Flugfreyjur á Íslandi hafa nú safnað undirskriftum tæplega sex hundruð félagsmanna, þar sem þær hafna kynferðislegri áreitni og mismunun og skora á karlkyns samverkamenn að taka ábyrgð.
Í áskorun sem þær sendu frá sér í dag segja þær að kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun eigi sér stað í flugstéttinni, rétt eins og annars staðar í samfélaginu. Þó margir jafnréttissigrar hafi unnist með mikilli þrautseigju og vinnu starfssystra þeirra séu miklar leyfar af kynjamisrétti, stéttaskiptingu og hlutgervingu flugfreyja enn til staðar sem óprúttnir aðilar notfæra sér til að lítillækka, misnota og áreita konur innan stéttarinnar.
Þær nota myllumerkið #lending til að vísa í reynslu sína og sögur.
„Óþarfi er að taka fram að allir karlar gerast ekki sekir um áreitni eða mismunun – en hins vegar verða nær allar konur fyrir því á starfsferli sínum og það er algerlega óásættanlegt. Við krefjumst þess að karlkyns samverkamenn okkar taki ábyrgð; að fyrirtækin og stéttarfélagið taki af festu á málinu og komi sér upp eða skerpi á verkferlum og viðbragðsáætlun. Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur. Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur.
Fyrst og fremst á misréttinu að linna. Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Við stöndum saman og höfum hátt.
Þolendur fella karla ekki undir grun með nafnlausum frásögnum.
Gerendur fella aðra karla undir grun með hegðun sinni.
Þar liggur ábyrgðin,“ segir í áskoruninni.
Þær senda einnig frá sér 28 nafnlausar sögur þar sem þær lýsa reynslu sinni í starfi. Sögurnar sýna þann raunveruleika sem flugfreyjur þurfa að búa við í störfum sínu.
Þúsundir kvenna hafa skrifað undir áskoranir
Metoo-byltingin heldur áfram en þúsundir kvenna á Íslandi hafa nú skrifað undir áskorun þess efnis að kynferðisleg áreitni og ofbeldi verði stöðvuð í eitt skipti fyrir öll.
Hátt í 40 konur úr hinum ýmsu geirum íslensks samfélags komu fram á #Metoo viðburðum víða um land í gær þar sem lesnar voru frásagnir íslenskra kvenna í tengslum við þessa áhrifamiklu byltingu. Viðburðirnir fóru fram í Borgarleikhúsinu, Samkomuhúsinu á Akureyri og á Seyðisfirði.
Flugmaðurinn spyr hvort ég eigi börn, ég svaraði neitandi. Þá spyr hann hvort ég eigi kærasta og ég svaraði játandi. Þá segir flugmaðurinn „er kærasti þinn með ónýtt typpi?“ Ég var niðurbrotinn og sár eftir ummæli hans. Ég og maðurinn minn vorum búin að reyna eignast barn í nokkur ár en ekki tekist það. Núna eigum við þrjú dásamleg börn, en ég gleymi aldrei þessum flugmanni og dónaskapnum og niðurlægingunni sem hann beitti mér í vinnunni.
Hægt er að lesa allar 28 sögurnar hér.
Áskorunin í fullri lengd:
„Í skugga valdsins #METOO #höfumhátt #lending
Kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun á sér stað í flugstéttinni, rétt eins og annars staðar í samfélaginu. Þó margir jafnréttissigrar hafa unnist með mikilli þrautseigju og vinnu starfssystra okkar eru miklar leyfar af kynjamisrétti, stéttaskiptingu og hlutgervingu flugfreyja enn til staðar sem óprútttnir aðilar notfæra sér til að lítillækka, misnota og áreita konur innan stéttarinnar. Meðfylgjandi verða nafnlausar frásagnir kvenna sem lýsa reynslu sinni.
Óþarfi er að taka fram að allir karlar gerast ekki sekir um áreitni eða mismunun – en hins vegar verða nær allar konur fyrir því á starfsferli sínum og það er algerlega óásættanlegt. Við krefjumst þess að karlkyns samverkamenn okkar taki ábyrgð; að fyrirtækin og stéttarfélagið taki af festu á málinu og komi sér upp eða skerpi á verkferlum og viðbragðsáætlun. Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur. Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur.
Fyrst og fremst á misréttinu að linna. Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Við stöndum saman og höfum hátt.
Þolendur fella karla ekki undir grun með nafnlausum frásögnum.
Gerendur fella aðra karla undir grun með hegðun sinni.
Þar liggur ábyrgðin.“