Hæstiréttur hefur samþykkt að veita leyfi til áfrýjunar í máli sem Arnfríður Einarsdóttir dæmdi í Landsrétti. Rétturinn mun því skera úr um hvort Arnfríður hafi verið með réttu handhafi dómsvalds þegar hún dæmdi í málinu. Stefnt er að því að dæma í málinu fyrir réttarhlé í júní og fer það því fram fyrir einhver ódæmd mál hjá réttinum.
Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Kjarninn hefur fjallað um málið en forsagan er sú að Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður, gerði þá kröfu að Arnfríður viki sæti þar sem hún var einn þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru í réttinn af Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra þrátt fyrir að vera ekki meðal þeirra sem hæfnisnefnd hafði talist hæfasta til að gegna embættinu.
Landsréttur hafnaði kröfu Vilhjálms þann 22. febrúar síðastliðinn og sagði að skipuninni yrði ekki haggað. Alþingi hafi samþykkt skipunina og á þeim grundvelli hafi forseti Íslands skipað hana. Þá liggi fyrir að Arnfríður uppfylli og uppfyllti við skipunina almenn hæfisskilyrði samkvæmt lögum um dómstóla. Sem skipuðum dómara beri henni að rækja þann starfa sem embættinu fylgir í samræmi við stjórnarskránna. Þá njóti hún sjálfstæðis í embættisathöfnum sínum, meðal annars gagnvart ráðherra sem gerði tillögu um skipan hennar í embættið.
Vilhjálmur sótti um áfrýjunarleyfi vegna dómsmálsins til Hæstaréttar. Í frétt RÚV kemur fram að hann telji mikilvægt að æðsta dómstig landsins skeri úr um hvort skipan Arnfríðar hafi verið lögum samkvæmt. Það sé ekki sjálfgefið að Hæstiréttur veiti slíkt leyfi. Enn fremur kemur fram að Jón H.B. Snorrason, saksóknari í málinu, hafi sent Hæstarétti bréf fyrir helgi, þar sem fram komi stuðningur hans við að leyfið verði veitt.
Hæstiréttur féllst svo á það í gær, samkvæmt RÚV, að veita áfrýjunarleyfið. Í bréfi sem rétturinn sendi aðilum málsins segir meðal annars:
Sakborningurinn telur skilyrði „fyrir veitingu áfrýjunarleyfis vera uppfyllt þar sem meðal dómara í málinu fyrir Landsrétti hafi verið dómari sem ekki sé með réttu handhafi dómsvalds með því að skipun viðkomandi í embætti hafi ekki verið lögum samkvæm. Ákæruvaldið fellst á að mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um það álitaefni, en telur að niðurstaða Landsréttar um refsingu og sviptingu ökuréttar [sakborningsins] sé í samræmi við dóma í sambærilegum málum.
Að virtum gögnum málsins er beiðnin samþykkt.“
„Þetta er í fyrsta skipti sem Hæstiréttur veitir leyfi til áfrýjunar á dómi úr Landsrétti. Samkvæmt upplýsingum frá réttinum er stefnt að því að dæma í málinu fyrir réttarhlé, sem hefst seint í júní. Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, segir að það þýði að dæmt verði í málinu áður en dæmt verður í nokkrum fjölda einkamála sem bíða dóms,“ segir í fréttinni.