Bragi Þór Jósefsson er ljósmyndari og hefur starfað sem slíkur í um 30 ár. Á síðasta ári hóf hann að mynda útisundlaugar úr lofti með dróna sér til gamans. Í byrjun myndaði hann laugar á höfuðborgarsvæðinu en síðan, þegar hann sá fram á minni umsvif vegna Covid, ákvað hann að mynda allar útisundlaugar á landinu með sama hætti. Bók er í bígerð með afrakstrinum og sett hefur verið upp söfnunarsíðu á Karolina Fund til að safna fyrir útgáfukostnaði.
Bragi segir að sumir segi að í íslenskum sundlaugum megi finna þjóðarsál okkar íslendinga. „Þar förum við til að rækta líkama og sál, hvort heldur með góðum sundsprett eða heitum umræðum um pólitík í heitu pottunum. Þegar Covid veiran skall á snemma árs 2020 var öllum sundlaugum hins vegar lokað og þær sátu auðar með vatnið engum til gagns. Þá sá ég tækifæri til að mynda þær úr lofti með dróna sem ég hafði hugsað um í nokkurn tíma að gæti verið gaman að gera eftir að ég myndaði sundlaugina í Vestmannaeyjum með þeim hætti fyrir hálfgerða slysni. Með því að mynda beint ofan á þær úr töluverðri hæð var hægt að breyta þeim í einskonar myndræna stúdíu með liti og form.“
Að mati Braga sjást breytingar á högum þjóðarinnar glöggt þegar sundlaugarnar eru séðar úr lofti. „Elstu laugarnar, byggðar fyrir miðja síðustu öld, eru lítið annað en stórt kar með vatni enda tilgangurinn einkum að nota þær til sundkennslu og sundiðkunar sem heilsurækt. Nýrri laugar, reistar frá miðri síðustu öld fram til aldamóta, bættu flestar við heitum pottum til slökunar og dægrastyttingar og þar varð til félagslegur vettvangur til daglegra skoðanaskipta undir beru lofti sem jafnaðist á við kaffihúsamenningu Parísar og breska kráarmenningu. Í nýjustu laugunum hafa svo litríkar rennibrautir fyrir ungviðið bæst við og laugarnar orðnar eins og einn allsherjarskemmtigarður þar sem allir aldurshópar geta fengið eitthvað við sitt hæfi.“
Í bókinni verður birt ein mynd af hverri sundlaug, allar teknar á sama hátt, með dróna í töluverði hæð og beint niður.
Bókin er hugsuð sem ljósmyndabók og áherslan því fyrst og fremst á hinum myndrænu formum hverrar laugar fyrir sig en hún getur líka gagnast sem einskonar yfirlitsrit yfir allar útisundlaugar á Íslandi en slíkt rit er ekki til, svo Bragi viti til.