5. Partíið er búið (birtist 2. júlí)
„Það er ekkert sem ýtir fastar við stærsta kjósendahópnum, millistéttinni, en það þegar hún finnur að lífskjör hennar eru markvisst að skerðast. Sú staða er komin upp.
Þegar við bætist allt hitt: fúskið í kringum bankasölu, endalaus pólitísk hrossakaup, oftekin laun þjóðkjörinna fulltrúa og launahækkanir þeirra langt umfram það sem tíðkast í samfélaginu, málamiðlanir um lægstu samnefnara í lykilmálum, algjört aðgerðarleysi við að breyta gjaldtöku í sjávarútvegi og fjármálageira og þá sýnilegu staðreynd að sitjandi ríkisstjórnarflokkar eru varla sammála um neitt nema að hanga á völdum, þá er ekki furða að stjórnarflokkarnir séu að mælast í vandræðum.“ Leiðari eftir Þórð Snæ Júlíusson.
4. Hver á að hætta að eyða peningum? (birtist 27. ágúst)
„Við skulum bara tala af alvöru við hvort annað, ekki út frá talnaleikfimi, gaslýsingu eða lögmálum fólks sem deilir ekki kjörum með þorra fólks í landinu. Á Íslandi, sem er moldríkt land, er að teiknast upp ískyggileg mynd. Stór hluti fólks er þegar kominn í vandræði og nær ekki endum saman. Enn stærri hluti fólks finnur tilfinnanlega fyrir þeim gríðarlegu hækkunum sem daglegt líf kostar í þessari, að hluta til heimatilbúnu, dýrtíð. Þeir verst settu eiga ekki fyrir mat.“ Leiðari eftir Þórð Snæ Júlíusson.
Lestu leiðarann í heild sinni hér.
3. Verbúðin Ísland (birtist 12. janúar)
„Jón Hjaltalín, persóna Gísla Arnar Garðarssonar í Verbúðinni, er ekki byggð á einhverjum einum stjórnmálamanni. Hann er allir stjórnmálamennirnir sem hafa klifað á því að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar í aðdraganda kosninga en síðan lagst kylliflatir fyrir frekustu mönnum íslenskrar samtímasögu að þeim loknum.
Þegar hann og Harpa, persóna Nínu Daggar Filippusdóttur, renna saman í eitt ofan á skrifborðinu í fiskvinnslunni þá er sá samruni táknrænn fyrir helstu meinsemd íslensks samfélags: samruna sameiginlegra hagsmuna útgerðar og stjórnmála til að verja peninga og völd.“ Leiðari eftir Þórð Snæ Júlíusson.
2. Valdakarlarnir sem náðu ekki að þagga niður í konu (birtist 8. janúar)
„Þá reynir á fólk – og okkur hin – að standa í lappirnar. Að láta ekki meðvirkni eða hræðslu við afleiðingar stöðva sig í að ganga í málin. Í þessu tilviki sem hér um ræðir skorti þetta frumkvæði hjá stjórnum fyrirtækjanna Festi, Íseyjar útflutnings og Veritas því ekkert bólaði á neinum viðbrögðum fyrr en málið komst í hámæli í fjölmiðlum.“ Leiðari eftir Báru Huld Beck.
1. Tveir ríkir kjánar í hanaslag (birtist 29. janúar)
„Það er orðið samfélagslega áríðandi að Róbert Wessman og Björgólfur Thor komi sér saman um leið til að gera upp deilur sínar án aðkoma annarra, og fjarri almannarýminu. Þeir gætu kannski látið skipað gerðardóm sem getur skorið úr um hvor geti pissað lengra. Eða leigt Coloseum í Róm og barist líkt og skylmingaþrælar.
Aðferðin sem er valin skiptir ekki máli, heldur einungis það að okkur hinum verði haldið utan við þetta. Og að þeir hætti um leið að valda skemmdum á samfélaginu sem bjó þá til með þessum firrta hanaslag.“ Leiðari eftir Þórð Snæ Júlíusson.