CGFC & Halldór Eldjárn í samvinnu við Borgarleikhúsið: Kartöflur
Höfundur: Hópurinn
Leikstjórn: Hópurinn
Leikmynd: Hópurinn
Tónlist: Halldór Eldjárn
Sviðshreyfingar: Marta Ákadóttir
Leikendur: Arnar Geir Gústafsson, Birnir Jón Sigurðsson, Hallveig Kristín Eiríksdóttir, Ýr Jóhannsdóttir.
Þegar minnst er á kartöflur sem heiti á leikverki má eiga á ýmsu von. Ef undirritaður miðar við annað af álíku tagi og sem finna má í eigin bókaskáp, þá hefur bókin um baunir að geyma alls kyns fróðleik um gildi bauna fyrir heilsu mannsins; bókin um þorskinn segir frá fiskinum sem hafði svo mikla þýðingu fyrir efnahag heimsins. Þannig mætti örugglega lengi telja. Kartöflur eru tiltölulega ný fæða á borðum mannkyns, a.m.k. þess hluta mannkyns sem býr í Gamla heiminum, henni Evrópu, en hingað kom kartaflan frá Suðurameríku
Kartöflur heitir leikverkið og er samið og sýnt af CGFC-hópnum, sem getið hefur sér orðs sem fjöllistahóps sem samanstendur af fjórum einstaklingum: Arnar Geir Gústafsson er BA í félagsfræði úr Háskóla Íslands og MA í borgarfræðum frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi auk þess að hafa lært við Sjónlistadeild Myndlistarskólans í Reykjavík; Ýr Jóhannesdóttir er með BA-gráðu í Textílhönnun frá Glasgow School of Art og Myndlistarskólanum í Reykjavík, en hún stundar nú nám í Listkennslufræðum við LHÍ; Birnir Jón Sigurðsson er með BA-gráðu af sviðshöfundabraut frá LHÍ auk þess sem hann skrifar og gaf nýverið út sína fyrsta bók hjá Forlaginu; þá er Hallveg Kristín Eiríksdóttir með BA-gráðu af Sviðshöfundabraut LHÍ og diplóma gráðu í Leikmyndahönnun frá Centro Universitario de Arte TAI í Madríd.
Það er því alveg ljóst að það er fjölbreytilegur hópur kokka sem kemur að suðu á þeim kartöflum sem í boði eru á Litla sviði Borgarleikhússins. Sýningin var raunar frumsýnd í vor sem leið og var þá tilnefnd til grímuverðlauna sem Leikrit ársins 2020, og fyrir vikið var hópnum boðið að sýna nokkrar sýningar í Borgarleikhúsinu nú í haust, en upphaflega var Kartöflur sýnt undir formerkjum verkefnis á vegum Borgarleikhússins sem kallaðist Umbúðalaust; leikhúsið auglýsti eftir hugmyndum frá sviðslistafólki yngra en 35 ára að sýningum fyrir nýtt svið sem kallaðist Umbúðalaust – Stúdíó Borgarleikhússins og sem starfrækt var á þriðju hæð hússins. Ætlunin var að þróa þar vettvang til að þróa hugmyndir og setja upp sýningar í hráu rými með lítilli umgjörð og starfsemi þessa nýja sviðs átti (og á jafnvel enn – sjáum hvað setur þegar starfsemi hússins verður komin í eðlilegt horf að loknu covid-tímabili) að efla tengsl yngstu kynslóðar sviðshöfunda við áhorfendur.
Að öðru leyti er ferill Fjöllistahópsins CGFC næsta ótrúlegur. Hann varð til árið 2015 eftir að meðlimir hópsins höfðu starfað í Skapandi Sumarstörfum í Kópavogi, en saman náðu þeir sama haust, með því að ramba á norræna styrkumsókn sem fleytti hópnum til Noregs þar sem þau suðu saman nýstárlegt verk sem vakti næga athygli til að þeim var boðið að sýna á Akureyri og þar varð til sýningin Skugga-Sveinn. Aftur fékk svo hópurinn norrænan styrk til að skapa og sýna verk um land allt, í Færeyjum, Helsinki og Luleå. Þvínæst fylgdi sýning um einelti og eftir það var komið að Kartöflum á ótrúlegum ferli hópsins. Haustið 2018 var sótt um listamannalaun til að gera verk um kartöflur. Ekki fékk hópurinn listamannalaunin, en hugmyndin var engu að síður komin á flug og náði á endanum farsælli lendingu ásamt tveimur öðrum verkefnum á hinu nýja tilraunasviði Borgarleikhússins.
Hópurinn vildi „kafa í lægsta samnefnara Íslendinga, kartöfluna“, svo vitnað sé til bréfs frá einum meðlima hópsins í bréfi til undirritaðs. Hópurinn leitaði í sögulegar heimildir um kartöflur og fann þar m.a. afar merkilega sögu um Helgu Gísladóttur kartöflubónda, sem mun vera eini Íslendingurinn sem hefur fengið kartöfluyrki nefnt eftir sér, hann leitaði til afkomenda Helgu og annarra kartöflubænda, leitað var samstarfs við kartöfluframleiðendur í Þykkvabæ og rætt við Hildi Hákonardóttur, listakonu og rithöfund. Öllu þessu efni og meira til var síðan mokað upp á sviðið og hópurinn fór að skapa úr því sýningu.
Og hvernig hefur þá til tekist? Hvað segir fjöllistasýningin Kartöflur um Íslendinga og þennan algenga og hversdagslega rótarávöxt sem við leggjum okkur til munns? Fáum við að vita eitthvað nýtt, eitthvað byltingarkennt, eitthvað sem hingað til hefur verið hulið sjónum okkar?
Það skal fyrst tekið fram, að undirritaður er yfirleitt vel stemmdur fyrirfram gagnvart verkum þar sem til stendur (eða það heldur undirritaður að minnsta kosti) að taka fyrir eitthvert fyrirbæri úr sögu og/eða menningu þjóðar eða undirhóps og varpa á það nýju ljósi og setja í nýtt samhengi. Það fylgir því ávallt einkennilegur léttir að uppgötva með hjálp listrænnar frásagnar nýtt og óvænt samhengi hlutanna, það er líkt og hugurinn losni úr spennitreyju og fái að draga að sér ferskara loft, hann verður frjálsari og víðsýnni og finnur sig allt í einu reiðubúinn að takast á við veruleikann hafandi öðlast nýjan styrk. Þetta er sú blessun sem fylgir allri list þar sem tekist er á við grundvallarspurningar, leitað undir yfirborðið og kafað eftir dýpri merkingu. Það, að takast á við kartöflur, getur einmitt falið í sér slík átök með tilheyrandi frelsistilfinningu þegar ný þekking festir rætur í tilfinningalífinu.
Og svo vikið sé að spurningunni – fáum við að sjá kartöflur í nýju ljósi? – þá er svarið beggja blands. Í upphafi sýningarinnar er sagt frá konu að nafni Helga Gísladóttir. Hún var á sínum tíma kartöflubóndi sem ræktaði kartöfluyrki sem hlaut á endanum þann sess að vera flokkað sem sjálfstætt yrki og fékk eigið nafn: Helga, eftir bóndanum sem hafði tekist að rækta það. Kartaflan Helga þótti víst fyrirtaks rótarávöxtur og átti sannarlega skilið þennan sess. Og það hefði verið gaman að heyra meira af Helgu og örlögum hennar, ekki síst í ljósi þess að leikhópurinn gerði þrjóskulega og ástríðufulla tilraun til að leiðrétta upplýsingar á heimasíðu þar sem Helga var rangfeðruð.
En einhvers staðar í ferlinu er eins og hafi vaknað spurningin um beikonbugður. Og þá fer af stað önnur saga, miklum mun lítilvægari en sagan af Helgu, sem var verulega spennandi. Beikonbugður hafa þann eina skyldleika við kartöflur að vera framleiddar í Þykkvabænum, þær munu á sínum tíma hafa verið flokkaðar sem Þykkvabæjarsnakk, og þeirri spurningu er varpað fram, óljóst að vísu, hvort beikonbugður hafi verið framleiddar úr sama hráefni og kartöfluflögur. Það kemur svo í ljós að beikonbugður eru hvorki kartöflur né beikon heldur í raun veganísk framleiðsla. Það er í sjálfu sér athyglisverð uppgötvun og það má vel halda því fram að það segi sitt um matarmenningu Íslendinga og vestrænna þjóða almennt. Það er líka vel hugsanlegt að það hefði mátt nota sem einn söguþráð af mörgum í fjöllistasýningu.
Það er auðvitað ætlun hópsins. En hér verður úr það sem Þórbergur Þórðarson hefði á sínum tíma kallað ruglanda; með beikonbugðunum er eins og sýningunni fatist flugið, tengslin milli þeirra og kartaflanna er óskýr og ekki hirt um að hlúa að tengslunum þannig að áhorfandi sé áreynslulaust með á nótunum. Og það sem verra er, sagan af Helgu kartöflubónda gufar upp og birtist ekki fyrr en í lokin með frásögn af gjörningi þegar Landbúnaðarráðuneytinu er fært málverk af Helgu og þá er eiginlega búið að skopgera söguna af Helgu og smækka hana og sögu hennar. Sem er synd, Helga kartöflubóndi á það tæpast skilið.
Hópurinn hefði unnið á því að fá til liðs við sig tvo krafta: dramatúrg, sem hugsanlega hefði getað komið nokkru skikki á frásögnina, gert hana heilsteyptari, og svo leikstjóra, sem hefði getað samræmt krafta leikaranna. Leikararnir eru misjafnir að tæknilegri kunnáttu en það sem einkum truflar við leikinn er, að það tekst hvergi að byggja karakter í sýninguna, engum leikaranna tekst raunverulega að komast frá sjálfum sér og inn í þá sögu sem þó er verið að segja. Fyrir vikið verður sýningin eins konar blendingur gjörnings og leiksýningar og miðað við efnið og þó þau efnistök sem lagt er upp með hefði verið eðlilegast að vinna að því að vinna sýninguna í átt að hefðbundinni leiksýningu. Leikhópurinn hefur hér sjálfur annast þá leikstjórn sem við er höfð og vissulega segir máltækið að sjálfs sé höndin hollust, en hér á það ekki við.
Það getur einatt verið styrkur að utanaðkomandi þekkingu og það sést vel þegar hópurinn beitir öguðum sviðshreyfingum. Þótt þær séu einfaldar í sniðum eru þær hannaðar og æfðar af Mörtu Ákadóttur og þau atriði lyfta sýningunni verulega og verða merkingarberandi; hið sama má segja um tónlist og hljóðmynd Halldórs Eldjárns, sem er á köflum afburðagóð.