Í ársbyrjun 2017 voru tæpir 36 þúsund innflytjendur á Íslandi, eða 10,6% mannfjöldans. Aldrei hafa verið fleiri innflytjendur á Íslandi, en þeim hefur fjölgað um 4.185 síðan í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu.
Fjölgun innflytjenda af annarri kynslóð var einnig nokkur, en þeir eru 4.473 samanborið við 4.158 í fyrra. Sömuleiðis fjölgaði einstaklingum með erlendan bakgrunn öðrum en innflytjendum úr 6,7% í 6,8% mannfjöldans.
Pólverjar eru sem fyrr langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi, eða 38,3% þeirra. Næst fjölmennastir eru Litháar (5,2%) og Filippseyingar í þriðja sæti (4,5%).
Árið 2016 fengu 703 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt. Það er nokkru færri en árið 2015, en þá var ríkisborgararéttur gefinn 801 einstaklingi. Flestir nýju ríkisborgaranna voru Pólverjar (224 manns), en næst flestir frá Filippseyjum (55).
Þessi þróun hefur haldist enn sem komið er, en á árinu 2016 fjölgaði erlendum ríkisborgurum um rúm fjögur þúsund á meðan innfæddum Íslendingum fækkaði um 146. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar var svo búist við því að innflytjendur verði fjórðungur þjóðarinnar eftir hálfa öld.