Linus Dahg er Svíi sem starfar hjá fjárfestingafyrirtækinu Wellington Partners, sem sérhæfir sig í nýsköpunarfjárfestingum. Hann var staddur hérlendis í lok ágústmánaðar til að taka þátt í fjárfestadegi Startup Reykjavík, sem haldinn var í fjórða sinn í Arion banka. Þar hélt Linus meðal annars stutta tölu um af hverju alþjóðlegir fjárfestar séu að horfa til Norðurlandanna eftir fjárfestingatækifærum í nýsköpun.
Fyrirtækið sem Linus starfar hjá er með yfir 800 milljónir evra, tæplega 114 milljarða króna. Sjóðir þess eru því engin smásmíði. Hver fjárfesting sem sjóðurinn ræðst í er á bilinu 200 þúsund til fimm milljónir evra, eða allt að 710 milljónum króna.
Linus segir að fyrirtækið hafi verið að frá ofanverðum tíunda áratugnum. Það sé því einn af gömlu nýsköpunarsjóðunum í Evrópu. Fyrirtækið var stofnað í Þýskalandi en er nú með höfuðstöðvar í London. Linus sér um fjárfestingar á Norðurlöndum hjá Wellington Partners. „Áherslan hjá okkur er á þrjá kjarnamarkaði: Bretland, Norðurlönd og þýskumælandi lönd. Við fjárfestum að mestu í hugbúnaðarlausnum og starfrænni miðlun. Við fjárfestum ekki í neinum vélbúnaði. Wellington hefur verið nokkuð duglegt við að fjárfesta á Norðurlöndunum. Frægasta fjárfestingin okkar í dag er líklega Spotify. Við tóku þátt í annarri fjármögnunarlotu þeirra árið 2008.“
Skrýtin vinna
Þetta var fyrsta heimsókn Linusar til Íslands. Hann segist hafa viljað sjá hvað væri að gerast í nýsköpunar- og frumkvöðlasenunni á Íslandi. Hann segir það vel koma til greina að Wellington Partners fjárfesti á Íslandi. „Við erum að horfa nokkuð mikið til Norðurlanda vegna þess að okkur líkar við hugarfarið hjá frumkvöðlum á þessu svæði. Við höfum þegar litið á nokkur íslensk fyrirtæki en höfum enn sem komið er ekki fjárfest í þeim. Það er ekkert óvenjulegt. Alls skoðum við um tvö þúsund fyrirtæki á ári en fjárfestum í átta til tíu.“
Hann segir vinnuna sína að mörgu leyti vera skrýtna. „Helmingur hennar felst í því að hitta fólk. Ræða viðskiptaáætlanir, meta frumkvöðla og tala við aðra fjárfesta. Byggja upp sambönd og vonandi finna stórkostlega frumkvöðla til að styðja við bakið á. Það skiptir máli að komast að því hvaða viðskipti skipta máli og hvaða fyrirtæki eiga mesta möguleika á að ná árangri. Að átta sig á mörkuðum sem eru ekki til staðar en verða það kannski eftir tvö til fjögur ár. Við erum fá í teyminu okkar. Fjögur og hálft stöðugildi. Þannig að þegar ég segi að við eigum að gera díl þá gerum við vanalega díl.“
Aðspurður sagðist Linus hafa ætlað sér að nota
Íslandsheimsóknina til að hitta forsvarsmenn eins íslensks fyrirtækis sem hafði
fengið mjög góð meðmæli frá traustu fagfólki, með það fyrir augum að kanna
möguleika á fjárfestingu. Sá sem hann átti að hitta hafi hins vegar veikst.
Fengið hita. Því varð ekkert af fundinum í þetta skiptið.
Linus segist almennt ekki vita mikið um íslenskt nýsköpunarumhverfi. „Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég kom hingað. Ég vil læra meira. Ég vildi bæði fræðast og mynda tengsl. Ísland er mjög áhugaverður staður fyrir okkur. Þið hafið tekist á við efnahagshrunið á hátt sem flestar aðrar þjóðir dirfðust ekki að gera. Þið gerðuð ykkur grein fyrir því að þið væruð í djúpum skít, tókuð í hornið á nautinu og snéruð það niður. Mér finnst það segja ýmislegt um menninguna hérna og hugarfarið sem er ríkjandi. Þið þraukið.“
Nokkur íslensk fyrirtæki náð eftirtektarverðum árangri
Hann segir nokkra þætti gera Reykjavík að aðlandi stað til að setja á fót nýsköpunarfyrirtæki. „Í fyrsta lagi er það landfræðilegi þátturinn. Reykjavík er mun nær Bandaríkjunum en aðrar borgir á Norðurlöndum. Það skiptir máli. Í öðru lagi er aðgengi að fjármagni ágætt. Það virðist vera nokkuð frumkvæði í bönkum gagnvart því að taka þátt í nýsköpun. Í þriðja lagi þá hafa nokkur íslensk startup-fyrirtæki náð eftirtektarverðum árangri. Ef frumkvöðlar eru að gera svipaða hluti og þau, en kannski ekki beint í beinni samkeppni, þá eru tækifæri til að nýta sér mannauðinn sem hefur skapast. Það er alltaf slatti af hæfileikafólki sem verður til í þessum fyrirtækjum sem ganga vel sem vilja færa sig á milli.“
Aðspurður um hvaða fyrirtæki það séu sem hafi náð eftirtektarverðum árangri þá nefnir hann til að mynda Unity Technologies, sem framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, ekki síst leiki fyrir snjallsíma. Fyrirtækið er ekki beint íslenskt, höfuðstöðvar þess eru í San Francisco, en stofnandi þess og forstjóri er Íslendingurinn Davíð Helgason. „Auk þess hefur QuizUp vakið mikla athygli og Meninga eru komnir vel af stað.“
Ein af íslensku kynningunum á heimsmælikvarða
Líkt og áður sagði var Linus staddur hérlendis til að halda stutta tölu á fjárfestadegi hjá Startup Reykjavík, viðskiptahraðals sem er samstarfsverkefni Klak Innovit og Arion banka. Hraðallinn fjárfestir á hverju ári í tíu hugmyndum og hefur frumkvöðlunum á bakvið þær tækifæri til að þróa þær áfram. Á fjafestadeginum héldu allir verkefnahóparnir kynningu á hugmyndum sínum.
Linus segir að kynningarnar hafi verið misjafnar. „Sumar voru slakar. En nokkrar voru góðar og ein kynningin, sem 18 ára strákur hélt, var stórkostleg. Þú munt ekki heyra betri kynningu í San Francisco. Hún var á heimsmælikvarða. Áherslur, brandarar og bara allt var fullkomið. Ég er nokkuð viss um að allir sem yfirgáfu fundarsalinn muna eftir þessari kynningu.“
Sú kynning sem stóð svona uppúr að mati Linus var á vörunni Study Cake, sem er vettvangur fyrir nemendur og kennara þar sem heimavinna er gerð skemmtilegri og árangur mælanlegri.
Linus segir þó of snemmt fyrir fjárfestingasjóð eins og hans að koma að nokkru þeirra verkefna sem kynnt voru á fjárfestadeginum. Þau eigi öll nokkuð langt ferðalag eftir áður en fjárfesting frá slíkum sjóði er orðin raunhæf hugmynd. Einhverjar þeirra gætu þó hentar svokölluðum englafjárfestum, einkafjárfestum sem tilbúnir eru að taka mikla áhættu, gegn því að hagnast mjög vel ef dæmið gengur upp.