Kennurum án kennsluréttinda hefur fjölgað á hverju ári frá 2012 en fram að því hafði þeim fækkað frá 2008. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar. Samkvæmt þeim var áttundi hver kennari við grunnskóla án kennsluréttinda haustið 2018 og fjölgaði um 214 á milli ára.
Grunnskólanemendur hafa aftur á móti aldrei verið fleiri, en frá árinu 1998 hefur þeim fjölgað um 8,2 prósent. Starfsmönnum hefur fjölgað um 39,1 prósent á síðustu tuttugu árum. Fjölgun starfsmanna sem starfa við stuðning hefur verið töluverð, meðal annars hefur fjöldi skólasálfræðinga og námsráðgjafa tvöfaldast og fjöldi stuðnings- og uppeldisfulltrúum fjölgað úr 247 í 1.161.
Karlmönnum fækkar
Kvenkyns skólastjórum hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 1998 og eru nú 123. Á sama tíma hefur karlkyns skólastjórum fækkað um 77 og voru 48 haustið 2018. Alls starfa 169 grunnskólar á landinu.
Á sama tíma og konum sem starfa við kennslu fjölgaði um 1.300 hefur karlmönnum í greininni fækkað um 200. Alls starfa nú 900 karlmenn við kennslu í grunnskólum.
Aldrei fleiri með erlent móðurmál
Nemendur með erlent móðurmál hafa aldrei verið fleiri. Þeim fjölgaði um 10,6 prósent og voru tæplega 4.900 haustið 2018. Hagstofan tekur þó fram að einhverjir þessara nemenda séu tvítyngdir og hafi einnig íslensku sem móðurmál. Flestir þeirra sem hafa erlent móðurmál tala pólsku, og þá hafa 350 filippseysk mál og á þriðja hundrað ensku, tælensku eða litháensku sem móðurmál.
Nemendum með erlent ríkisfang hefur einnig fjölgað jafnt og þétt og eru 2.500 talsins. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var fjöldi barna á grunnskólaaldri með erlendan bakgrunn rúmlega 3.300 árið 2017.