Töfrum gædd frásögn

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um sýninguna Tréð eftir Söru Martí Guðmundsdóttur og Agnesi Wild.

Leiksýningin Tréð
Auglýsing

Listahátíð í Reykjavík og Lalalab í Tjarnarbíói: Tréð

Hugmynd: Sara Martí Guðmundsdóttir

Höfundar og leikstjórn: Sara Martí Guðmundsdóttir og Agnes Wild

Tónskáld: Sóley Stefánsdóttir

Hönnun hljóðmyndar: Sóley Stefánsdóttir

Vinnsla hljóðmyndar: Stefán Örn Gunnlaugsson

Teiknari: Elín Elísabet Einarsdóttir

Leikmyndahönnuður: Eva Björg Harðardóttir

Ljós og myndband: Ingi Bekk og Kjartan Darri Kristjánsson

Leikarar: Kjartan Darri Kristjánsson og Elísabet Skagfjörð

Leikraddir: Óðinn Benjamín Munthe, Nadía Líf Guðlaugsdóttir, Dominique Gyða Sigrúnardóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson, Katrín Mist Haraldsdóttir, Adda Rut Jónsdóttir, Agnes Wild, Sara Martí Guðmundsdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, María Guðmundsdóttir, Ólafur Ásgeirsson, Sveinn Óskar Ásbjörnsson, Guðmundur Felixson, Alexía Björg Jóhannesdóttir, Friðrik Friðriksson, Elísabet Skagfjörð, Tinna Lind Gunnarsdóttir, Kormákur Garðarsson, Ronja Benediktsdóttir, Kristrún Heiða Hauksdóttir, Sunneva Sigríður Andradóttir, Stefán Örn Gunnlaugsson.


Það er alveg sérdeilis hlýlegur sjarmi yfir sýningu þeirra Söru Martí Guðmundsdóttur og Agnesar Wild um sítrónutréð sem stendur fyrir utan heimili drengsins Alex og fylgt hefur fjölskyldu hans í margar kynslóðir. Í upphafi andar allt friði og farsæld, Alex og systir hans leika sér og þau og foreldrar þeirra lifa áhyggjulausu lífi og njóta ávaxtanna af sítrónutrénu sem gefur þeim svalandi límonaði. En allt í einu verða náttúruhamfarir, jarðskjálfti ríður yfir og leggur heimili Alex í rúst og foreldrar hans lifa ekki af. Honum er ekki óhætt og þarf að yfirgefa bernskuslóðirnar. En til að halda tengslum við foreldra sína og fólkið sitt, tekur hann með sér grein af sítrónutrénu – þar sem hann finnur því öruggan stað í nýrri jörð getur hann hugsað sér að setjast að og nú hefst langt og strangt ferðalag yfir lönd og höf í leit að nýjum stað að setjast að á og gróðursetja sítrónutréð.


Leiðin liggur um flóttamannabúðir í eyðimörk þar sem jörð er ófrjó, um stórborgina þar sem loftið er mengað og um skóginn þar sem stóru, voldugu trén vilja ekki gefa rými fyrir sítrónutréð. Það hlýtur að vera óhætt að segja að allt fari vel að lokum, þótt endirinn sé ekki alveg eins og Alex hafði hugsað sér, né við áhorfendur. En þær fjörutíu og fimm mínútur sem sýningin varir er athygli okkar haldið vel vakandi og yngstu áhorfendurnir – en sýningin er hugsuð fyrir börn frá fimm ára aldri – munu ekki eiga í neinum vandræðum með að fylgja sögunni eftir né lifa sig inn í atburðarásina.

Auglýsing


Hluti af sjarma sýningarinnar er óneitanlega allur sá fjöldi leikara sem ljá hinum ýmsu og fjölbreytilegu karakterum rödd og önd. Þarna getur að sjá og heyra óborganlega kaktusa sem fræða Alex um eyðimörkina og eðli hennar, þvínæst getur að líta og upplifa kostuleg pottablóm svo ekki sé minnst á grenitrén mikilúðlegu. Það fer ekki hjá því að hægt sé að segja að þarna megi finna valda rödd í hverjum karakter og fjölbreytileikinn lífgar svo sannarlega upp á söguna. Þá skal einnig nefndur Óðinn Benjamín Munthe, sem leikur Alex á móti Kjartani Darra. Raddbeiting hans er með þvílíkum kostum að vart verður betur gert, framsögnin frjálsleg og eðlileg, hljómurinn með miklum ágætum og vel kveðið að hverju orði og áherslur eins náttúrulegar og kosið verður. Vel leikið, vel leikstýrt.


Tréð Mynd: AðsendOg reyndar er sýningin öll listilega vel samin og fallega fram borin, sem bendir til þess að leikstjórnin hafi náð þeim árangri í frásögn og flutningi sem stefnt hefur verið að. Vinnubrögðin að öllu leyti til fyrirmyndar.


Tréð er eins konar fjölmiðlunarsýning. Alex og systir hans, Móna, eru leikin af þeim Kjartani Darra Kjartanssyni og Elísabetu Skagfjörð að hluta, en að hluta er sagan sögð með aðstoð skuggabrúðuleikhúss, sem búið er til með teikningum Elínar Elísabetar Einarsdóttur, og sem varpað er með myndvarpa upp á sýningartjald og í þeim köflum heyrum við rödd Óðins Benjamíns. Þau Kjartan Darri og Elísabet stjórna brúðunum og öðru sem þarf til að segja söguna – bílum, skipum og leikmyndum – og taka þannig þátt í að fleyta atburðarásinni áfram bæði sem leikarar og brúðutæknimenn. Þetta er skemmtileg nálgun, sem fer fram fyrir opnum tjöldum og krefst einbeitingar af því tagi sem smitar af sér yfir til áhorfenda.


Reyndar er rétt að taka fram að ekki er um að ræða skuggabrúðuleikhús alls kostar samkvæmt hefðinni því hér er nefnilega beitt nútíma vídeótækni sem ekki var kostur á í árdaga skuggabrúðuleikhúss. En nú eins og þá fyrirstilla einvíðar pappafígúrur annars vegar persónur sögunnar og hins vegar hina ýmsu hluta leikmyndarinnar og hér er þeim brugðið fyrir linsu tökuvélar og þaðan varpað upp á stórt tjald fyrir ofan leikarana Kjartan Darra og Elísabetu. Þannig verða sum atriðaskiptin frá skjánum og niður á sviðið og svo á hliðstæðan hátt frá sviði og upp á skjá. Þar sem asíska skuggabrúðuleikhúsið hafði aðeins yfir að ráða einu sviði – tjaldinu – og tveimur litabrigðum – skugga og birtu – gefst hér kostur á að leika sér með frásögn á tveimur plönum og í tveimur víddum, auk þess sem litir og litræn blæbrigði fá aukið vægi. Að öðru leyti er frásagnartæknin hliðstæð; hún er í tengslum við ritúalið, trúarbrögðin, sem áttu að útskýra heiminn og heimsmyndina fyrir þeim sem á horfðu og hlustuðu og úr verður býsna seiðandi frásögn sem kallar á athygli og íhygli. Þegar um ræðir frásögnina af Alex og Mónu og sítrónutrénu er hvergi hætt við að áhorfendur missi af því sem gerist. Frásagnarformið er töfrum gætt og er í beinum tengslum við frumþörf mannsins fyrir frásagnir sem útskýra heiminn og lögmál hans og tengja manninn við þau.


Tréð er falleg sýning og hentar vel ungum áhorfendum; og þar sem efni hennar tengist ýmsu því sem sjá má og heyra í fréttum nútímans er ekki úr vegi að foreldrar, afar og ömmur horfi og hlusti með ungu kynslóðinni og skapi sér sameiginlega reynslu, ekki síst með því að ræða saman um þann jákvæða boðskap sem sagan af Alex og Mónu og trénu miðlar.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFólk