Varðhundar feðraveldisins klóra í bakkann með því að kæra þolendur fyrir meiðyrði. Þeir reyna að draga úr ofbeldi og upplifun fólks sem verður fyrir ofbeldi segir Eva Sigurðardóttir í samtali við Kjarnann. Eva er í skipulagsteymi Druslugöngunnar í ár.
Druslugangan hefst klukkan 14 á laugardaginn en varningssala byrjar klukkan 13 fyrir framan Hallgrímskirkju. Í ár er engin ákveðin yfirskrift Druslugöngunnar en þó eru ákveðnir hlutir sem skipuleggjendur vilja leggja áherslu á. „Eins og í fyrra vildum við leggja áherslu á að allir geti orðið fyrir ofbeldi óháð kyni, uppruna og stétt. Kynferðisofbeldi getur gerst allst staðar og geta gerendur og þolendur verið alls staðar. Við viljum vera meira inklúsív,“ segir Eva.
Eva segir Druslugönguna vera mikilvægt vopn í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. „Við þurfum að hlada áfram þangað til að þetta er ekki lengur partur af samfélaginu,“ segir hún.
Aldís Schram og Sigrún Bragadóttir munu flytja ávarp
„Aldís Schram og Sigrún Bragadóttir, hannyrðapönkari og aktívisti munu flytja ávarp á göngunni,“ segir Eva. Auk þess verða ýmsir viðburðir í vikunni, til að mynda verður „Peppkvöld“ Druslugöngunnar kl 8 í kvöld í Gamla bíói. „Sá viðburður er undirbúningur til að fá druslur til að koma saman og skemmta sér í öruggu rými,“ segir Eva.
Ýmsir tónlistarmenn munu spila á kvöldinu, til að mynda Milkywhale, Countess Malaise, Girl Power hópurinn og mun kvöldið enda á DJ Völu. „Kvöldið er haldið svo fólk geti komið saman og haft gaman án þess að hafa áhyggjur,“ segir Eva.
Annað kvöld verður skiltagerð fyrir Druslugönguna á Loft hosteli kl 7. „Sigrún Bragadóttir verður með hannyrðatengda vinnustofu. Við hvetjum fólk til að mæta til að koma sínum skilaboðum áleiðis,“ segir Eva. „Þú þarft ekki að kaupa druslubol. Þú getur skrifað eitthvað á bol og verið í honum í göngunni. Við viljum að þú takir völdin í þínar eigin hendur.“
Eva segir alla velkomna á Druslugönguna. „Hún er ekki bara fyrir brotaþola eða fjölskyldur brotaþola heldur alla sem eru á móti ofbeldi,“ segir Eva. „Slagurinn er ekki búinn og það er mikilvægt að mæta.“