Dánartíðni af völdum COVID-19 á Ítalíu er hærri meðal fátækra íbúa landsins heldur en hjá þeim sem hærri hafa tekjurnar. Þetta eru niðurstöður fyrstu rannsóknar sem þarlend yfirvöld gera á félagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins en frá þessu er sagt í frétt Reuters.
Í árlegri skýrslu Instituto Nazionale di Statistica (ISTAT), sem hefur svipuðu hlutverki að gegna og Hagstofan hérlendis, er dánartíðni skoðuð frá janúar 2019 til mars 2020. Í skýrslunni er sérstaklega horft til menntunarstigs þeirra sem hafa látist hafa á tímabilinu.
Að jafnaði eru lífslíkur meðal þeirra sem hætta skólagöngu snemma minni heldur en meðal þeirra sem eru langskólagengnir og dánartíðni meðal ómenntaðra sé því hærri en hjá menntuðum. Í skýrslunni kemur fram að munur á dánartíðni milli þessara hópa hafi haldist stöðugur frá janúar í fyrra fram í febrúar í ár. Í mars hafi munurinn hins vegar aukist á þeim svæðum sem illa urðu fyrir barðinu á veirunni.
Haft er eftir Lindu Sabbadini, tölfræðingi hjá ISTAT, að gögn um menntun væru aðgengilegri en gögn um tekjur og aðra félagslega þætti. Að hennar mati hafi því verið góð nálgun að líta til menntunarstigs, en af því ráðast tekjur og stéttarstaða að miklu leyti.
Lágtekjuhópar eru taldir hafa verið berskjaldaðri fyrir veirunni vegna þess að lágtekjufólk sé líklegra til þess að sinna störfum sem krefjist viðveru , til að mynda í landbúnaði, í kerfi almenningssamganga og í umönnunarstörfum. Þá er líklegra að ómenntað fólk búi þrengra og jafnvel með mörgum öðrum, sem gerir fólki erfiðara um vik að halda fjarlægð frá öðrum.
Ekki var merkjanlegur munur á dánartíðni ómenntaðra sem komnir eru yfir áttrætt og dánartíðni menntaðra á sama aldri. Ekki fannst heldur merkjanlegur munur á milli dánartíðni ómenntaðra og menntaðra á þeim svæðum þar sem útbreiðsla veirunnar var lítil.
Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Ítalíu grátt en það var fyrsta Evrópulandið til að glíma við mikla útbreiðslu veirunnar. Fjöldi smitaðra jókst hratt strax eftir að veiran greindist þar fyrst þann 21. febrúar síðastliðinn og náði fjöldi nýgreindra smita hámarki í lok mars. Alls hafa 240 þúsund greinst með veiruna þar í landi og samtals hafa tæplega 35 þúsund látist.