig fræðilegar greinar um listsýn sína. List Kantors sótti andagift í upphafi í smiðju súrrealismans og eftir því sem á leið nálgaðist list hans gjörningalist; algengt þema í sýningum hans var að maður eða hlutur var hulinn umbúðum – poka, kassa eða vafinn í teppi eða tau af öðru tagi. Hann átti það líka til að vísa í klassíska myndlist málara á borð við Velázquez eða Goya.


Kantorfræðingurinn Jan Klossowicz mun hafa sagt að leikhúsi Kantors megi helst lýsa sem sjálfvirku (e. autunom) í þeim skilningi að það er algerlega sjálfu sér nægt, í sýningum sínum fæst Kantor hvorki við að túlka raunveruleikann utan leiksýningarinnar né heldur er leiklist hans endurgerð raunveruleikans, verk hans eru eingöngu háð eigin raunheimi sem er óháður öllu öðru.

Það mætti hafa mörg orð um list Tadeuszar Kantors, svo fjölbreyttur var ferill hans. List hans spannar yfir vítt svið mannlegrar verundar. Aðeins skal minnt á viðhorf hans til hlutanna: þeir hlutir, sem notaðir voru í sýningunni áttu að vera einfaldir, slitnir, gjarnan bilaðir.

Mynd: Owen Fiene

Það er sérstök tilfinning að ganga inn í salinn í Iðnó. Iðnó er með elstu minjum um leiklist á Íslandi og það fer vel á því að fyrsta leiksýning eftir samkomubann fari fram hér, þar sem frumkvöðlar íslenskrar leiklistar stigu fyrst fæti á þær fjalir sem sýna heiminn – svo vitnað sé eftir minni í orð skáldjöfursins enska. Salurinn er auður, nema hvað hrúga af stólum er fyrir miðju – þangað eiga nú áhorfendur að sækja sér stól og setja hann niður hjá einhverjum af þeim svörtu deplum sem búið er að setja á gólfið. Það eru tveir metrar milli depla og hér er farið eftir tveggjametrareglunni. Stólahrúgan er reyndar bein tilvitnun í verk Tadeusz Kantor, en hann gerði m.a. skúlptúra úr stólum.

Fyrir sýningu býður listrænn stjórnandi Reykjavík Ensemble og leikstjóri sýningarinnar, Pálína Jónsdóttur, áhorfendur velkomna og gerir nokkra grein fyrir því, sem í vændum er. Hún rekur persónulega upplifun sína af sýningu Kantors þegar hann kom með leikhóp sinn á Listahátíð 1990 og hvernig sú sýning, „Ég kem aldrei aftur“, breytti viðhorfi hennar til lífs og listar. Á henni má skilja að Kantor tali frekar til tilfinninga en til rökhyggjunnar, list hans er eins fjarri því að vera línuleg og unnt er. Hún bendir jafnframt á að sýningin, „Ég kem alltaf aftur“ er samin sem eins konar viðbragð við sýningu Kantors, eða öllu heldur óður til hennar.

„Ég kem alltaf aftur“ fylgir engri línulegri þróun eins og búast má við í hefðbundnu leikhúsi. Sýningin líkist meira gjörningi, hún samanstendur af margvíslegum brotum, ósamstæðum á köflum, sem leikararnir hafa lagt í púkkið og miðlað af sinni reynslu. Leikararnir eru pólskir nema einn sem er þýskur og efnisbrotin bera keim af því, þau eru meginlandsevrópsk í grunninn og segja sögu sem má jafnvel fullyrða að búi í genum evrópubúa, hafi komið sér þar fyrir á löngum tíma, þróast og þroskast og halda því áfram meðan mannkyn blívur. Leikhópurinn hefur tínt saman brot úr eigin sögu, sögu foreldra sinna og langfeðra sinna og langmæðra, sótt í upplifanir, minningar og dulvitund. Gott ef ekki má finna í sýningunni þjóðsagnaminni í bland við brot úr nútímasögu og allt þar á milli. En sá áhorfandi sem leitar að rökréttri frásögn í klassískum skilningi þess orðs hefur farið í geitarhús að leita ullar. Hér gildir að opna skilningarvit tilfinninga og skynjunar, meðtaka án þess að falla í þá gildru að beita skynsemi til að túlka. „Ég kem alltaf aftur“ er líkt og málverk, það hreyfist, það lifir, það vekur kenndir – en það er ekki fyrr en ljósin slökkna á leiksviðinu og kvikna í salnum að áhorfandinn getur farið að melta með sér og vinna úr því sem á var horft. Og það getur orðið langt og áhugavert ferli. Ferðalag eins og þau gerast best!

Það er vel hægt að hugsa sér að verkin bæði, annars vegar sýning Kantors og hins vegar sýning Pálínu og leikhópsins spegli ekki aðeins hvort annað, heldur einnig mismunandi aðstæður í henni veröld – sýning Kantors er frumsýnd 1989, um það bil samtímis sem Berlínarmúrinn fellur og Evrópa er í óðaönn að gera upp við seinni heimsstyrjöldina, sýning Pálínu er frumsýnd á því herrans covid-ári 2020; titillinn á verki Kantors vísar reyndar til þess að í heimaborg hans, Krakow, var verkum hans tekið verr en annars staðar en í ljósi þess að verk hans voru margbrotin og marglaga er ekkert sem mælir gegn þeirri ályktun að verkið sæki hughrif í þá upplausn sem þá ríkti í evrópskum stjórnmálum og menningu. Ef það má verða til einhverrar hjálpar.

Mynd: Owen Fiene

Hér var minnst á speglun og í verki Pálínu Jónsdóttur og leikhópsins, Reykjavík Ensemble, má sannarlega finna hvernig allt speglast, í sjálfu sér og hvert í öðru – það er einskonar stef í sýningunni, draumurinn um Ísland og ætlunin að flytja þangað: „Mig langar að giftast Íslendingi sem fer með mig í Kringluna ... til að þrífa og þræla“ og þar er sannarlega kominn spegilmynd mismunandi þjóðernis, aðstæðna og möguleika. Þegar slíkri spegilmynd hefur verið varpað upp gerist það að hún bjagast, jafnvel afskræmist, og varpar fram nýrri hugmynd um annan veruleika – sem þó er vandlega njörvaður í veruleika sýningarinnar sjálfrar, leitar ekki útfyrir hana og er ekki nema óbeint – í gegnum reynslu okkar áhorfenda – vísun í þann veruleika sem einkennir samfélag okkar. Og það er fleira sem er speglað á þennan hátt: liðin tíð gagnvart nútíðinni, nútíðin gagnvart framtíðinni, liðin tíð gagnvart framtíðinni. Sýningin verður þannig marglaga, gjörningur í núinu sem sækir hughrif í allar áttir og alla tíma og beinlínis frussar út úr sér hughrifum af alls konar tagi, sem við verðum að fanga og moða úr – það er ekki eitt einasta dautt augnablik þann tíma sem sýningin varir og allt sem á sér stað, hver hreyfing, hvert hljóð ber með sér merkingu sem ekki má missa af.

Hver einasti hlutur í leikmyndinni gæti verið sóttur í Góða hirðinn – og leikmyndin er ekki einasta snjöll og hugvitsamlega gerð, heldur lifir hún með í sýningunni og verður eins og leikararnir, merkingarberandi. Draslaralegir og smekklega hannaðir búningarnir styrkja þau áhrif. Hið sama má segja um hljóðmyndina og er þá ekki aðeins átt við þau hljóð sem berast um hátalara út í sal, heldur einnig þau hljóð, sem koma frá leikurunum – þar verður ekki greint á milli, heldur myndar allt sömu heildina, hvort sem horft er á eða hlustað. Lýsingin, einföld og mætti ekki öðruvísi vera.

Í upphafi var á það minnst að í vændum væri leikur; það er hverju orði sannara, en hér kemur meira til: leikurinn verður á köflum ærslafenginn þannig að helst má ætla að sýningin hafi farið algerlega úr böndunum og leikararnir sleppt af sér öllum beislum listræns aga! Þessi ærsl standa á móti hátíðlegu og stílíseruðu ritúali þar sem hver hreyfing er hnitmiðuð, æfð og öguð þannig að nákvæmnin magnar augnablikið. Leikurinn og ritúalið fléttast hvað inn í annað þannig að á köflum verður ekki greint á milli, hvað rennur saman við annað og skapar sérstaka og súrrealíska upplifun. Öllum ólíkum hughrifum er svo haldið saman með stefinu sem gengur í sífellu aftur; „Við erum að fara til Íslands“ – þar sem Ísland stendur fyrir hina óræðu framtíð.

Fortíðin er kvödd; hún er kaosið, hrörnunin, ellin. Sérstaklega hugnæmt er atriðið þegar amma deyr (?) og er kvödd, fallega sviðsett með nálgun við áhorfendur þannig að svið og salur Iðnós rennur saman – þar er á ferð bæði fallegur samruni leikara og áhorfenda og glæsileg sviðslausn, einföld og tilgerðarlaus.

Það mætti hafa mörg fleiri orð um „Ég kem alltaf aftur“. En einhvers staðar þarf að reka botninn í og það má gera með því að slá föstu að sýning Pálínu Jónsdóttur og Reykjavík Ensemble er hvort tveggja í senn – spennandi samræða við Tadeusz Kantor, einn fremsta leiklistarmann Evrópu á tuttugustu öldinni og um leið sjálfstætt leikverk sem kallast á við íslenskan nútíma og veruleika; hugvitsamlega gert og spennandi tilraun um manninn. Það má alltaf koma aftur og aftur að sjá slíka sýningu!

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk