Trump er aftur kominn í vandræði vegna greiðslu til að þagga niður mál honum tengd. AP fréttastofan greinir frá því að slúðurblaðið The National Enquirer hafi greitt fyrrverandi dyraverði í Trump-turninum í New York að nafni Dino Sajudin 30,000 dollara. Ástæðan fyrir greiðslunni er hins vegar óljós. Samkvæmt heimildum AP var Sajudin greitt fyrir að þegja yfir sögusögnum um að Trump hafi eignast barn með einum af starfsmönnum byggingarinnar. Að sögn aðstoðarritstjóra The Enquirer greiddi blaðið honum hins vegar fyrir söguna, því ef hún væri sönn myndi það borga sig margfalt til baka.
Þau hafi hins vegar fallið frá málinu því heimildarmaðurinn þótti ekki nógu öruggur. Systurútgáfa The Enquirer greindi frá greiðslunni fyrr í vikunni og að Enquirer hafi eytt fjórum vikum í að rannsaka málið en hafi fallið frá málinu vegna ónægra sönnunargagna.
Fyrrverandi blaðamaður The Enquirer segir að óvenjulegum vinnubrögðum hafi verið beitt við vinnslu á málinu en blaðið er þekkt fyrir að ganga langt til að ná draga fram sönnunargögn í málum. Blaðamaðurinn fyrrverandi sagði einnig að honum þætti ólíklegt að blaðið myndi eyða þessari fjárhæð í sögusagnir án þess að birta nokkuð um málið.
AP fréttastofan hefur staðfestingu fyrir því að Michael Cohen, lögfræðingur Trumps, hafi rætt við tímaritið um mál dyravarðarins. Vakna því upp spurningar um tengsl tímaritsins við Trump og lögfræðinga hans.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem upp kemst að tímaritið hafi greitt einhverjum fyrir að þegja yfir upplýsingum tengdum Trump. Átta dögum fyrir forsetakosningarnar í nóvember 2016 greindi The Wall Street Journal frá því að The Enquirer hafi greitt Playboy fyrirsætunni Karen McDougal fyrir að þegja yfir samskiptum sínum við Trump.
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar nú samskipti lögfræðings Trumps og stjórnenda The Enquirer en fyrr í vikunni var greint frá því að FBI gerði húsleit á skrifstofu Cohens. Lögfræðingar eru einnig rannsaka mál lögfræðings Trumps og hvort hann hafi brotið kosningalög þegar hann greiddi klámstjörnunni Stormy Daniels fyrir að þegja yfir samskiptum sínum við forsetann. Cohen segist hinsvegar hafa greitt henni úr eigin vasa og því ekki brotið nein lög.