Bresk stjórnvöld hafa samþykkt loftslagsmarkmið sem miðar að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið um 53 prósent til ársins 2032 miðað við árið 1990. Þetta hefur glætt vonir breskra náttúruverndarsamtaka á ný eftir að Bretar ákváðu að yfirgefa Evrópusambandið á dögunum. Enn er þó þörf á strangari stefnumótun eigi markmiðin að nást, benda opinberir álitsgjafar stjórnvalda á.
Utanríkisráðherrar 35 helstu mengunarríkja í heimi funduðu í Berlín á hinum árlega Peterberg-fundi undir yfirskriftinni „Making the Paris agreement a reality“ á mánudag og þriðjudag. Fundinum er ætlað að brúa bilið á milli COP21 ráðstefnunnar í París og COP22 ráðstefnunnar sem haldin verður í Morókkó í nóvember.
„Brexit vekur upp margar spurningar fyrir orkugeirann, að sjálfsögu,“ er haft eftir Rudd á vef The Guardian. „Það hefur verið mikill hagur af því að geta átt viðskipti bæði innan Evrópu og að vera þröskuldur inn í Evrópu fyrir allan heiminn.“
Ný markmið eru sögð hafa hjálpað til við að sannfæra mikilvæga fjárfesta sem þurfa að koma að viðsnúningi orkukerfisins í Bretlandi. Fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember síðastliðnum tóku Bretar þátt í loftslagsmarkmiðum ESB um að minnsta kosti 40 prósent minni losun árið 2030 miðað við árið 1990. Samningurinn sem varð til í París var svo undirritaður í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í apríl. Ísland samdi með ESB um loftslagssáttmálann, ásamt Noregi, en enn á eftir að ljúka viðræðum Íslendinga við aðildarríki Evrópusambandsins og okkar „sanngjarna hluta“ í markmiðum sambandsins. Slík vinna er í undirbúningi í umhverfisráðuneytinu eins og Kjarninn greindi frá á dögunum.Nýr framkvæmdastjóri UNFCCC
Christiana Figueres, sem hefur gengt embætti framkvæmdastjóra Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, hefur lokið kjörtímabili sínu og hættir í þessum mánuði. Við embættinu tekur Patricia Espinosa, núverandi sendiherra Mexíkó í Þýskalandi.
Figueres ætlar nú að sækjast eftir stöðu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Því embætti gegnir nú Ban Ki-moon en kjörtímabili hans lýkur í lok árs. Figueres er sögð bera mikla ábyrgð á því að ná að leiða saman þjóðir heims til að gera sögulegt loftslagssamkomulag í París í desember síðastliðnum.
Fjölmargir hafa þegar lýst yfir framboði í það embætti og enn fleiri nefndir sem hugsanlegir frambjóðendur. Þar á meðal er áhrifamikið fólk á borð við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og norrænna leiðtoga á borð við Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, og Alexander Stubb, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands og núverandi fjármálaráðherra. Þá hefur þeim möguleika verið velt upp að Ólafur Ragnar Grímsson muni sækjast eftir embættinu þegar hann lætur af embætti forseta Íslands um næstu mánaðarmót.
Næsti framkvæmdastjóri verður valinn af Allsherjarþingi Sameinðuðu þjóðanna samkvæmt tilnefningu Öryggisráðsins. Aldrei hefur kona gengt embættinu. Venjulega veljast til verksins hófstilltir stjórnmálamenn eða diplómatar. Sjaldan eða aldrei hafa jafn margar konur sóst eftir stöðu framkvæmdastjórans og athygli vekur hversu margir frambjóðenda koma frá Austur-Evrópu.