Borgarleikhúsið: Útlendingurinn Morðgáta
Höfundur: Friðgeir Einarsson
Leikstjórn: Pétur Ármannsson
Tónlist: Snorri Helgason
Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir
Lýsing: Pálmi Jónsson
Hljóðmynd: Þorbjörn Steingrímsson
Málverk: Viðar Jónsson
Flytjendur: Friðgeir Einarsson, Snorri Helgason
Útlendingurinn Morðgáta er sýning sem leynir á sér. Á yfirborðinu virðist hún eins konar metaleikhús – leikhús um leikhús, þar sem höfundur sýningarinnar segir frá vandræðum þeim sem hann átti við að glíma þegar hann var að semja verkið í kjölfar velgengninnar með fyrri sýninguna, Club Romantica, sem sýnd var í Borgarleikhúsinu 2019 og var tilnefnd til fjögurra Grímuverðlauna. Það er þakklátt bragð í leikhúsi að vísa í veruleikann á sviðinu og er að sumu leyti tímanna tákn; að minnsta kosti varð ekki vart við annað en að allar tilvísanir í núið vöktu ómælda kátínu kynslóðasystkina höfundar sem sátu í salnum ásamt þeim sem hér slær lyklaborð.
En Útlendingurinn Morðgáta leynir sem sagt á sér. Hún er líka sagan af Íslendingnum sem gerðist sjálfur útlendingur með því að flytjast yfir Atlantsála og koma sér fyrir í Bergen þar sem hann átti samkvæmt samningi við leikhúsið að semja leikgerð við skáldsögu Albert Camus, Útlendinginn, en í staðinn vakti Ísdalskonan, fimmtíu ára gömul morðgáta, áhuga hans sem varð til þess að ekkert varð úr útlendingnum en sú sýning sem hér er fjallað um kom í staðinn. Raunar segir ekki af viðbrögðum leikhússtjórans sem fékk annað verk en um var beðið, en það skiptir kannski minna máli; aðalatriðið er, að þessi gamla morðgáta, sem kallast Ísdalskonan, er virkilega spennandi – og miðað við Club Romantica, fyrri sýningu Friðgeirs, ætti hún að falla algjörlega að hans aðferðafræði og stíl.
Aðferð og stíll Friðgeirs Einarssonar sver sig í ætt við mínímalisma og neórealisma eins og hann þróaðist í ítalskri kvikmyndagerð uppúr seinni heimsstyrjöldinni; sá tími er einnig nefndur gullöld ítalskrar kvikmyndagerðar og lagði grunninn að frægð kvikmyndaleikstjóra á borð við Visconti, de Sica og Rosselini, svo fáeinir séu nefndir. Þeirra aðals og einkennismerki var að vinna margræðar sögur úr fábrotnu efni sem fáum hafði áður dottið í hug að gera sér mat úr og einatt var söguefnið sótt í heim lægri stétta, verkalýðs og fátækra. Það sem einnig einkenndi ítalska neórealismann var að fara eins nákvæmlega í saumana á söguefninu og unnt var og mjólka hvern dropa úr því. Þetta gerði Friðgeir á glæsilegan og eftirminnilegan hátt í Club Romantica fyrir tveimur árum. Sú sýning sótti efni sitt í söguna af myndaalbúmi sem keypt var á útimarkaði. Í albúminu var að finna ljósmynd af konu í hversdagslegum aðstæðum. Konan og umhverfi hennar vakti athygli Friðgeirs (hann er sjálfur í miðpunkti atburða í verkum sínum) og úr varð leiksýning þar sem hann segir söguna af því hvernig hann leitaði uppi þessa konu. Hann fletti ofan af örlögum hennar og í rauninni lífgaði hana við fyrir augum áhorfenda. Club Romantica var, rétt eins og Útlendingurinn Morðsaga, frásögn af ferðalagi höfundar frá spurn til lausnar, en lausnin í Club Romantica var skýrari, afdráttarlausari. Þar tókst enda að hreyfa við áhorfendum og kalla fram rykkorn í auga yfir örlögum konunnar, en í Útlendingnum Morðsögu verður mun minna úr efninu af einhverjum ástæðum.
Það þarf ekki nema leita andartaksstund á vefnum að Ísdalskonunni til að finna sögu, sem vísar í margar áttir og ætti með aðferðafræði Friðgeirs Einarssonar að geta orðið að magnaðri sögu. Ísdalskonan fannst fyrir rúmum fimmtíu árum í dal nálægt Bergen sem heitir Ísdalurinn og af því örnefni er heitið Ísdalskonan dregið. Gátan um hana er ennþá óleyst, þótt norska lögreglan hafi nær óslitið reynt að komast að hinu sanna um hver hún var, á hvaða ferðalagi hún hafi verið og umfram allt, hvernig hún dó og, ef um morð er að ræða, hver sé þá hinn seki og hvað honum gekk til. Reyndar hefur höfuðkenning lögreglunnar verið að Ísdalskonan hafi fyrirfarið sér, eins trúlegt og það hljómar að hún hafi fyrst gleypt glás af svefntöflum og síðan hellt yfir sig bensíni og kveikt í. Og þaráður fjarlægt öll merki um hver hún væri, eins og að klippa auðkennismiða úr fatnaði, fjarlæga fingraför og ýmislegt annað sem getur valdið lögreglu vandræðum við rannsókn máls. Rannsókn málsins er sú umfangsmesta sem norska lögreglan hefur glímt við og verður helst borin saman við rannsóknina á morðinu á John F. Kennedy í Bandaríkjunum og morðinu á Olof Palme í Svíþjóð.
Einhverra hluta vegna lifnar þessi saga ekki til fulls í meðförum þeirra Friðgeirs og Snorra Helgasonar, sem sér um tónlistarflutning og bregður sér í hlutverk eiginkonu Friðgeirs þegar þörf krefur, frásagnarinnar vegna. Kannski er það einfaldlega svo að sagan af Ísdalskonunni er svo marslungin að hún ber sögumanninn ofurliði; að honum henti betur mínímalískari saga á borð við söguna af konunni á myndinni í albúminu til að frásagnartækni hans og sögumannshæfileikar njóti sín til fulls. Kannski hefði strangari dramatúrgísk úrvinnsla efnisins dugað til. Í fróðlegri grein Lilju Sigurðardóttur, glæpasöguhöfundar, í leikskrá segir að leitin að réttlætinu sé það sem drífi glæpasöguna áfram og að glæpasaga án réttlætis í lokin sé ekki fullnægjandi fyrir unnendur slíkra sagna. Kannski er þarna að finna einfalda svarið við því af hverju saga Friðgeirs virðist líkt og ófullburða – hún fer ekki alla leið, finnur ekki lausnina á gátunni um Ísdalskonuna.
Hvað sem því líður – sögur geta verið og eru margs konar og misjafnlega sagðar og þurfa ekki að vera síðri afþreying fyrir því. Friðgeiri tekst það sem er fágætt, og það er að hafa ofan af fyrir áhorfendum sínum í rúmar tvær klukkustundir og það er auðfundið á viðbrögðum áhorfenda að þeim líkar meira en vel sú afþreying sem á borð er borin, frásagnarmáti Friðgeirs er þeim að skapi og efnistökin eru vissulega ágætlega fersk. Það má heldur ekki horfa framhjá því að Friðgeir nýtur góðs og öruggs stuðnings af tónlist og tónlistarflutningi Snorra Helgasonar og þá eru leikmynd og búningar Brynju Björnsdóttur hvort tveggja snilldarlega útfært. Leikmyndin er fallega skandinavísk og bakveggurinn málaður af Viðari Jónssyni í expressjónískum stíl sem leiðir hugann að Ópi Munchs – sem er líka hæfilega absúrd vísun í frásögnina sem nær einhvern veginn ekki utan um átakasöguna sem mann grunar að leynist í sögunni um hina dularfullu Ísdalskonu. Þetta mikla málverk tekur líka vel við lýsingu Pálma Jónssonar og öll hin tónlistarlega og sjónræna umgjörð tekur á viðeigandi þátt í frásögninni.