Fljótlega eftir að faraldur kórónuveirunnar braust út í Kína fóru að berast fregnir af því að körlum væri hættara við að veikjast alvarlega af sjúkdómnum og deyja. Á þessum fyrstu vikum var þó ekki hægt að staðfesta að það hefði beinlínis með eðli veirunnar að gera. Talið var að þetta mætti útskýra með því að kínverskir karlmenn reyktu mun meira en konur og að starfsumhverfi þeirra væri oft ekki heilsusamlegt.
En eftir því sem veiran breiddist út til fleiri landa virtist sama mynstrið blasa við: Þegar komið væri yfir ákveðinn aldur væru karlmenn í meirihluta þeirra sem veiktust alvarlega. Nýlegar tölur frá Bretlandi sýna til dæmis að karlmenn eru helmingi líklegri en konur til að látast úr COVID-19 og rúmlega 70 prósent þeirra sem látist hafa á Ítalíu eru karlmenn.
Samkvæmt opinberum tölum margra ríkja hafa fleiri karlmenn en konur lagst inn á gjörgæsludeildir sjúkrahúsa og fleiri karlmenn hafa einnig látist. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að hér á landi komi þessi sami kynjamunur fram í fjölda þeirra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús og gjörgæslu. Tíu hafa látist hér á landi vegna COVID-19, sex konur og fjórir karlar.
Síðustu vikur hefur kynjamunurinn komið sífellt betur í ljós víða um heim. „En það er ekki vitað með vissu af hverju þetta stafar,“ segir Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði, í samtali við Kjarnann. Arnar hefur verið iðinn við að svara spurningum almennings á Vísindavefnum og hefur lesið sér til um niðurstöður rannsókna sem þegar hafa verið gerðar á kynjamuninum.
„Það er eitthvað í gangi, það er alveg ljóst,“ segir Arnar en setur þann fyrirvara að enn eigi eftir að rannsaka heilmargt í þessu sambandi. „Sterkustu breyturnar viðast vera aldur og kyn“. Nýleg bresk rannsókn á 17 milljón Englendingum sýnir að dánartíðni COVID-19 smitaðra eykst mjög með aldri. Miðað við aldurshópinn 50-60 ára er tvöföld áhætta meðal 60-70 ára, 4,8-föld hjá 70-80 ára og um 12,6-föld hjá fólki eldra en áttrætt. Til samanburðar var dánartíðni karlmanna metin tvöföld umfram kvenfólk.
„Það er ekki útilokað að kynjamunurinn skýrist af félagslegum eða atferlislegum þáttum að hluta,“ segir Arnar. „Eru karlar að hittast oftar utan heimilis? Eru þeir með viðkvæmari öndunarfæri vegna vinnuumhverfis eða lifnaðarhátta?“
Einhverjar rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til þess að karlar séu ekki eins duglegir og konur við að þvo sér um hendurnar. Þá leita þeir sér síður læknishjálpar ef eitthvað bjátar á. En þegar mynstrið er farið að sýna sig í löndum um allan heim þá hafa vaknað grunsemdir um að umhverfisþættirnir séu ekki það sem fyrst og fremst valdi þessum mismun.
Fyrri rannsóknir sem Sabra Klein, prófessor við lýðheilsudeild John Hopkins-háskóla, hefur gert sýna að viðbragð ónæmiskerfis karla við veirusýkingum er annað en hjá konum. Kenningin er sú að ónæmiskerfi þeirra bregðist ekki við ákveðnum veirum í fyrstu en fari svo á yfirsnúning þegar á líður. Sú hastarlega ónæmisræsing getur valdið meiri skaða en gagni.
Arnar segir að ætla megi, m.a. með rannsóknir Klein í huga, að undirliggjandi sé einhver lífeðlisfræðilegur munur milli kynja að meðaltali. Hann geti tengst ónæmiskerfinu, hormónabúskapnum, hvoru tveggja eða einhverju allt öðru.
Óvenjuleg ónæmisræsing
Læknar hér á landi sem og annars staðar hafa séð hversu mikil ónæmisræsing verður hjá sjúklingum með COVID-19. Nýja kórónuveiran virðist ræsa með einhverjum hætti ónæmissvar líkamans meira en aðrar veirur. Vísbendingar eru um að það sé ekki aðeins veirusýkingin sjálf sem valdi alvarlegum veikindum og jafnvel dauða heldur þessi ofsafengna svörun ónæmiskerfisins sem getur skaðað vefi líffæra.
„Þá á eftir að svara spurningunni hvað veldur ofsaviðbragði í ónæmiskerfinu, af hverju ónæmiskerfi karla virðist frekar en kvenna fara á yfirsnúning,“ segir Arnar.
Kenningar Klein og fleiri eru þær að skýringin felist ef til vill í svokölluðum Toll-viðtökum en gen tveggja slíkra eru á X-litningum. Konur eru með tvo X-litninga en karlar með einn. „Og það að vera með tvö eintök af geni sem hefur vissa virkni gefur þér þá möguleika á meiri vörn gegn ákveðnum hlutum,“ útskýrir Arnar. „Það gæti á einhvern hátt gert ónæmiskerfið betra til að takast á við til dæmis nákvæmlega þessa veirusýkingu.“
Toll-viðtakar þekkja einsþátta RNA erfðaefni veira, en veiran sem veldur COVID-19 hefur einmitt þannig erfðaefni.
Þegar eru vísbendingar um að ónæmiskerfi kvenna bregðist fyrr við nýju kórónuveirunni í kjölfar sýkingar en karla. Það gæti skýrt það af hverju þær fái almennt mildari einkenni og í styttri tíma.
Önnur tilgáta er sú að mismunurinn tengist ólíkum hormónabúskap kynjanna. Hins vegar er ýmislegt sem grefur undan þessari hugmynd. Áhættan á því að veikjast alvarlega af COVID hækkar með aldrinum. Kynhormónar kvenna lækka með hækkandi aldri. Frances Hayes, kvensjúkdómalæknir við aðalsjúkrahúsið í Massachusetts, bendir á að sjötíu ára gömul kona sé með nánast sama magn af estrógen og jafnaldri hennar af karlkyni.
Ónæmiskerfi kvenna gæti verið að verja þær betur en karla fyrir alvarlegum veikindum í faraldrinum nú en Klein bendir á að sömu viðtakar og gagnast konum að því leyti eru þeir sem verða til þess að þær eru mun líklegri en karlar til að fá sjálfsofnæmissjúkdóma. Talið er að konur séu um áttatíu prósent þeirra sem fá slíka sjúkdóma sem geta valdið miklu raski á daglegu lífi fólks og jafnvel alvarlegum langvinnum veikindum.
Erfðir og sjúkdómar
Þekkt er, af augljósum ástæðum, að sumir sjúkdómar leggjast aðeins á karla og aðrir aðeins á konur. Þetta eru sjúkdómar sem tengjast æxlunarfærum fólks.
Umhverfi og erfðir hafa einnig áhrif á það hvernig ólíkir sjúkdómar leggjast á hvert og eitt okkar. „Margir umhverfisþættir geta stuðlað að sjúkdómi og margir erfðaþættir sömuleiðis,“ segir Arnar. „Sjúkdómar eru misjafnlega arfgengir. Þannig að í sumum sjúkdómum skipta umhverfisþættir mestu en í öðrum eru það erfðaþættir. En flestir sjúkdómar verða til við blöndu af þessu tvennu.“
COVID-19 er kárlega umhverfissjúkdómur, bendir Arnar á, „þarna er veira sem kemur úr umhverfinu og inn í líkamann. Kveikjan er umhverfisleg en síðan hafa nýjar rannsóknir, meðal annars á tvíburum, leitt í ljós að erfðafræðileg samsetning einstaklinga kunni að hafa áhrif á hversu alvarlega fólk veikist af sjúkdómnum. En þetta á eftir að rannsaka miklu meira og niðurstöðunum ber því enn sem komið er að taka með fyrirvara.“
Erfðir geta haft áhrif á líkurnar á því að fólk smitast af sjúkdómum og einnig hversu alvarlega. „Það er þekkt hvað varðar margar veirur og sýkla. Sumir eru útsettari en aðrir fyrir ákveðnum sýkingum eftir því hver erfðasamsetning þeirra er. Það hefur til dæmis sýnt sig hvað varðar HIV-veiruna.“
Rannsóknir á þessum þáttum taka langan tíma enda þarf að hafa svo margt í huga við framkvæmd þeirra. Það verður því væntanlega eitthvað í að við fáum að vita nákvæmlega hvað það er í erfðum okkar sem veldur þessum breytileika. „Þetta er opin spurning ennþá og líka sú hversu sterkur erfðaþátturinn er í þessu sambandi.“
Arnar er í þann veginn að leggja lokahönd á enn eitt svarið við spurningu sem barst Vísindavefnum. Orðið vísindi og vísindamenn hafa verið á allra vörum upp á síðkastið. Þeir hafa líka verið áberandi í fréttum og viðtölum fjölmiðla um allan heim.
Í dag svaraði hann svo spurningu blaðamanns Kjarnans á Vísindavefnum, um einmitt efni þessarar greinar: Leggst COVID-19 harðar á karla en konur?
Skynja sjúkdóminn sem ógn
Vísindavefurinn hefur nýst almenningi vel til að fræðast um faraldurinn frá ýmsum hliðum. Fólk er meðal annars forvitið um hvernig veiran varð til, hvaðan hún kom og hvert hún er að fara. „Fólk skynjar þetta eðlilega sem ógn og þá er nauðsynlegt að það geti leitað sér traustra upplýsinga.“
Arnar segir að sú ímynd sem kannski margir hafi haft af vísindamanni „að hann sitji einn í stól í sínu horni og rýni í skjöl og smásjár og reddi málunum“ hafi vonandi breyst. „Þetta er hópavinna þar sem vísindamenn með ólíkan bakgrunn og þekkingu starfa saman að úrlausn mála.“
Hann segir það aðdáunarvert hversu margir vísindamenn hafa einhent sér í það að afla sér upplýsinga um kórónuveiruna og leggja svo sína þekkingu ofan á þær og rannsaka út frá ýmsum þáttum. „Það má segja að allir þeir sem vettlingi geta valdið hafi lagt sín lóð á vogarskálar vísindanna,“ segir hann. „Þessu fylgja þó skuggahliðar og moldviðri vegna þess að ýmislegt er sagt og gert sem byggt er á veikum grunni. Þess vegna er svo mikilvægt að rýna í allt sem fram kemur og alhæfa ekkert án þess að staðreyndirnar liggi fyrir.“
Þekking á faraldsfræði og smitsjúkdómum hefur auðvitað reynst lykilatriði og þó að vísindamennirnir séu að læra eitthvað nýtt um veiruna á nánast hverjum degi þá eru grunnfræðin til staðar til að byggja á. Mikilvægi vísindanna hefur komið berlega í ljós síðustu mánuði.
„Annað sem mér finnst aðdáundarvert er hvað flestir eru sammála um að þekkingu og gögnum sé deilt með öðrum – án allra landamæra,“ segir Arnar. Þannig hafa yfirvöld og almenningur til dæmis getað fylgst nokkuð náið með þróun faraldursins í hverju landi fyrir sig. Vísindamenn hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessu og deilt gögnum og niðurstöðum sinna rannsókna opinberlega og með kollegum. „Þetta er ekki ný aðferð, að opna vísindin og deila gögnum með öðrum. Þetta er oft gert en núna sést svo bersýnilega hversu mikilvægt það getur verið. Það hefur verið flott að fylgjast með þessu.“