Algjörlega er horft fram hjá einkafyrirtækjum sem sérhæfa sig í námskeiðahaldi og fræðslumiðlun í sumarúrræðum stjórnvalda er lúta að námi. Þetta er mat tveggja framkvæmdastjóra slíkra fyrirtækja.
Háskólarnir fá um 500 milljónir króna vegna sérstakra sumarúrræða fyrir námsmenn. Hluti þess fjármagns fer svo til endurmenntunardeilda háskólanna.. Vegna þessa geta skólarnir boðið upp á námskeið fyrir þrjú þúsund krónur, námskeið sem áður gátu kostað tugi þúsunda. Námskeiðin eru sérstaklega ætluð ungum námsmönnum sem og þeim sem hafa misst atvinnu sína í kórónuveirufaraldrinum en í raun og veru getur hver sem er sótt námskeiðin. Meðal skólanna sem bjóða upp á námskeiðin eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands.
Endurmenntunardeildir í samkeppni við einkamarkaðinn
„Okkur finnst þetta dálítið sérstakt, að það sé í raun og veru verið að halda þessu innan ríkisins. Eins og við horfum á þetta þá er auðvitað nógu erfitt að reka einkafyrirtæki með öllum þeim áföllum sem hafa dunið yfir síðustu mánuði. Okkar rekstur hér í mars og apríl, við stöðvuðum hann út af tilmælum stjórnvalda,“ segir Jón Jósafat Björnsson framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi.
Hann segist vera orðinn dálítið óþreyjufullur í bið sinni eftir aðgerðum stjórnvalda sem gætu nýst í rekstrinum, brúarlán eða lokunarstyrki. „Svo kemur að því að mennta ungt fólk og aðra yfir sumarið og þá gerast hlutirnir mjög hratt. Menn færa fé inn í ráðuneytið og snúa sér eingöngu að háskólanum sem aftur lætur fjármagnið flæða inn í endurmenntunardeildir sínar til að keppa beint við einkamarkaðinn, það er auðvitað sérstök staða.“
Hann segir að stuðningur við menntun sé af hinu góða en að samráð við þá sem þekkja til í geiranum hafi vantað: „Það sem er klárlega grátlegt í þessu fyrst að menn fóru af stað í þetta sem er auðvitað frábært, hvers vegna var ekki sest niður með öllum aðilum? Hvers vegna treysta menn ekki öðrum til að koma fram með framboð sem vantar?“
Getur ekki keppt við verð endurmenntunar
Ingrid Kuhlman framkvæmdastjóri hjá Þekkingarmiðlun tekur í sama streng. „Auðvitað styð ég það að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að styrkja atvinnuleitendur og fólk sem vill bæta við sig þekkingu. Vandamálin við þessi úrræði er að þau standa bara háskólunum til boða,“ segir Ingrid.
Endurmenntunardeildirnar bjóða upp á fjölbreytt námskeið og framboð þeirra skarast að einhverju leyti við framboð einkafyrirtækjanna, líkt og Ingrid bendir á: „Þetta eru meðal annars námskeið um jákvæða sálfræði, um breytingastjórnun og um árangursríka framkomu. Þetta eru allt námskeið sem einkaaðilar bjóða líka upp á. Nú er ég með framkomunámskeið og um teymisvinnu. Það er alveg ljóst að við sem einkaaðilar á fræðslumarkaði getum ekki keppt við þessi verð. Það er alveg ljóst að ég mun ekki bjóða upp á nein námskeið í jákvæðri sálfræði í bili.“
„Okkur finnst þetta ekki sanngjarnt og þetta skekkir samkeppnina,“ segir Ingrid sem vonar að hugsunarleysi hjá stjórnvöldum hafi ráðið því að einkafyrirtæki hafi ekki fengið að vera með í ráðum.
Hugsað fyrir þá sem lenda í atvinnuvandræðum
Kristín Jónsdóttir Njarðvík, endurmenntunarstjóri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, hefur þetta að segja um framboð námskeiða hjá Endurmenntun HÍ: „Þetta eru úrræði stjórnvalda og þau setja 500 milljónir í háskólastigið eins og komið hefur fram. Þeir setja 500 milljónir í háskólana til þess að koma með úrræði fyrir háskólanema, bæði þá sem eru í háskólanum, þá sem hyggjast fara í háskólanám og þá líka fyrir fólk sem er á krossgötum atvinnulega séð og myndi vilja breyta að einhverju leyti um starfsvettvang.“
Spurð að því hvort þetta sé ekki undarlegt í samkeppnislegu tilliti svarar Kristín: „Þetta er ákvörðun stjórnvalda, það er ekki mitt að hafa skoðun á því, við tökum bara þátt í þessu með Háskóla Íslands. Í sjálfu sér finnst mér þetta gott framtak hjá stjórnvöldum til að koma til móts við þennan hóp.“
Aðspurð um það hvort að námskeiðin geti einnig hentað þeim sem eru í hlutastarfi segir Kristín: „Þetta er hugsað svona fyrir þá sem eru að lenda í vandræðum í vinnu, geta verið í hlutastarfi eða verið búin að missa vinnuna eða sjá fram á að missa hana.“
Námskeiðin standa öllum til boða
Þrátt fyrir að námskeiðin sem falla undir sumarúrræði stjórnvalda séu sérstaklega ætluð „ungum námsönnum og þeim sem misstu atvinnu sína í Covid-19 faraldrinum,“ þá standa þau hverjum sem er til boða. Til dæmis stendur í námskeiðslýsingu fyrir námskeiðið Gagnasöfn og SQL hjá Endurmenntun Háskóla Íslands að það sé „Tilvalið fyrir starfsmenn hugbúnaðarfyrirtækja eða –deilda sem ekki eru tölvunarfræðingar. Hentar t.d. einnig viðskiptafræðingum sem vinna með mikið gagnamagn og vilja kanna kosti þess að færa gögnin og vinnslu þeirra yfir í „alvöru“ gagnasafnskerfi.“Hinir skólarnir bjóða líka upp á námskeið sem höfðað gætu sérstaklega til fagfólks. Hjá Opna háskólanum sem er endurmenntunardeild Háskólans í Reykjavík er boðið upp á námskeiðið Að leiða markaðsstarf í gegnum krefjandi tímabil. Í námskeiðslýsingu segir um námskeiðið: „Námskeiðið hentar einstaklingum sem vilja styrkja stöðu sína. Einnig þeim stjórnendum sem þurfa að takast á við áskoranir á eftirspurnahlið fyrirtækja. Fyrir sérfræðinga í markaðsmálum og/eða stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja sem eru undir áhrifum Covid-krísunnar.“
Þessi námskeið eru einingis hluti þeirra námskeiða sem í boði eru hjá endurmenntunardeildum háskólanna. Einnig eru í boði námskeið sem sérstaklega munu nýtast námsfólki í undirbúningi fyrir háskólanám svo dæmi séu tekin. Öll námskeið sem eru hluti af framboði endurmenntunardeilda vegna sumarúrræða stjórnvalda kosta, líkt og áður segir, þrjú þúsund krónur.