„Mig og dóttur minni langar að bjóða einum kettlingi í fjölskylduna. Okkur langar mest í einhvern loðbolta en erum þó aðallega að huga um einhvern karakter sem heillar okkur.“
„Er að leita að kisu á hvaða aldri sem er, úti- eða innikisu. Lofa ástríku heimili!“
„Er einhver með kettling gefins?“
„Hæhæ, ég óska eftir kettlingi á mjög gott heimili.“
„Er einhver með kettling i heimilisleit? Mun ávalt vera dekraður og elskaður.“
„ÓE ungri innikisu. Get borgað með henni.“ [ÓE þýðir „óska eftir“.]
Þau eru oft fá svörin sem berast við færslum á Facebook þessa dagana þar sem óskað er eftir kettlingum og fullorðnum köttum. Aðeins annað slagið birtist svar yfir höfuð. Sumar auglýsingarnar eru ítrekaðar nokkrum sinnum.
Margir virðast þrá að eignast kött. Stundum „helst einhvern loðbolta“ en öðrum er slétt sama um kyn og útlit. Það vill „kisu á hvaða aldri sem er“.
Á kisusíðunum á Facebook eru viðbrögð við auglýsingum um kettlinga og fullorðna ketti í heimilisleit mun meiri. Stundum gríðarleg. Á þriðja tug svara bárust til dæmis við færslu þar sem stóð: „Ég er með þrjá kettlinga fædda í júní í leit að góðu heimili.“
„Já, það væri æðislegt!“ svarar einn um hæl. „Er til í einn,“ skrifar annar. „Áttu mynd?“ spyr sá þriðji. „Ég er mikil kisumamma,“ skrifar áhugasöm kona og bætir við: „Munum að við erum að taka kisur að okkur til frambúðar.“
Með færslu um þriggja mánaða kettling sem er í leit að heimili er birt mynd af grábröndóttum kettlingi með stór og forvitin augu. Og stór eyru. „Almáttugur minn! Hvernig er þetta bara hægt. Þessi slær alla krúttskala.“
Það eru engar ýkjur. Þessi litli kettlingur er mjög sætur, liggjandi á sæng í mannarúmi með tandurhreinar hvítar og loðnar loppur. Enda láta viðbrögðin ekki á sér standa. „Ég er tilbúinn að fá mér kettling,“ skrifar einn.
Í annarri auglýsingu stendur: „Þetta litla krútt er að leita að heimili. Hún er alveg að vera fjögurra mánaða.“ Mynd fylgir. Litla læðan er þrílit og hallar undir flatt á meðan hún horfir beint í myndavélina. „Í draumalitunum okkar. Getum tekið við henni. Búin að senda þér skilaboð,“ er skrifað nær samstundis og auglýsingin birtist. „Ég vil eiga hana,“ segir í öðru svari. Alls eru svörin um 30. Reikna má með að enn fleiri sendi viðkomandi einkaskilaboð.
Svo mörg svör berast við hverri auglýsingu að þær eru sumar hverjar horfnar af síðunum nær samdægurs.
En hvað veldur þessu kattafári hjá landanum og hvað ber að hafa í huga áður en loðinn einstaklingur er boðinn velkominn í fjölskylduna?
„Það er meiri eftirspurn eftir köttum en áður, aðallega kettlingum,“ segir Hanna Evensen, rekstrarstjóri Kattholts í samtali við Kjarnann. „Það er alveg slegist um þá.“
Á þessum árstíma koma venjulega margar kettlingafullar læður til Kattholts. Engin breyting hefur orðið á því í ár að sögn Hönnu. „Sumar hafa fundist úti en aðrar koma til okkar í heimilisleit frá fólki sem ræður ekki við að hafa þær.“
Hanna segir að eftirspurn eftir kettlingum hafi alltaf verið mikil. En þar sem fólk sér ekki fram á mikil ferðalög erlendis á næstunni vegna COVID-faraldursins, gæti það haft þau áhrif að fleiri finna þörf til að fá sér „nýja fjölskyldumeðlimi“.
Ekki algengt að fólk losi sig við ketti
Hún segir minna um það en áður að fólk fái sér kettling og losi sig svo við hann þegar aðstæður breytast, t.d. ferðalög standi fyrir dyrum. Margir eru orðnir meðvitaðir um að í Kattholti sé fínt kattahótel þar sem dýrin hafa það náðugt á meðan aðrir í fjölskyldunni eru á ferðalagi.
Í Kattholti er sá háttur hafður á að fólk sækir um að fá ketti sem þar dvelja. „Umsóknarferli fer í gang þegar fólk kemur hingað og vill ættleiða kött,“ útskýrir hún. „Oft er það þannig að ef það koma þrjátíu umsóknir um kettling og þær eru að okkar mati allar jafn góðar, þá er ekkert annað í stöðunni fyrir okkur en að snúa umsóknunum á hvolf og draga.“
Í umsóknarferlinu er hvorki verið að dæma einn né annan heldur að kanna við hvaða aðstæður kötturinn mun búa, t.d. hvort hann geti farið út í framtíðinni og þar fram eftir götunum. „Hver sem er getur orðið góður kattareigandi. En fólk verður algjörlega að gera sér grein fyrir því að þetta er ekki skammtímalausn fyrir einhvern sem leiðist í sumarfríinu. Það þarf að passa upp á ketti og gefa þeim mikla ást og hlýju í fimmtán til átján ár. Fólk verður líka að gera sér grein fyrir því að kettlingurinn verður fullorðinn köttur sem muni lifa lengi – í sumum tilfellum í tuttugu ár.“
Mjási hefur verið valinn kisi júlí mánaðar af starfsfólki Kattholts <3 Mjási er aldursforseti Kattholts og algjör...
Posted by Kattholt on Thursday, July 2, 2020
Hanna segir að flestir sem áhuga hafi á því að fá sér kött og komi í Kattholt í þeirri leit sinni geri sér grein fyrir þessu. „Mér finnst hafa orðið mjög mikil vitundarvakning í samfélaginu hvað þetta varðar. Fólk er ekki lengur að fá sér sætan kettling sem það síðan losar sig við þegar hann verður stór.“
Henni finnst að fólk sé almennt farið að taka meiri ábyrgð á dýrunum sínum en áður. „Kettir gefa eigendum sínum mikið – það er þvílík gleði sem fylgir því að hafa kisur í kringum sig.“
Fósturheimili fyrir kettlingafullar læður óskast
Í Kattholti eru ekki bara kettlingar í heimilisleit heldur einnig eldri kisur. Núna dvelur þar til dæmis þrettán ára fress. Hann fær mikið knús frá öllum sem koma að skoða en kettlingarnir verða oftar fyrir valinu en þeir eldri. „En á endanum finnum við heimili fyrir þá eldri líka. Við gefum þeim allan þann tíma sem þeir þurfa þar til að fullkomna fjölskyldan kemur og sækir um.“
Í athvarfinu eru nú einnig nokkrar kettlingafullar læður sem starfsmenn Kattholts eru að reyna að finna tímabundin fósturheimili fyrir. Eftir að hafa dvalið á fósturheimilum um nokkra vikna skeið eru svo fundin framtíðarheimili fyrir læðurnar og kettlingana.