Líklegt er talið að Donald Trump, auðjöfur og forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, hafi komist undan því að borga alríkisskatt í Bandaríkjunum í allt að 18 ár frá árinu 1995 til 2013. Trump hefur ekki gert skattskýrslur sínar opinberar, þvert á þá venju að forsetaframbjóðendur geri slíkt, og fer undan í flæmingi þegar hann er inntur eftir svörum.
Ástæða þess að Trump er talinn hafa komist undan því að greiða skatt er að hann lýsti 916 milljóna dollara tapi á skattskýrslum fyrirtækja sinna árið 1995. Bandaríska dagblaðið The New York Times segist hafa skattskýrslur forsetaframbjóðandans frá 1995 undir höndum. Skattasérfræðingar sem rýnt hafa í gögnin segja að í bandarískum lögum sé gert ráð fyrir að ekki þurfi að borga skatta eftir risatap á borð við þetta.
Fréttaskýrendur vestanhafs segja þessar fregnir The New York Times setja upphrópunarmerki við eina verstu viku nokkurs forsetaframbjóðenda í manna minnum.
Alríkisskattareglur í Bandaríkjunum hygla auðugum sérstaklega í þessu tilliti og þess vegna getur verið að Trump hafi notað þetta risatap til þess að núlla út allar skattgreiðslur fram til ársins 2013. Áætlað er að það séu um það bil 50 milljónir dollarar á ári sem hann hafi komist undan að greiða.
Trump hefur borið það fyrir sig að hann sæti nú skattrannsókn og þess vegna geti hann ekki gefið út skattskýrslur sínar. Ítrekað hefur verið sýnt fram á að það sé rangt að skattrannsóknir komi í veg fyrir að hann geti birt skýrslurnar. Skattrannsóknarstjóri hefur til að mynda lýst því opinberlega að Trump hafi rangt fyrir sér.
Í yfirlýsingu frá kosningastjórn Trump segir að hann sé „mjög fær kaupsýslumaður sem hafi fjársýsluskyldur gagnvart fyrirtækjum sínum, fjölskyldu sinni og starfsfólki“. Þess vegna borgi hann alls ekki meira í skatta en hann löglega þarf.
Samkvæmt FiveThirtyEight hefur Donald Trump dregist afturúr undanfarna viku, eftir kappræður þeirra Trump og Hillary Clinton á mánudagskvöld. Nú eru taldar 67,3 prósent líkur á því að Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna en aðeins 32,7 prósent líkur á því að Trump taki við embættinu.