Sérstakur gerðardómur fyrir íþróttir hafnaði áfríunarkröfu rússnesku ólympíunefndarinnar um að öllu rússnesku frjálsíþróttafólki verði bannað að keppa á Ólympíuleikunum í Río sem hefjast í byrjun ágúst. Alþjóða ólympíunefndin mun kynna ákvörðun sína um hvort bannið muni taka til allra rússneskra íþróttamanna á leikunum um helgina.
Tvær sérstakar rannsóknarnefndir sem könnuðu lyfjamisferli rússneskra íþróttamanna hafa komið upp um stórfellt lyfjasvindl á vegum rússneskra stjórnvalda. Á mánudaginn kynnti rannsóknarnefnd undir forystu Richard McLaren niðurstöðu sína um að stundað hafi verið víðtækt lyfjanotkunar- og lyfjaprófasvindl meðal rússneskra íþróttamanna á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí árið 2014. Svindlið hafi verið gert undir leiðsögn íþróttamálaráðuneytisins í Moskvu.
Í kjölfarið hafa ómað æ háværari raddir um að rússneska ólympíuliðinu verði bannað að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó. Óvíst er hins vegar hvort alþjóða ólympíunefndin muni grípa til þess ráðs að gera fordæmi úr öllum ólympíuförum Rússlands enda hafa ekki verið færðar sönnur á að allir hafi tekið þátt í svindlinu.
Thomas Bach, formanni ólympíunefndarinnar alþjóðlegu, hefur borist bréf frá tólf samtökum sem berjast gegn lyfjamisnotkun í íþróttum þar sem hann er hvattur til að banna rússnesku ólympíunefndina og meina íþróttamönnum á hennar vegum að keppa í Ríó.
Í bréfinu, sem greint er frá á vef The Guardian, er þeim tilmælum beint til Bach um að hann þurfi að sinna skyldu sinni og taka afstöðu gegn „stofnanavæddum, ríkisreknum lyfjamisferlum og misnotkun á íþróttamönnum“. Þannig verði orðspor Ólympíuleikanna ekki fyrir hnekki.
Hvernig sem fer þá er ólíklegra en hitt að frjálsíþróttaliðið verði það eina sem bannað verði. Alþjóða kraftlyftingasambandið er sagt vera við það að banna rússneska kraftlyftingaliðið, auk liðanna frá Hvíta-Rússlandi, Búlgaríu og Kasakstan.
Það er ekki víst að heiðarlegir rússneskir íþróttamenn geti keppt. Ef ólympíusambandið ákveður að útiloka Rússland frá leikunum munu íþróttamennirnir sótt um undanþágu takist þeim að sýna fram á sakleysi sitt. Þá fá þeir keppnisrétt á leikunum og keppa undir hlutlausu flaggi Ólympíuleikanna.
Þær ákvarðanir sem teknar verða nú í aldraganda leikanna í Ríó munu auðvitað setja mark sitt á keppnina. Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunin hefur sagt að eftir leikana verði unnið hörðum höndum að því að gera rússneskt íþróttaumhverfi öruggt fyrir íþróttamenn.