„Það að stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar, tiltekinn þingmeirihluti, sitjandi ríkisstjórn eða einstakur ráðherra eigi hönk upp í bakið á ákveðnum dómurum grefur undan sjálfstæði þeirra og getur með réttu veikt tiltrú almennings á dómskerfinu.“ Þetta kemur fram í greinargerð Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, sem Kjarninn hefur undir höndum, í máli þar sem þess er krafist að Arnfríður Einarsdóttir, nýskipaður Landsréttardómari, víki sæti í dómsmáli, á þeim grundvelli að hún hafi ekki verið skipuð í embættið með réttum hætti. Kjarninn fékk greinargerðina afhenda frá Hæstarétti.
Vilhjálmur krafðist þess fyrir hönd skjólstæðings síns að Arnfríður viki sæti þegar málið var flutt fyrir Landsrétti. Í þarsíðustu viku úrskurðaði dómurinn, og þannig Arnfríður sjálf, að hún væri hreint ekkert vanhæf. Vilhjálmur kærði þá niðurstöðu til Hæstaréttar sem á eftir að úrskurða í málinu.
Lestu um gang málins fyrir Landsrétti hér.
Í greinargerð Vilhjálms segir meðal annars að það sé lykilatriði að fagleg hæfni þeirra sem sækja um dómaraembætti ráði því hverjir veljast til dómarastarfa, en ekki stjórnmálaskoðanir og pólitísk tengsl viðkomandi umsækjanda eða geðþótti dómsmálaráðherra. Að öðrum kosti sé vegið að sjálfstæði dómsstóla, trausti almennings á dómstólum og rétti sakaðra manna til þess að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstóli sem skipaður sé með lögum samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
Brynjar gaf oddvitann til Sigríðar - sem skipaði konuna hans dómara
Þess ber að geta að Arnfríður er eiginkona Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og nefndarmanns í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Brynjar hefur þó sagt sig frá störfum nefndarinnar þegar kemur að málefnum Landsréttar.
Í greinargerðinni segir um Brynjar að hann sé flokksbróðir dómsmálaráðherra og hafi í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga vikið úr fyrsta sæti á lista flokksins í Reykjavík suður fyrir dómsmálaráðherra. „Aðspurður um ástæður þess að hann gæfi eftir oddvitasæti í Reykjavík sagði Brynjar meðal annars að hann hafi talið rétt að kona leiddi listann og dómsmálaráðherra væri svo öflug kona,“ segir í greinargerðinni.
„Nokkrum mánuðum áður, í janúar 2017, þegar verið var að mynda nýja ríkisstjórn og ráðherraval Sjálfstæðisflokksins lá fyrir hafði Brynjar lýst því yfir að hann væri ekki sérstaklega sáttur við að vera ekki ráðherra,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að við sama tækifæri hafi Brynjar sagst vilja horfa til niðurstöðu kosninga þegar komi að ráðherraembættum og lýðræðið væri bara þannig að það hefði verið haldið prófkjör og úr því hafi komið sú niðurstaða að það væru fimm karlar og ein kona og bætti við að hann vildi bara horfa til þess að menn virði niðurstöðu kosninga.
Vilhjálmur segir það vekja furðu, þegar þessi ummæli Brynjars eru höfð í huga, að hann hafi ákveðið að víkja úr oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem hann hafði verið kosinn til að skipa og gefa sætið eftir til dómsmálaráðherra vegna þess að hann teldi rétt að kona skipaði fyrsta sæti listans. „Með því varð ljóst að Brynjar yrði ekki ráðherra kæmi til þess að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi að myndun nýrrar ríkisstjórnar sem síðar varð raunin.“
Kúvending á afstöðu
Vilhjálmur veltir því upp hvað hafi gerst á þessum nokkrum mánuðum, frá janúar til september 2017, sem varð til þess að Brynjar kúventi afstöðu sinni að eingöngu ætti að horfa til niðurstöðu kosninga við niðurröðun á framboðslista.
„Um það verður vitaskuld ekkert fullyrt en eitt af því sem sannarlega átti sér stað á þessu tímabili var að 29. maí 2017 gerði dómsmálaráðherra það að tillögu sinni við Alþingi að Arnfríður, eiginkona Brynjars, yrði skipuð dómari við Landsrétt, ekki einungis þvert á álit dómnefndar heldur einnig án þess að sérstakt mat færi fram á hæfni Arnfríðar til þess að gegna embættinu,“ segir í greinargerðinni.
Vilhjálmur segir enn, líkt og þegar málið var flutt fyrir Landsrétti, að umbjóðandi hans hljóti að spyrja sig að því hvers vegna dómsmálaráðherra var svo mikið í mun að skipa Arnfríði í embætti dómara við Landsrétt, hvers vegna hæfustu umsækjendurnir samkvæmt ítarlegu og rökstuddu áliti dómnefndar voru ekki skipaðir og hvers vegana dómsmálaráðherra hafi kosið að brjóta lög til þess að Arnfríður gæti orðið landsréttardómari.
„Þessum spurningum getur varnaraðili vitaskuld ekki svarað með vissu að svo vöxnu máli en sú staðreynd að varnaraðili má með réttu leiða hugann að þeim gerir það að verkum að ásýnd dómsins, hlutrænt séð, er ekki sú að hann sé sjálfstæður.“
Gert er ráð fyrir að Hæstiréttur skili niðurstöðu sinni í þessari viku, en það er skriflega flutt. Dómararnir Markús Sigurbjörsson, Viðar Már Matthíasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson sitja í dómnum í málinu.