Amy Alice Riches er myndlistarkona frá Bretlandi en hefur búið á Íslandi síðastliðin þrjú ár, heltekin af íslensku landslagi sem hún elskar að mála. Hún vinnur sem grafískur hönnuður og myndlistarkona, þar sem hún sérhæfir sig í landslagsmálun, bakgrunnshönnun og myndskreytingu. Amy leggur áherslu á að vinna úti í náttúrunni þar sem hún getur málað fyrirmyndirnar í eðlilegu umhverfi. Hún nýtur þess að mála, bæði stafrænt og með olíumálningu - helst með góðan tebolla sér við hlið. Síðastliðið ár setti hún sér það markmið að mála 100 málverk af eldgosinu í Fagradalsfjalli.
Amy segir hugmyndina hafa fæðst 20. mars 2021, daginn eftir að eldgosið í Fagradalsfjalli hófst. „Ég sat límd við vefmyndavélina og var að horfa á fyrsta eldgosið mitt. Ég varð svo hrifin af því að ég ákvað að mála eitt málverk á dag af eldgosinu á meðan á því stæði, eða a.m.k. í 100 daga, ef það myndi standa lengur.“
Bókin sem Amy er að safna fyrir á Karolina Fund er gerð til þess að fagna því að hún hafi klárað öll 100 málverkin. „Þetta er fyrsta bókin mín og er tilgangur bókarinnar fyrst og fremst að fagna áfanganum og deila málverkunum með heiminum. Söfnunin er til að safna nógu mikilli upphæð fyrir prentkostnað en ekki til gróða.
Málverkin voru flest máluð í olíumálningu, í skissubók að stærð A5. Þessi málverk verða prentuð í bókinni í fullum lit þar sem hægt er að sjá ótrúlega framþróun eldgossins með mínum augum. Einnig er hægt að sjá nokkrar myndir „bakvið tjöldin" og hvernig aðferð ég nota til að mála.“
Hún segir bókina tilvalda jólagjöf fyrir hvaða eldgosaáhugamann og myndlistarunnanda sem er.
Hér er hægt að skoða verkefnið og taka þátt í söfnuninni.