Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, segist reiðubúin til að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands gagnvart Bretum um sanngjarnan tíma. Ekki megi fresta atkvæðagreiðslunni lengi og alls ekki þar til eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að búist væri við því að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, neiti beiðni Skota um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði að sinni. Hún er sögð vilja bíða með slíka þjóðaratkvæðagreiðslu fram yfir að niðurstaða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu er ljós.
Sturgeon hafði áður lagt til að þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði yrði haldin á ný árið 2018, áður en Bretland getur gengið frá samningum við Evrópusambandið um útgöngu, það er Brexit. Í gær greindu breskir fjölmiðlar frá því að hún gæti ímyndað sér að fresta atkvæðagreiðslunni um annað ár.
Skotar kusu síðast um sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 og höfnuðu þá sjálfstæði með naumum meirihluta. Í kjölfar þess að Bretar völdu að ganga úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2015 hefur umræðan um sjálfstæði Skotlands náð flugi á ný, enda greiddu Skotar atkvæði gegn útgöngu úr ESB.
Sturgeon sagði í sjónvarpsviðtali að Theresa May hafi ekki verið sammála henni um þann tímaramma sem Skotar hafi lagt til. „Það er þá hennar að segja hvaða tímarammi sé hentugur og ég er reiðubúin að eiga það samtal um sanngjarnan ramma,“ sagði Sturgeon.
Hún sagði einnig að það væri ekki boðlegt að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu fram yfir næstu þingkosningar í Skotlandi árið 2021. „Ég tel það ekki vera skynsamlegt því þá verður búið að slíta Skotland út úr ESB.“
„Ef hún er að tala um vorið 2019, nokkru síðar en ég hafði lagt til, þá gæti verið ráðrúm til að ræða það. En fyrir mér er það ósanngjarnt í grundvallaratriðum af bresku ríkisstjórninni, hafandi sökkt bátnum með Brexit, að reyna að gera gat á björgunarbát Skotlands líka.“