Sigurður Ingi Jóhannesson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um póstþjónustu. Breytingarnar fela meðal annars í sér að heimila Íslandspósti að setja gjaldskrá fyrir erlendar póstsendingar sem mæta á raunkostnaði við sendingarnar. Verði frumvarpið að lögum mun það því leiða til aukins kostnaðar þeirra sem versla við erlendar netverslanir.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að rekstarleyfishafa verði veitt heimild til að senda rafrænar upplýsingar til erlendra tollyfirvalda, flutningsaðila eða póstrekenda erlendis til að auðvelda flutning póstsendinga milli landa. Í greinargerð frumvarpsins segir að verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á afkomu Íslandspósts og mögulega ríkissjóðs.
Heimilt að leggja á sérstakt gjald á viðtakendur erlendra póstsendinga
Íslandspóstur, sem er í eigu ríksins og sinnir alþjónustuskyldu, tapaði 293 milljónum á árinu 2018 en hagnaður fyrirtækisins var 216 milljónir árið á undan. Fjárhagsstaða Íslandspósts hefur verið varhugaverð um nokkurn tíma. Í september í fyrra leitaði Íslandspóstur á náðir ríkisins og fékk 500 milljónir króna að láni til að bregðast við lausafjárskorti eftir að viðskiptabanki þess, Landsbanki Íslands, hafði lokað á frekari lánveitingar. Nokkrum mánuðum síðar, í desember, samþykkti Alþingi að lána fyrirtækinu allt að milljarð til viðbótar.
Fram hefur komið af hálfu Íslandspósts að hluti af þeim fjárhagsvanda sem fyrirtækið stendur nú frammi fyrir sé tilkominn vegna þeirrar skyldu fyrirtækisins að sinna alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins.
Ísland er aðili að Alþjóðapóstsambandinu og þar með þjóðréttarlega bundið af samþykktum sambandsins, meðal annars hvað varðar endastöðvargjöld. Endastöðvargjöld eru gjöld sem rekstarleyfishafa er heimilt að innheimta af erlendum póstrekendum fyrir vinnslu og dreifingu bréfa frá útlöndum. Flest iðnríki fá hins vegar mun lægri endastöðvargjöld vegna ákvæða samningsins. Samkvæmt greinargerð frumvarpsins veldur það því að tekjur af endastöðvargjöldum eru í mörgum tilfellum langt frá því að standa undir raunkostnaði við móttöku, söfnun, flokkun, flutning og skil á póstsendingum.
Íslandspóstur hefur því bent á að kostnaður fyrirtækisins vegna erlendra póstsendinga hefur aukist gríðarlega síðustu ár og nemur um 500 milljónum króna á ári. Neytendur greiða í dag einungis þriðjung sendingarkostnaðar frá Kína þar sem Kína er enn skilgreint sem þróunarland.
Koma í veg fyrir að skattfé verði notað til að niðurgreiða sendingar frá útlöndum
Í greinargerð frumvarpsins segir að því þyki ráðherra nauðsynlegt að leggja fram þær breytingar á lögum sem taki mið af óbættum raunkostnaði við gjaldtöku vegna erlendra pakkasendinga, óháð ákvæðum um endastöðvarsamninga. Verði frumvarpið að lögum verður rekstrarleyfishafa, sem nú er Íslandspóstur, heimilt að leggja sérstakt gjald á viðtakendur erlendra póstsendinga.
Þá segir jafnframt að markmiðið með frumvarpinu sé í raun að verja stöðu ríkissjóðs til framtíðar litið og koma í veg fyrir að skattfé verði notað til að niðurgreiða kostnað vegna sendinga frá útlöndum. Auk þess telji ráðuneytið að breytingin muni hafa jákvæð áhrif á samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendum netverslunum.
Í frumvarpinu er auk þess kveðið á að rekstrarleyfishafi geti ekki farið þess á leit við Póst- og fjarskiptastofnun að honum verði með fjárframlögum tryggt endurgjald fyrir þjónustu vegna erlendra póstsendinga.
Nettótekjur Íslandspósts gætu aukist um 400 milljónir króna
Í greinargerð frumvarpsins segir að frumvarpið sé einnig tilkomið vegna kröfu frá erlendum ríkjum um að fá sendar tollaupplýsingar rafrænt til flýta fyrir tollmeðferð. Til að bregðast við þeim kröfum þykir ráðherra mikilvægt að í póstlögum verði heimild til að senda og taka við rafrænum skeytum með tengiupplýsingum um sendanda, viðtakanda og innihald póstsendinga. Sé slík heimild ekki fyrir hendi getur það leitt til þess að póstur frá Íslandi sæti miklum töfum í ákvörðunarlandi og verði jafnvel stöðvaður.
Jafnframt segir í greinargerðinni að ákvæði frumvarpsins sem varða rafrænar sendinga muni leiða til þess að mögulega verði hægt að draga úr kostnaði rekstarleyfishafa hvað varðar sendingu til og frá landinu. Þá segir að ef frumvarpið verði að lögum og taki gild fyrir 1. maí næstkomandi gætu nettótekjur rekstarleyfishafa aukist um 400 milljónir króna fyrir árið 2019.
Frumvarpið mun líklega hafa víðtæk áhrif á rekstur Íslandspósts
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, sagði starfi sínu lausu sem forstjóri eftir fjórtán ára starf í síðustu viku. Í yfirlýsingu frá Ingimundi sagði að frumvarp Sigurðs Inga um breytingar á póstlögum taki á lagaumhverfi póstþjónustunnar og mikilvægt sé að nýr forstjóri komi að og fái svigrúm til að leiða póstþjónustuna inn í nýja tíma.
„Með nýjum póstlögum verða miklar breytingar á fyrirkomulagi póstþjónustunnar og munu þau mjög líklega hafa víðtæk áhrif á rekstur Íslandspósts. Frumvarpið gerir ráð fyrir afnámi einkaréttar ríkisins á dreifingu áritaðra bréfa og þar er jafnframt opnað fyrir möguleika á fjármögnun á þeim hluta lögbundinnar póstþjónustu, sem ekki stendur undir kostnaði tengdum henni. Mikilvægt er að nýr forstjóri fái möguleika á því að koma að og mótaundirbúning nauðsynlegra breytinga, sem óhjákvæmilega fylgja gildistöku hinna nýju laga í ársbyrjun 2020, og hafi þá jafnframt möguleika á að fylgja þeim eftir,“ sagði Ingimundur.
Sigurður Ingi hefur einnig mælt fyrir frumvarpi nýrra heildarlaga um póstþjónustu á yfirstandandi þingi en samkvæmt frumvarpinu er fyrirhugað að afnema einkarétt ríkisins á póstmarkaði og koma á samkeppni í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins.