Menntamálaráðuneytið er bundið af fjárlögum um fjárveitingar til framhalds- og háskóla og því aðeins heimilt að veita því fjármagni sem lagt var inn í sumarúrræði stjórnvalda fyrir námsmenn til þeirra.
Þetta kemur fram í svari frá ráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans, þar sem meðal annars var spurt hvers vegna sumarúrræði stjórnvalda ná ekki til einkaaðila á fræðslumarkaði.
Í svarinu segir: „Í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra til fjáraukalaga 2020 II voru lagðar til breytingar á 3. og 4. gr. fjárlaga 2020, um að hækka fjárheimildir til framhaldsskóla um 300 m.kr. og til háskólastigs um 500 m.kr., með það að markmiði að setja upp sértæk námsúrræði sumarið 2020. Ráðuneytið er bundið af fjárlögum um fjárveitingar til framhalds- og háskóla og aðeins er heimilt að veita fjármagni til þeirra skv. hækkun á fjárheimildum málefnasviða 20 og 21 í fjárlögum. Því var sá möguleiki að láta fjármagn ætlað framhaldsskólum og háskólum renna til annarra fræðsluaðila ekki til staðar, enda er starfsemi þeirra fjármögnuð með öðrum hætti, t.d. í gegnum fræðslusjóð og 2 ma.kr. fjárveitingu félagsmálaráðuneytisins vegna vinnumarkaðsúrræða. Vinnumálastofnun kemur að framkvæmd vinnumarkaðsúrræða og sér um framkvæmd þjónustu við atvinnuleitendur. Sú stofnun leitar eftir þörfum til ýmissa fræðsluaðila s.s. símenntunarmiðstöðva og einkaaðila sem bjóða upp á náms- og ráðgjafaþjónustu.“
Líkt og fram kemur í svarinu hækkuðu fjárframlög til háskólastigs um 500 milljónir króna vegna sumarúrræða stjórnvalda fyrir námsmenn. Peningunum var ætlað að efla nám á sumarmisseri bæði fyrir þá sem nú þegar eru í námi og fyrir þá sem hyggja á háskólanám eða vilja efla færni sína. Þegar námsframboðið var svo kynnt var ljóst að hluti af fjárframlögunum hefði verið veitt inn í endurmenntunardeildir háskólanna. Það hefur gert endurmenntunardeildunum kleift að bjóða upp á námskeið í sumar á niðurgreiddu verði. Námskeið sem áður kostuðu tugi þúsunda kosta nú þrjú þúsund krónur.
Nú hefur Félag atvinnurekenda (FA) sent formlega kvörtun til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, vegna niðurgreiðslu stjórnvalda á námskeiðum sem haldin eru í endurmenntundardeildunum. Ástæðan er sú að endurmenntunardeildirnar eru í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki. Endurmenntunardeildirnar hafa til þessa ekki notið opinberra fjárframlaga og tekjur þeirra eru fyrst og fremst í formi námskeiðsgjalda.
„FA færir að því rök í kvörtuninni til ESA að útfærsla niðurgreiðslunnar brjóti gegn 61. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en hún leggur bann við samkeppnishamlandi ríkisstyrkjum, sem hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna. Áðurnefnd námskeið opinberra og/eða ríkisstyrktra háskóla eru meðal annars í beinni samkeppni við námskeið fyrirtækja í öðrum EES-ríkjum, sem haldin eru á netinu fyrir íslenska viðskiptavini eða í samstarfi við íslensk fræðslufyrirtæki,“ segir í tilkynningu á vef FA. Þá segir einnig í tilkynningu að styrkirnir hafi ekki verið bornir undir ESA af hálfu stjórnvalda líkt og til dæmis ferðagjöfin.